26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

299. mál, kennsla í sjúkra- og iðjuþjálfun

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans og ágætar undirtektir. Ég veit að hann gerir sér ljóst hvílíkt nauðsynjamál hér er um að ræða.

Ég vil ekki neita því að ein meginástæðan fyrir því, að ég ber nú í þriðja sinn þessa fsp. fram, er sú að það er ekki gert ráð fyrir neinni fjárveitingu til þessa máls í frv. til fjárl. 1975. En mé þykir vænt um að heyra að nú er kominn skriður á málið og að úr þessu muni verða bætt.

Það er mikið talað um vöntun á kennslukröftum, en ég verð að segja það að ég hef aldrei getað fallist á að við gætum ekki menntað sjúkraþjálfara og iðjuþjálfara úr því að við getum menntað lækna. Verulegur hluti af sjúkraþjálfaranáminu fer fram jafnhliða fyrstu námsárum læknadeildar og ég held að Háskólinn hafi einmitt áhuga á því að koma þessu saman. Hér hafa verið að störfum um áratugi ágætir sjúkraþjálfarar og ég efast ekki um að þeir séu færir um að kenna, og eins og menntmrh.. hæstv. drap á er hér líka sjúkraþjálfari sem hefur fengið sérskólun til kennslu. Ég held því að slíkt sé ekki fyrir hendi lengur, við séum vel færir um að hefja þessa kennslu og hvert árið sem það dregst geti hins vegar orðið okkur dýrkeypt. Það er mjög slæmt fyrir okkur ef það dregst miklu lengur að hefja þetta nám vegna þess að þetta er 3–4 ára nám og við erum þegar í öngþveiti í þessum efnum.