09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3745 í B-deild Alþingistíðinda. (2879)

272. mál, íslensk stafsetning

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Hæstv. forseti. Efni þessa frv. er það, að lagt er til að lögfest verði sú íslenska stafsetning sem í gildi var í 40 ár eða frá árunum 1928–1974. Fyrstu reglur, sem settar voru um stafsetningu íslenskrar tungu, voru settar 1919 af dóms- og kirkjumáladeild stjórnarráðsins og voru þær reglur settar með auglýsingu. 11 árum síðar birti menntmrn, auglýsingu um gagngera breytingu á þeirri stafsetningu sem áður hafði verið almennast að nota — einnig með auglýsingu. Var sú stafsetning í gildi í næstum hálfa öld. Fyrir rúmu ári gaf fyrrv. menntmrh. enn út auglýsingu um breytingu á þessari stafsetningu og var það jafnframt gert með auglýsingu.

Lögfróðir menn hafa tjáð mér að það sé hæpið að í raun og veru fái nokkur af þessum þrem auglýsingum staðist vegna þess að það séu ekki fyrir hendi nein lög sem veiti ráðh. heimild til þess að mæla fyrir um stafsetningu með auglýsingu einni saman eða með reglugerð. Ég skal þó alveg láta liggja á milli hluta, hvort þessi staðhæfing er rétt eða ekki. Það hefur gerst þrívegis á undanfarinni rúmri hálfri öld að kveðið hefur verið á um stafsetningu með auglýsingu af hálfu eins ráðh., þess ráðh. sem fer með menntamál. En í raun og veru hlýtur það að teljast óeðlilegt að jafnmikilvæg ákvörðun og fyrirmæli um íslenska stafsetningu eru skuli vera gefin með einfaldri ráðherraauglýsingu. Alþ. fjallar um mörg mál sem eru ekki mikilvægari og merkilegri en það, hvernig íslenskri stafsetningu skuli hagað. Þess vegna er orðið fyllilega tímabært að Alþ. taki þetta mál í sínar hendur og setji lög um íslenska stafsetningu og hefði raunar átt að gera fyrir löngu.

Efni þessa frv. er nákvæmlega sú auglýsing sem Jónas Jónsson frá Hriflu, þáv. menntmrh., birti sem auglýsingu árið 1928, að meðtalinni breytingu sem Fræðslumálaskrifstofan gerði samkv. heimild menntmrn. 1934 þar sem þess var ekki krafist í barnaskólum að viss ákvæði auglýsingarinnar frá 1928 skyldu kennd.

Ég ætla í þessu máli mínu ekki að ræða það, hvaða stafsetning sé eðlilegust á íslenskri tungu, enda er það viðfangsefni fræðimanna á sviði íslenskra fræða. Það, sem ég vildi vekja athygli á, er að mjög varhugavert hlýtur að teljast að hringla með stafsetningu, hvort sem hún í sjálfu sér er talin heppileg eða óheppileg, gölluð eða fullkomin, enda forðast menningarþjóðir í lengstu lög að gera breytingar á stafsetningu sinni. Þjóðir, sem búa við margfalt flóknari stafsetningarreglur en við íslendingar höfum búið í nærfellt hálfa öld, svo sem englendingar og frakkar, hafa ekki látið sér til hugar koma að gera neinar tilraunir til þess að gera breytingar þar á eða gera hana einfaldari, svo stórkostlega flókin sem hún þó er.

Mergurinn málsins er sá, að 1928 eða á árunum þar á eftir komst á tiltekin stafsetning sem hafði náð, að vísu smám saman, algerri fótfestu á Íslandi, í íslenskri menningu, og hafði hlotið fullkomna viðurkenningu. Svo að segja allt prentað mál, sem út hefur verið gefið undanfarin 40 ár, hefur verið gefið út samkv. þessari stafsetningu.

