09.05.1975
Efri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3717 í B-deild Alþingistíðinda. (2851)

224. mál, tónlistarskólar

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hér hljóðs vegna þess að ég fæ ómögulega betur séð en það sé misskilningur hjá hv. 12. þm. Reykv. að hér sé óvarlega farið í sambandi við hag sveitarfélaganna. Ég lít aftur á móti þann veg á að sú brtt., sem hér er borin fram af Ragnari Arnalds og Axel Jónssyni, sem er árangur af viðræðum, sem við, sem í menntmn. erum, áttum um þessi málefni, og árangur af umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga, sé til þess að tryggja að það náist sá árangur sem ætlast er til með frv. til l. um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Að öðru leyti er örugglega í frv. í 5. gr. greinilega tekið fram að slíkir skólar eru ekki styrkhæfir nema sveitarstjórn vilji. Það er greinilega tekið fram: „Nú berst umsókn um styrk til tónlistarskóla sem er að hefja starfsemi, og skal þá styrkur ekki veittur fyrr en viðkomandi sveitarfélag hefur kannað allar aðstæður til að starfrækja styrkhæfan skóla á viðkomandi atað.“ Á öðrum stað er talað um að sveitarfélagið á að samþykkja rekstraráætlanir fyrir tónlistarskóla, svo að ég fæ ómögulega betur séð en tryggilega sé um þessa hnúta búið og því ástæðulaust að ætla að það sé hægt að koma upp með tónlistarskóla og krefjast styrks frá sveitarfélagi án þess að það hafi nokkuð með það að gera. Það er útilokað eftir þessum lögmálum. Það er minn skilningur og áreiðanlega okkar allra sem í menntmn. vorum og fjölluðum um þessi mál.

Ég vil vekja athygli á því að hins vegar eru þessi lög, ef frv. verður að lögum, eingöngu um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, en ekki um skipulag skólans að neinu verulegu marki þó að það séu vissir þættir sem þar koma fram. En ég tel að þannig sé búið um orðalag í þessu frv. og þeirri brtt. sem hér er flutt af Ragnari Arnalds og Axel Jónssyni, sem ég mun styðja, að ekki sé um þá hættu að ræða sem 12. þm. Reykv. hefur hér varað við.