09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3719 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

82. mál, orkulög

Fram. meiri hl. (Ingólfur Jónsson) :

Hæstv. forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, var flutt á síðasta þingi og fóru þá fram allmiklar og ítarlegar umr. um málið. Þær umr. er að finna í 24. hefti Alþingistíðinda 1973–74, sem allir hv. þm. hafa hjá sér og ætti þess vegna að vera ástæðulaust að flytja mjög langt mál að þessu sinni um þetta atriði sem allir þekkja. Það er fátt nýtt hægt um þetta mái að segja frá því fyrir tæplega ári að um það var rætt hér í hv. deild.

N. gat ekki orðið sammála um frv. að þessu sinni frekar en áður. Meiri hl. leggur til að frv. verði vísað til ríkisstj. en minni hl. vill samþ. frv.

Síðast þegar þetta mál var til meðferðar á Alþingi var það sent til umsagnar nokkurra aðila, m. a. Búnaðarfélags Íslands, og Búnaðarþing fjallaði um málið og sendi ítarlega umsögn og lýsti eindreginni andstöðu við málið.

Frv. var einnig sent til stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga sem lýsti sig samþykka því ef einni gr. frv. væri breytt þannig, að sveitarfélögin hefðu notkunar- og eignarrétt á jarðhita næstu 15 ár í staðinn fyrir 5 ár. Ég hef heyrt það á ýmsum sveitarstjórnarmönnum að þeir eru ekkert þakklátir stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga fyrir að vilja afsala sér öllum réttindum að 16 árum liðnum. 15 ár eru fljót að líða og sveitarstjórnirnar telja nauðsynlegt og eðlilegt að sveitarfélögin hafi þennan rétt ekki aðeins í 15 ár, heldur áfram.

Frv. var einnig sent til umsagnar lagadeildar Háskóla Íslands og sendi lagadeildin allítarlega grg. um málið. Lagadeildin var að því spurð hvort þetta frv. væri, ef að lögum yrði, stjórnarskrárbrot. Niðurstaða lagadeildarinnar varð sú að það væri ekki hægt að líta á það sem stjórnarskrárbrot, enda yrði að ætla að gjald kæmi fyrir þessi réttindi þótt frv. yrði að lögum. Fara menn þá að efast um hvaða þýðingu það hefur að samþ. þetta frv. eða hverju það breytir ef greiðsla á að koma fyrir eftir sem áður. Mönnum hefur skilist á ýmsum, sem hafa gerst talsmenn að þessu frv. að meginástæðan fyrir því að breyta orkulögunum væri sú að það gæti verið dýrt að kaupa réttindin á háhitasvæðunum. Það er svo annað mál að til þess hefur ekki komið að þetta hafi gert mannvirkin dýrari sem neinu nemur heldur en annars hefði orðið, og það hefur ekki til þess komið að núgildandi orkulög hafi ekki nægt til þess að tryggja eðlilegan framgang framkvæmda, sem hefur verið unnið að. Það er t. d. ekki rétt sem hv. þm. Magnús Kjartansson sagði í umr., þegar rætt var um járnblendiverksmiðjuna, að núgildandi orkulög hefðu tafið framkvæmdir á ýmsum stöðum. Það er ekki rétt. Í núgildandi orkulögum er ákvæði um eignarnám og er engin fyrirstaða á að beita því ákvæði. Ég held að það væri raunhæfast til þess að tryggja að þessi réttindi yrðu aldrei of dýr að breyta núgildandi orkulögum eitthvað á þá leið að við eignarnám væri höfð hliðsjón af því hvort eigendur gætu á eigin spýtur notfært sér þau réttindi eða verðmæti sem í jarðhitanum eru og réttindin metin með hliðsjón af því að verðmætin verði því aðeins nýtt að opinberir aðilar komi til, annaðhvort ríki eða sveitarfélög. Þetta væri það raunhæfa og þá væri enginn vafi á því að löggjöfin stangast ekki á við stjórnarskrána og með því væri hægt að tryggja réttindi þeirra aðila sem hlut eiga að máli.

