09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3730 í B-deild Alþingistíðinda. (2862)

82. mál, orkulög

Ég hafði hug á því að greina þessum hv. þm. dálítið frá afstöðu Framsfl. til þessa máls, en hæstv. viðskrh. hefur nú tekið það ómak býsna myndarlega af mér. Engu að síður er ástæða til að rifja það enn frekar upp að Framsfl. hefur beitt sér í þessu máli undanfarin 20 ár. Árið 1956 var lagt hér fyrir þing frv. sem samið hafði verið að frumkvæði Hermanns Jónassonar, þáv. form. Framsfl., að jarðhitalögum, um jarðhita, í 86 gr. Í n., sem samdi það frv., voru Jakob Gíslason, Ólafur Jóhannesson, núv. viðskrh., og Gunnar Böðvarsson, auk þess starfaði Baldur Líndal með þessari n. Í því frv. voru mun strangari ákvæði um almannaréttinn á þessu sviði en í því frv. sem nú er hér til umr., því að í frv., sem lagt var fram 1956 af Hermanni Jónassyni fyrir hönd Framsfl., segir svo:

„Ríkið á allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita, sem liggur dýpra eða sóttur er dýpra en 100 m undir yfirborð jarðar.“ Allur jarðhiti sem liggur dýpra eða sóttur er dýpra en 100 metra undir yfirborð jarðar. Þau ákvæði, sem eru í frv. sem við erum að ræða um núna, eru miklu þrengri en þetta. Þau taka aðeins til háhita, þ. e. a. s. svæða sem eru þess eðlis að innan þeirra finnist 200 stiga heitt vatn ofan 1000 m dýpis. Þetta er miklu takmarkaðri tillaga heldur en það frv. sem Hermann Jónasson lagði hér fram 1956 og unnið var alveg sérstaklega af núv. hæstv. viðskrh.

Hæstv. viðskrh. samdi þá mjög ítarlega ritgerð, sem fylgdi þessu frv., um það hvort sú almenna takmörkun á eignarrétti á jarðhita, sem lögð væri til í frv., bryti í bága við ákvæði 07. gr. stjskr. Niðurstaða hans var sú að heimilt væri að setja eignarrétti landeigenda á jarðhita slík almenn takmörk án þess að það bryti í bága við eignarréttarvernd stjskr. Ég held það gæti verið mjög lærdómsríkt fyrir hv. þm. Ingvar Gíslason að lesa þessa ritgerð eftir hæstv. viðskrh. vegna þess að ég hygg að menn geti verið sammála um að hann er öðrum mönnum sérfróðari á þessu sviði, og þá getur líka þessi hv. þm. fengið dálítið gleggri vitneskju um það hver hefur verið og ætti að vera enn afstaða framsóknarmanna til þessa máls.

Það eru fleiri menn sem hafa gert sér þetta vandamál ljóst. Hæstv. viðskrh. minnti á að í Bandaríkjunum hefði verið sett löggjöf vegna olíu, vegna þess að ein borun gæti tekið af boranir á öðrum stöðum í nágrenninu. Till. um þetta efni var flutt hér á þingi 1945 af Bjarna heitnum Benediktssyni. Hann lagði þar til að jarðboranir, sem ná dýpra en 10 m, megi ekki framkvæma án leyfis ráðh., sem skyldi synja leyfis ef hætta kynni að verða á því að með jarðborun væri spillt hagnýtingu jarðhita á eign annars manns, sem þegar er hafin, eða hagnýtingu síðar meir, enda sé nýting jarðhitans mun verðmeiri en sú hagnýting sem stefnt er að með hinni fyrirhuguðu jarðborun. Í frv. voru engin ákvæði um bætur í því tilviki að leyfis væri neitað, enda segir svo í grg. með þessari till. Bjarna heitins Benediktssonar: „Hér er aðeins um almenna takmörkun á eignarréttinum að ræða, sem löggjafarvaldinu er heimilt að setja þrátt fyrir ákvæði stjskr. um friðhelgi eignarréttarins.“

Þannig var skoðun Bjarna heitins Benediktssonar, að slík almenn takmörkun væri heimil án bóta, enda þótt henni væri eingöngu ætlað að vernda byrjaða nýtingu eða væntanlega nýtingu jarðhita á landareign grannans. Þarna var gengið miklu lengra í almennri takmörkun á eignarrétti á jarðhita heldur en gert er í því frv. sem hér er til umr. Og þetta var mat Bjarna heitins Benediktssonar, þannig að þetta er mál sem Sjálfstfl. hefur einnig fjallað um. Menn skulu gera sér það ljóst.

