09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3724 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

82. mál, orkulög

Ingvar Gíslason:

Virðulegi forseti. Ég á sæti í iðnn. og hef skrifað undir nál. meiri hl. sem hv. 1. þm. Sunnl. hefur gert grein fyrir, en þar er megintillagan sú að þessu máli verði vísað til ríkisstj. Þær aths., sem ég kann að gera hér, varða grundvallarafstöðu, en engar kreddur, en hv. frsm. minni hl. vildi gefa okkur andstæðingum þá einkunn að við færum með kreddumál. Hér er um grundvallarafstöðu að ræða, eins og má einnig vera að sé kveikjan að þessu frv. hv. þm.

Ég get vel og auðveldlega tekið undir þá margtuggnu setningu að jarðvarmi sé helsta auðlind íslendinga eða verðmætasta eign þjóðarinnar, eins og hv. 8. þm. Reykv. sagði áðan. Um þetta er auðvitað enginn ágreiningur, það er alveg augljóst mál að þessa miklu auðlind ber að nýta til almenningsheilla og í þágu allsherjarhagsmuna á Íslandi. Og vissulega er það líka rétt að það þarf að tryggja það beinlínis að þessi auðlind verði nýtt í þágu allsherjarhagsmuna. Ég held að það sé enginn ágreiningur um þetta. Þess vegna er það enginn sérstakur frumleiki í málflutningi og engin sérstök framsýni þó að menn sífellt hampi áhuga sínum á því að það þurfi að virkja jarðvarma í þágu þjóðarinnar og þetta sé ein af auðlindum þjóðarinnar o. s. frv. Ég held að þar geti enginn sérstakur kennt öðrum neitt sérstakt. En það, sem mér sýnist um þetta mál og hefur raunar sýnst lengi, er að það er borið fram af miklum ákafa, það er næstum því borið fram af ástríðuhita. Það var borið fram hér í fyrra af nokkrum ástriðuhita, það mun hafa verið borið fram á sumarþingi, það lýsir ástríðunni í þessu máli (Gripið fram í): Fyrir þremur þingum kom það fram.) Ef til vill, svona er það, ég er ekki nógu langminnugur, og það sannar enn betur það sem ég er að segja. Þetta mál er flutt af slíkum ástríðuhita og ákafa að ég verð að segja að það gegnir hreinlega furðu. (Gripið fram í.) Hins vegar verð ég að segja það, að mér finnst þetta mál ekki vera borið fram af neinni sérstakri þjóðfélagslegri nauðsyn eða þá af einhverri lagalegri nauðsyn, það fæ ég ekki séð, en hins vegar er alveg augljóst að þetta er gífurlega mikið kappsmál hv. 1. flm., 3. þm. Reykv., og ég lái honum það ekkert. Hann má bera sín mál fram af ástríðu og ákafa, en hins vegar má hann ekki lá neinum það þó að menn taki ekki alveg undir allt sem hann segir í því sambandi.

Ég held að þetta mál sé í rauninni borið fram sem sérstakt pólitískt sannfæringaratriði, — sannfæringaratriði, sem ég hef ekki. Og auk þess kom það mjög greinilega fram núna í ræðu hv. 1. flm. og frsm. minni hl. að hann reiknar með því að það sé meiri hl. eða kunni að vera meiri hl. fyrir þessu máli hér á Alþ. Og hann vísaði til þess áðan að framsóknarmenn mundu styðja þetta mál — ég man nú ekki nákvæmlega hvort hann orðaði það svo, en alla vega virtist hann gera ráð fyrir því að mikill hluti framsóknarmanna styddu þetta mál. En ég vil upplýsa hv. þm. um það að Framsfl. hefur síður en svo tekið nokkra flokkslega afstöðu í þessu. Ef þar finnast einstaklingar sem eru fylgjandi því að fara þessa þjóðnýtingarleið, þá gera þeir það algjörlega sem einstaklingar, en ekki á grundvelli neinna flokkssamþykkta, og að mínum dómi er það í andstöðu við stefnu Framsfl. að taka þannig upp eignir manna. Og ég vil segja það, að ég mun gera það sem ég má til þess að kappgirni hv. 1. flm. beri ekki árangur, jafnvel þó að ágætur flokksfélagi minn og raunar formaður þingflokks Framsfl., samnefndarmaður minn í iðnn., hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, sem ekki er staddur hér nú, jafnvel þó að hann mæli með samþykkt þessa frv.

