26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

299. mál, kennsla í sjúkra- og iðjuþjálfun

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það er hverju orði sannara hjá hv. fyrirspyrjanda að hér er um mikið alvörumál að ræða. Það virðist ekki vera ýkjalangt síðan stjórnarvöld fóru að taka það nokkuð föstum tökum, þó að þörfin hafi e.t.v. verið augljós áður. Ég hef látið athuga gang málsins í rn. og fengið yfirlit um hann, sem ég ætla hér með að kynna, og verða það svör mín við spurningum hv. fyrirspyrjanda:

Með bréfi, dags. 3. júlí 1973, skipaði menntmrn. n. til að athuga möguleika á því að stofnað yrði hér á landi til menntunar sjúkra- og iðjuþjálfa og hvernig slíku námi yrði fyrir komið. Í n. voru skipuð Þórður Einarsson fulltrúi í menntmrn. formaður, Hannes Blöndal prófessor, skipaður skv. tilnefningu læknadeildar Háskóla íslands, Haukur Þórðarson yfirlæknir, skipaður skv. tilnefningu Læknafélags Íslands, Guðlaug Sveinbjarnardóttir sjúkraþjálfari, skipuð skv. tilnefningu heilbr.- og trmrn. og María Þorsteinsdóttir sjúkraþjálfari, skipuð skv. tilnefningu Félags ísl. sjúkraþjálfara. Með bréfi rn., dags. 6. mars 1974, var sú breyting gerð á skipun n. að Runólfur Þórarinsson fulltrúi í menntmrn. var skipaður form. í stað Þórðar Einarssonar, sem óskaði eftir því að verða leystur frá formennsku þar eð hann hafði þá látið af starfi í menntmrn.

Nefnd þessi hefur þegar haldið allmarga fundi og boðaði á tvo þeirra sex kennara við læknadeild Háskóla Íslands, þrjá í hvort skipti. Var einkum rætt um möguleika á því að tengja kennslu í sjúkraþjálfun að einhverju leyti kennslu í læknadeild. Nm. og þeim aðilum, sem n. hefur rætt við, er ljóst að ýmis vandkvæði eru á því að koma kennslu í sjúkraþjálfun á fót, m.a. vegna skorts á kennurum. Eini íslenski sjúkraþjálfarakennarinn, frú Ella Kolbrún Kristinsdóttir, er nýlega komin til landsins eftir 3 ára kennslustarf í Bretlandi og vinnur sem ráðgefandi aðili með fyrrgreindri nefnd.

Þá er og þess að geta að sjúkraþjálfararnir í n., þær Guðlaug Sveinbjarnardóttir og María Þorsteinsdóttir, sóttu alþjóðlegt þing sjúkraþjálfara sem haldið var í Montreal í Kanada síðari hluta júnímánaðar. Þeim var falið af rn. að afla upplýsinga um kennslu í sjúkraþjálfun, einkum þó í Kanada, og safna ýmsum gögnum þar að lútandi. Grg. þeirra var síðan send deildarráði læknadeildar Háskólans til umsagnar og lýsti deildarráð sig eindregið fylgjandi þeim hugmyndum, sem fram komu í grg., að samstarf yrði haft við háskólann í Manitoba um að koma á fót kennslu í sjúkraþjálfun hér á landi. Í framhaldi af þessu hefur rn. ritað háskólanum í Manitoba og óskað eftir fyrirgreiðslu og aðstoð við að koma fyrrgreindri kennslu á fót. Má gera ráð fyrir að fulltrúi frá þeim háskóla komi alveg á næstunni, ég hygg núna upp úr mánaðamótunum, til viðræðna og ráðleggingar um þessi mál. Vonir standa til að unnt reynist að hefja kennslu haustið 1975 ef allt gengur að óskum og fjárveiting verður veitt til þess á fjárl. næsta árs. Háskólinn hefur lagt fram beiðni um 3 millj. kr. fjárveitingu í þessu skyni og mun ég vinna að því að sú fjárveiting fáist.

Um kennslu í iðjuþjálfun er það hins vegar að segja að samkv. upplýsingum fyrrgreindrar n. er enn engin vinnunámsaðstaða fyrir hendi og skortur er á iðjuþjálfurum sem gætu verið ábyrgir fyrir kennslu í þeirri grein. Gera má þó ráð fyrir að unnt reynist að hefja undirbúning að kennslu í iðjuþjálfun innan 3–4 ára.

Þetta er það yfirlit, sem ég hef fengið um málið frá rn., og ég hef engu við það að bæta öðru en því, að ég mun fyrir mitt leyti gera það sem mér er unnt til að greiða fyrir framgangi þessa mikla nauðsynjamáls.