Hv. þm. Ingvar Gíslason sagði að bændur, sem ættu jarðhita, hefðu oft sýnt mikinn skilning á nauðsyn almennings í því sambandi. Þetta er vissulega alveg rétt. Sem betur fer hefur það verið ríkjandi afstaða til skamms tíma að líta á alþjóðarheill í sambandi við það, og það eru ákaflega mörg dæmi um að bændur hafa látið af höndum land vegna þess að þeir töldu sig þar vera að stuðla að þjóðþrifamálum. En þessi viðhorf hafa því miður verið að breytast mjög alvarlega nú síðustu árin og það eru komnir inn í þetta mál lögfræðingar og braskarar sem reyna að nýta þessi verðmæti í gróðaskyni. Mér er t. a. m. kunnugt um aldurhnigna og merka konu upp í Borgarfirði sem vill mjög gjarnan að nágranni hennar þar fái að nýta þann mikla jarðhita sem er í hennar eigu. En það eru lögfræðingar sem eru nú að flækja málið og reyna að halda þannig á því að það verði ekki farið að vilja þessarar ágætu konu, heldur verði einvörðungu peningasjónarmið höfð í huga, og þeir hafa nefnt í því sambandi olíuverð. Það er þetta sem hefur verið að gerast síðustu árin.

Hér er ekki um að ræða neina almenna tortryggni á bændastéttina. Vér höfum enga ástæðu til þess. Hins vegar er með því að gera þetta að slíkum verðmætum verið að opna leiðina fyrir alls konar braskara og lögfræðinga sem vilja hagnast á þessu. (Gripið fram í: Lenin var 1ögfræðingur.) Já, já, það hafa margir merkir menn verið lögfræðingar. (Gripið fram í: Marx líka.) Castró er lögfræðingur. Þegar ég var staddur á Kúbu einu sinni hlustaði ég á ræðu sem Castró hélt við háskólann í San Diego, þar sem hann var að reyna að lýsa framtíðarþjóðfélaginu, sem hann stefndi að. Hann lenti í dálitlum vandræðum með þetta og gat ekki dregið upp almennilega lýsingu þannig að hann endaði ræðu sína á þessu: „Ja, ég á við þjóðfélag þar sem engin þörf er fyrir lögfræðinga“. Nei, því miður eru býsna margir lögfræðingar hér sem eru með gróðasjónarmið fyrst og fremst, líka vegna þess að þeir fá ákveðna prósentu af þeim verðmætum sem þeir geta klófest fyrir skjólstæðinga sína. Þessir menn eru ekki að hugsa um þjóðarhag. Þeir eru að hugsa um persónulegan gróða.

Það er alveg rétt, sem hæstv. viðskrh. sagði áðan, að sú mikla orka, sem er á jarðhitasvæðunum, er allt annars eðlis en þær eignir sem almennt eru túlkaðar heyra undir eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Verðmætin sem í jörðinni eru, jarðvarminn, hafa ekki orðið til fyrir neina mannlega starfsemi. Þetta eru náttúruöfl, eins og ég gat um áðan. Landeigendur hafa almennt hvorki yfir að ráða tæknilegri þekkingu né tækjabúnaði sem þarf til að rannsaka háhitasvæði á viðeigandi hátt til borana og vinnslu. Allt þetta verður ríkisvaldið að gera og hefur ríkisvaldið gert. Við verjum sem betur fer æ hærri upphæðum til þess að rannsaka þetta mál. En það erum við sameiginlega, þjóðin sameiginlega, sem leggur þessi verðmæti fram, ekki þessir aðilar sem koma svo á eftir og vilja fá að skattleggja þessa sameiginlegu eign þjóðarinnar. Og þeir segja mér, sérfræðingar Orkustofnunar, að ef ekki verði settar eðlilegar lagareglur um þetta, þá hljóti Orkustofnun að fara að skoða hug sinn tvisvar um það hvort hún framkvæmi rannsóknir á landi áður en búið er að ganga frá því að sú orka, sem hún kann að finna, verði notuð í almenningsþágu. Það er algerlega óeðlilegt ef rannsóknarstörf stofnunar eins og Orkustofnunar eiga að leiða til þess að einkaaðilar, sem ekkert hafa gert, þykjast allt í einu eiga hundraða milljóna verðmæti.

En sem sagt ég vona að hv. þm. Ingvar Gíslason glöggvi sig dálítið betur á fyrri afstöðu og gerðum flokksbræðra sinna í þessu máli.