Ég sagði áðan að þm. Framsfl. stæðu ekki einhuga um þetta og þá sem einstaklingar ef þeir styðja þetta mál, menn hafa um það óbundnar hendur. En hins vegar vona ég að þeir framsóknarmenn, sem verið hafa í vafa, sjái betur hina lagalegu og pólitísku agnúa sem eru á þessu máli, því betur sem þeir lesa þetta mál niður í kjölinn, því að þetta er ekki nándar nærri eins saklaust mál og sumir ímynda sér. Það sem ég hef mest út á þetta frv. að setja, það er að verið sé að gerbreyta efni 9. gr. núgildandi orkulaga, en í 9. gr. orkulaganna segir, að landareign hverri fylgi réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita úr landareigninni með þeim takmörkunum sem lög þessi tilgreini. En með þessu frv. er verið að gjörbreyta þessari grein, það er verið að takmarka umráða- og hagnýtingarréttinn þannig, að jarðhiti á háhitasvæðum á að verða ríkiseign með lögum. Alþ. ætlar að ákveða það með lögum að jarðhiti á háhitasvæðum verði ríkiseign. Alþ. væri þá að mínum dómi að seilast inn á svið eignarréttar með svo vafasömum hætti að það þarf alveg sérlega sterk rök til þess að ljá því lið. Þetta vil ég að menn hugleiði. Ég fæ ekki séð að nein rök hafi verið færð fyrir nauðsyn svo róttækra aðgerða af hálfu Alþ. Það eru tylliástæður einar sem færðar hafa verið fram af hálfu hv. flm.

Þetta mál er rekið að meira eða minna leyti á röngum forsendum og mjög í skjóli þess að nauðsyn beri til að hagnýta jarðhita í almannaþágu, sem allir eru vitanlega sammála um að gera þurfi. Það er búin til beinlínis sú viðbára að einkaeign jarðhitaréttinda sé þrándur í götu nauðsynlegrar nýtingar jarðhita í almannaþágu. Ég held, þrátt fyrir það sem hér hefur komið til umr. nú á þessum fundi og fyrr um Svartsengi, að það sé ákaflega fátt sem styður þessa kenningu um að einkaeign á jarðhitasvæðum hafi tafið nýtingu jarðhita í almannaþágu. Ég held að sagan sýni bókstaflega allt annað. Ég held að sagan sýni að bændur hafi sýnt bæði lipurð og mikinn skilning í þessum málum bæði fyrr og síðar, og það mætti nefna um það mörg dæmi úr öllum landsfjórðungum og kann ég ekki skil nema á örfáum dæmum þess. En hitt veit ég, að það hefur oft komið fyrir að bændur hafa beinlínis gefið jarðhitaréttindi eða selt þau við svo hlægilega vægu verði að það er varla hægt að tala um að það sé um sölu að ræða, heldur gjöf. (Gripið fram í.) Ég held líka að brask með jarðhitaréttindi sé mjög fátítt hér á landi, og ég fullyrði að bændur standa ekki í slíku braski, en vera má að það séu til einhverjir lögfræðingar eða aðrir slíkir, sem kaupsýslu iðka, sem reyna að mata krókinn í þessum efnum. En í þessu tilfelli vil ég segja: Það hefur ekkert fram komið um það enn þá að svo sé, að menn hafi virkilega haft af þessu stórfé. Þessi mál, sem nefnd hafa verið, eins og um Svartsengi og fleira kannske, það er ekkert fram komið um það að lögfræðingar, sem kunna að standa bak við það, eða aðrir kaupsýslumenn komi þar fram vilja sínum um þetta brask, og ég held að Alþ. hafi ýmsar leiðir til að koma í veg fyrir slíkt brask. Það er bæði hægt að gera það með skattalögum og beinum áhrifum á það hvernig mat þessara réttinda er.