Hv. þm. Magnús Kjartansson minntist á Svartsengi og samningaþófið sem er á milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum og eigenda jarðhita á háhitasvæðinu í Svartsengi. Hann fór nokkrum orðum um hvað mikið tjón væri af þessu þegar orðið. Í tilefni af þessum ummælum hringdi ég í bæjarstjórann í Keflavík og spurði hann hvort framkvæmd hitaveitunnar á Suðurnesjum hefði tafist vegna samningaþófs við eigendur jarðhitans. Svör bæjarstjórans voru þau að sveitarstjórnirnar hafi skrifað eigendum jarðhitans bréf 9. apríl s. l. og bréf frá eigendum hafi komið, þ. e. a. s. svar við Þessu bréfi, 21. apríl með fyrirspurn um stærð þess landa og fleira sem sveitarfélögin óskuðu eftir að kaupa. Í þessari viku svöruðu sveitarstjórnirnar þessu bréfi jarðhitaeigendanna um það hversu mikið land þær óskuðu ettir að kaupa og hvað hér er frekar um að ræða. Það er ekki fyrr en svar kemur við þessu bréfi sveitarstjórnanna á Suðurnesjum sem hægt er að segja um það hvort eigendur jarðhitans valda töfum á þessu máli eða ekki. Enn sem komið er sýnist allt hafa farið eðlilega fram á milli aðilanna, og það var ekki að heyra á bæjarstjóranum í Keflavík að hann vildi kvarta neitt enn sem komið er um gang málanna. Ég spurði hann að því í morgun hvort hann væri ekki bjartsýnn á að til samninga gæti komið, og hann sagði: „Já, víst er ég bjartsýnn á það: Hitt er svo annað mál og það er alveg eðlilegur leikur í þessum samningum að sveitarstjórnirnar hafa bent á að ríkið á land nærri Svartsengi, svokallaðar Eldvörpur í Húsatóftalandi, og hafa bent á að þar væri jarðhiti líka og því engin ástæða til þess að ganga að neinum afarkostum hjá eigendum jarðhitans í Svartsengi. Þess vegna er það fráleitt þegar hv. þm. Magnús Kjartansson er að vitna í þetta sem eitthvert vandræðamál. Ég held að það sé miklu betra að láta hlutaðeigandi viðsemjendur gefa vitnisburð í því máli heldur en að vera með einhverjar staðlausar fullyrðingar hér í hv. Alþ. sem engin stoð er undir. Hv. þm. getur haft sína skoðun á þessu máli jafnt fyrir því og vitanlega má færa rök bæði með og á móti, og það er miklu málefnalegra að halda sig við staðreyndir heldur en að vera að rangfæra mál sem eru til úrlausnar með eðlilegum hætti, eins og samningar á milli eigenda jarðhitans í Svartsengi og sveitarstjórnanna á Suðurnesjum.

Ég minnist þess að Rafmagnsveitur ríkisina gáfu út ársskýrslu 1973 eins og venjulega — Rafmagnsveitur ríkisins gefa ársskýrslu árlega — og þar er minnst á jarðhitann í Svartsengi. Það er minnst á kostnaðinn við Hitaveitu Suðurnesja. Það er beinlínis tekið fram í þessari skýrslu að jarðhitaréttindin í Svartsengi hafi engin umtalsverð áhrif á kostnað við þessar framkvæmdir. Vitanlega ætti enginn að vita þetta betur en þeir sem þekkja best, jarðhitadeild Orkustofnunarinnar.

Ég minnist á þetta vegna þess að hv. þm. Magnús Kjartansson gerði Svartsengi að umræðuefni, hér fyrir fáum dögum, en þá gafst ekki tími til þess að svara vegna þess að þannig stóð á tíma á laugardagsfundi. En ég tel eðlilegt að þetta komi fram.

Hv. þm. Magnús Kjartansson minntist einnig á jarðhitann við Kröflu og dró jafnvel í efa að ríkið hefði ótvíræð jarðhitaréttindi þar, það gæti jafnvel, vegna þess að ekki væri búið að breyta orkulögunum, komið þar upp vandi. Ég minnist þess að í þskj., þegar rætt var um Kröfluvirkjun, var vitnað í samning þar sem sagt var orðrétt: „Ríkissjóður er rétthafi jarðhitaréttinda og landssvæða þeirra er hér skipta máli,“ þ. e. a. s. við Kröflu, „samkv. samningum við landeigendur frá 18. mars 1971.“ Ég held að við verðum að láta þetta nægja í sambandi við réttindin við Kröflu. Við skulum ekkert efast um það að samningur frá 18. mars 1971 gildir þar, og hvort orkulögunum verður breytt eða ekki, þá breytir það engu þar um,

Hæstv. forseti. Það eru alllangar ræður í þessu Alþingistíðindahefti, sem ég vitnaði í áðan, um þetta mál. Þess vegna tel ég ekki ástæðu til að orðlengja meira um það, en meiri hl. iðnn. þessarar hv. d. telur eðlilegt að vísa málinu til ríkisstj. til athugunar. Það væri e. t. v. eðlilegt að breyta orkulögunum á þá leið að tryggja að þegar land er tekið eignarnámi á háhitasvæði, þá verði höfð hliðsjón af því í verðmætaákvörðuninni hvort eigendurnir gætu af eigin rammleik notfært sér þau verðmæti, sem í jarðhitanum er, eða hvort jarðhitinn verður því aðeins nýttur að opinberir aðilar komi til, og það gæti haft ákvörðun á það verð sem greitt yrði fyrir réttindin.