09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3742 í B-deild Alþingistíðinda. (2871)

285. mál, lán fyrir Flugleiðir hf.

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þeim umr. sem spunnist hafa í sambandi við þetta frv.

Það er vissulega rétt að hér er um háa ríkisábyrgð að ræða ef veitt verður, og það mun ekki standa á því að sú n., sem um þetta mál fjallar, fái þær upplýsingar sem hún óskar eftir. Sú skýrsla, sem trúnaðarmenn ríkisstj. hafa gert, verður að sjálfsögðu n. til reiðu til þess að skoða þessi mál, og ég efast ekki um að þingflokkur Samtakanna gæti fengið skýrsluna líka til þess að fá tækifæri til þess að skoða hana samtímis því sem n. fjallar um málið.

Að hér sé með einhverjum hætti um óvenjuleg vinnubrögð að ræða kannast ég ekki við miðað við þann tíma sem ég hef átt sæti hér á Alþ. og þá allra síst á ýmsum málum hér á undanförnum árum. Ég held að framlagning frv. og sú afgreiðsla, sem n. hlýtur að hafa á málinu, verði með þeim hætti að það verði algjörlega aðfinnslulaust.

Hv. þm. Magnús T. Ólafsson vék að því að það væri æskilegt að fá upplýsingar um skilyrðin fyrir ríkisábyrgðinni. Það er beint tekið fram um ákveðin atriði í frvgr. og svo að sjálfsögðu kæmi það til upplýsinga hjá n. þegar háa fjallar um þetta mál.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson ræddi um offors. Mér fannst ég tala ósköp rólega í minni framsöguræðu. Það, að frv. séu lögð fram þegar kemur undir þinglok og tekin fyrir sama daginn, það er ekkert nýtt fyrirbrigði á Alþ. og varla til þess að orða það sem eitthvert offors.

Þá vék hann að leigu af hálfu þessa fyrirtækis á flugvélunum. Ég skal viðurkenna að mér eru ekki kunnir þeir leigumálar, frá hverjum eða til hvers. Það, sem hér er um að ræða, er sú staðreynd að félagið hefur rétt til kaupa og að það nýtir þá leigu sem það hefur greitt að undanförnu og þar er um að ræða mikinn sparnað fyrir fyrirtækið að geta nýtt sér þann kaupleigusamning sem það hefur gert.

Hann vék að þeim hluta ríkisábyrgðarinnar sem verður vegna rekstrarlána, og hv. þm. Magnús T. Ólafsson vék að því líka hvort hér væri um að ræða breytingu á rekstrarlánum eða lausaskuldum í löng lán. Hér er að sjálfsögðu að einhverju leyti um að ræða breytingu á lausaskuldum fyrirtækisins í dag í það 6 ára lán, sem það hyggst taka til þess að lagfæra sinn rekstrargrundvöll. Það er nú gjarnan svo að þegar hallar undan fæti hjá fyrirtækjum, þá safnast upp skuldir og til þess að lagfæra er þeim breytt stundum í að vísu skammtímalán, en ég mundi halda að hér væri um að ræða 5 ára lán. En allar þessar upplýsingar verða að sjálfsögðu gefnar þeirri n. sem fjallar um málið svo að hún hafi tækifæri til að skoða það eins og skyldi. Og það stendur ekkert á því að þingflokkur Samtakanna fái að skoða þau skjöl og fá þær upplýsingar sem óskað er eftir.