09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3744 í B-deild Alþingistíðinda. (2877)

100. mál, sérkennslumál

Frsm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Hæstv. forseti. Menntmn. hefur rætt þessa þáltill. á nokkrum fundum og verið sammála um afgreiðslu hennar. Þeir þrír umsagnaraðilar, sem getið er í nál., skiluðu allir mjög jákvæðum umsögnum og fullkomin samstaða var um afgreiðsluna frá nefndarinnar hálfu. Aðeins ein breyting, sem telja má breytingu, er lagt til að gerð verði, þ. e. a. s. að till. nái til allra grunnskóla landsins, þar sem í upphaflegu till. var miðað eingöngu við grunnskóla landsbyggðarinnar. Þetta er auðvitað sjálfsögð og eðlileg breyting, en till, var fram komin vegna þess að það er augljóst mál að þessum málum er mun skemur á veg komið úti um landsbyggðina en hér í Reykjavík og þess vegna sérstakra aðgerða þörf þar.

Mér er kunnugt um að í menntmrn. hafa þessi mál þegar verið tekin til gaumgæfilegrar athugunar og það er skilningur á nauðsyn þess að þessum málum verði sinnt meira en hingað til og þá enn sérstaklega með skóla landsbyggðarinnar í huga. Ég vænti þess og treysti því að málið fái jákvæða og örugga afgreiðslu og eins skjótar framkvæmdir og unnt er.