En ég var að minnast á bændurna sem gefið hafa hitaréttindin. Ég minnist a. m. k. þriggja bænda sem gefið hafa hitaréttindi úr landi sínu, og ég nefni þá fyrst Sigurjón á Litlu-Laugum í Reykjadal sem á sínum tíma gaf land og hitaréttindi undir Laugaskóla. Ég minnist á Böðvar á Laugarvatni og Gísla á Stóru-Reykjum í Ölfusi, ef ég nefni nafn hans rétt. Þetta, sem menn eru nú að koma með upp, að það séu einhverjir lögfræðingar og kaupsýslumenn að gera tilraunir til að braska með jarðhita suður á Reykjanesi, ég held að það sé engin ástæða til að gera úr því allt of stórt númer. Ég held að það verði að bíða eftir því hver niðurstaðan úr þeim samningum verður, og ég held að menn verði að gæta sín í því að láta ekki þessar hugmyndir snerta saklausa menn sem eru landeigendur almennt í landinu og helstu landeigendur að fornu og nýju, bændastéttina. Ég fullyrði að bændastéttin hefur ekki staðið í braski um jarðhitarétt. Þess vegna sé ég ekki að það sé nein ástæða til þess að Alþ. fari að taka sér slíkt vald í hendur eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Með því værum við að fara út á vafasama braut, að ekki sé meira sagt.

Frv. verður ekki skilið öðruvísi en að verið sé að svipta einstaklinga eða einkaaðila eignaryfirráðum án þess að fébætur komi í staðinn, og það þarf enginn mér að segja að slík eignaupptaka stríði ekki gegn 67. gr. stjskr. um friðhelgi eignarréttar. Og þó að fyrir liggi álit lagadeildar Háskóla Íslands þar sem segir að frv. feli ekki í sér stjórnarskrárbrot, ef að lögum yrði, þá er — og ég bið menn að taka eftir því þá er sleginn varnagli í áliti lagadeildar um það að gera verði ráð fyrir að það geti í einstökum tilfellum haft í för með sér bótaskyldu fyrir ríkissjóð gagnvart eigendum jarðhitaréttinda, ef þetta frv. verður að lógum. Mér finnst ýmsir horfa fram hjá þessum fyrirvara lagadeildar. En ég vil vekja alveg sérstaklega athygli á þessum fyrirvara. Og ég vil líka vekja athygli manna hreinlega á því að lagadeild er enginn dómstóll, hún er enginn úrskurðaraðili í lagaþrætu þó að álit hennar hafi gildi í fræðilegum efnum og hljóti að vera mikilvægur leiðarvísir varðandi skilning á lögum. Þess er líka að geta að í áliti lagadeildar segir orðrétt á einum stað, með leyfi hæstv. forseta: „Þarna“ — þ. e. a. s. það er átt við frv. — „þarna er byggt á því að fyrrgreindar skerðingar á jarðhitaréttindum hafi ekki í för með sér skyldu til greiðslu eignarnámsbóta. Þrátt fyrir það er ástæða til að ætla að frv. verði skýrt þannig, ef að lögum verður, að eignarskerðingar þessar skuli koma til framkvæmda við gildistöku laganna, en hins vegar beri að greiða aðilum bætur, sem sviptir hafa verið réttindum sínum til að hagnýta jarðhita með borunum, ef um verðmæt réttindi er að ræða.“ Þannig segir m. a. í þessu áliti lagadeildar.

Hv. flm. frv. nota álit lagadeildar óspart sér til framdráttar. Ég held aftur á móti að álit þeirra styðji málstað þeirra ekki nema að mjög litlu leyti. Ég held nefnilega að í áliti lagadeildar felist nokkuð ákveðin viðvörun til Alþ. um að fara með gát í þessu máli. Það eru fyrirvarar í álitinu og þeim verður að gefa fullan gaum. Mér þykir miður að hv. flm. skuli ekki fást til að leiða hugann meira að fyrirvörunum en sækja mál sitt af miklu kappi á nokkuð hæpnum forsendum og raunar fölskum forsendum að mínum dómi. Og mig langar enn til þess að menn fái að heyra orðréttan kafla úr áliti lagadeildar, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt núgildandi lögum á landeigandi að jafnaði rétt til hagnýtingar jarðhita og jarðefna, sem eru undir yfirborði lands hans, sbr. 9. gr. orkulaga, nr. 68/1967, og i. og 4. gr. námulaga, nr. 24 1973. Vafi leikur hins vegar á hve langt hagnýtingar- og umráðaréttur landeigenda nái í jörðu niður. Þar sem ákvæði frv. áskilja hins vegar ríkinu jarðhita undir yfirborði jarðar á háhitasvæðum án tillits til þess hve djúpt hann liggur í jörðu verður að ætla að frv. hafi í för með sér, ef að lögum verður, að eigendur jarðhita á þessum svæðum verði sviptir heimild sinni samkvæmt núgildandi lögum til að hagnýta jarðhita undir yfirborði jarðar með borunum.“ Og í beinu framhaldi segir lagadeild, með leyfi hæstv. forseta: „Eins og eignarskerðingum þessum er háttað“ — takið eftir að lagadeild notar orðið eignarskerðing — „verður að líta svo á að skylt sé samkvæmt 67. gr. stjskr. að láta eignarnámsbætur koma fyrir þær ef á annað borð er um jarðhitaréttindi að ræða sem hafa fjárhagslegt verðmæti við gildistöku laganna.“

Ég vildi því endurtaka það, að ég held að við ættum að lesa álit lagadeildar með aðgæslu. Ég tek það sem viðvörun til mín að fara varlega í þessu máli. Að mínum dómi felur álitið ekki í sér neinn ótvíræðan stuðning við meginkjarnann í því sem mér er andstæðast í þessu frv. Og það er hreinlega eins og ýmsir hafi orðið blindaðir af átorítetstrú í þessu máli, - ég hef orðið þess var — en ég tel það að blindast af átorítetstrú þegar menn ofmeta fræðilegar álitsgerðir eða leggja einhliða skilning í orð sérfræðinga til þess að finna áhugamáli sinu stuðning. Ég fæ ekki betur séð en að jafnvel sumir þeir sem annars eru litlir þjóðnýtingarmenn, svo sem tilteknir flokksbræður mínir, hafi ánetjast þessu áhugamáli hv. 3. þm. Reykv. Og ég held að það hafi orðið m.a. fyrir mjög fljótfærnislega túlkun á álitsgerð lagadeildar. Ég veit ekki hvort mér tekst að hafa áhrif á þessa ágætu menn og þá einkum á samflokksmenn mína, en ég vona hins vegar að þeir, sem vilja fara með gætni í þessu máli, fáist til að hugleiða orð mín. Þess vegna vona ég að sú till., sem ég stend að ásamt meiri hl. iðnn., að málinu verði vísað til ríkisstj., ég vona að sú till. verði samþ. hér í hv. d. Ég er jafnsannfærður og flm. þessa frv. um að jarðvarminn er ein af auðlindum Íslanda og hann ber að nota í þágu þjóðarheildarinnar. Ég fellst á það að mikils er um vert að tryggja sem best að jarðhitinn í landinu verði nýttur í þágu allsherjarhagsmuna. Ég get sagt það sem mína skoðun að einkaeign á jarðhitasvæðum á ekki og má ekki koma í veg fyrir að jarðhiti verði nýttur með hagsmuni alþjóðar fyrir augum. En ég tel að viðhafa verði aðrar aðferðir en lagt er til í þessu frv., a. m. k. tel ég nauðsynlegt að lögmæti þessarar þjóðnýtingaraðferðar verði kannað betur. Ég vil fá tækifæri til að kanna það betur áður en ég gengst inn á að samþ. þetta frv., enda liggur ekki lífið á. Það tapast ekkert við það þótt þetta mál sé kannað betur. É g þykist sjá bæði pólitíska og lagalega agnúa á þessu máli eins og það liggur nú fyrir. Þess vegna hlýt ég að beita mér gegn samþykkt þessa frv.