Í þau l5 ár, sem ég gegndi embætti menntmrh., bar það hvað eftir annað á góma í rn. og í ríkisstj. hvort gera ætti breytingar á stafsetningunni og þá fyrst og fremst því atriði hennar sem fólgið er í notkun stafsins z. Ég þrautræddi þetta mál nokkrum sinnum við marga aðila, fræðimenn, kennara, rithöfunda, og niðurstaða mín varð ávallt sú að loknum þessum viðræðum að það væri varhugavert að hrófla við stafsetningu sem áunnið hefði sér jafnviðurkennda og sterka hefð sem þágildandi stafsetning hafði áunnið sér. Með þessu er ekkert um það sagt hvort ég hefði talið rétt að hafa ákvæðin um stafsetninguna 1928 nákvæmlega eins og þáv. ráðh., Jónas Jónsson, kvað á um að hún skyldi vera. Það, sem hér er til umræðu og er meginvandamálið, er ekki það, hvaða stafsetning sé heppileg eða óheppileg, hvort hún sé skynsamleg eða óskynsamleg, heldur hitt, að ekki sé hringlað með stafsetninguna.

Nú gerðist það fyrir rúmu ári að þáv. menntmrh. gerði breyt. á stafsetningunni sem fyrst og fremst var fólgin í því að breyta reglunum um notkun z, auk þess sem hann gerði nokkrar fleiri breyt. sem ég sé ekki ástæðu til þess að rekja nánar hér, enda þm. mætavel ljósar, þótt ekki væri af öðru en rækilegum umr. sem fram fóru um þetta mál á s. l. þingi.

Reynslan af þessari breytingu hefur orðið sú að nú má segja að alger ringulreið sé varðandi íslenska stafsetningu. Það hefur komið í ljós að geysileg andstaða hefur orðið gegn því að breyta stafsetningunni, án tillits til þess í hverju breytingin er fólgin. Það hefur komið í ljós að margir þeir, sem skrifa blöð og bækur, fara ekki eftir hinni nýju auglýsingu um stafsetninguna, heldur halda sig við hina 45 ára gömlu stafsetningu. Þeir opinberu aðilar eru meira að segja til sem hafa neitað að hlíta fyrirmælum auglýsingarinnar frá því í fyrra og styðjast enn við fyrri stafsetninguna.

Í febrúarmánuði s. l. gerðist það enn fremur að 100 af kunnustu mennta- og fræðimönnum þjóðarinnar sendu núv. hæstv. menntmrh. áskorun um að nema úr gildi þá breytingu á íslenskri stafsetningu sem gerð var í fyrra. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa rökstuðning þessara 100 kunnu fræði- og menntamanna og rithöfunda fyrir þessari áskorun sinni. Þeir segja, með leyfi hæstv. forseta:

„Höfuðástæður okkar fyrir þessari áskorun eru sem hér segir:

Í fyrsta lagi teljum við z-stafsetningu þá, sem gilti á tímabilinu 1929–1974, hafa ýmsa ótvíræða og mikilvæga kosti umfram hina nýju stafsetningu, þar sem er meiri skýrleiki og gleggri vísbending um uppruna, sem í mörgum tilvikum léttir skilning og eykur málþekkingu. Sérstaklega viljum við benda á ókosti þess að samkv. hinum nýju reglum falla einmitt saman í ritmáli germynd og miðmynd sömu sagnar svo og germynd einnar sagnar og miðmynd annarrar, svo að rita skal t. d. hefur leyst, hvort sem er af leysa eða leysast, hefur ræst, hvort sem er að ræsa eða rætast, hefur þeyst, hvort sem er af þeysa eða þeytast. Getur þessi ritháttur valdið misskilningi, ekki síst í stuttu máli, sem þarf að vera hnitmiðað, svo sem í fyrirsögnum blaða, auglýsingum og sjónvarpstextum. Enn fremur þykir okkur eftirsjá að því að hætta að rita z í stofni í orðum eins og gæzla, þýzka, verzlun vegna þekkingar á orðsifjum, sem þeirri stafsetningu fylgir.

Í öðru lagi teljum við hinar nýju reglur um stóran staf og lítinn stórum óhentugri og flóknari en fyrri reglur, t. d. að rita skal oddverjar með litlum staf, en Sturlungar með stórum; hólsfjallamaður með litlum staf, en Hólsfjallahangikjöt með stórum, bandaríkjamaður með litlum staf, en Bandaríkjaforseti með stórum.

Í þriðja lagi teljum við, að valfrelsi um ritun margra orða, sem hafa löngum verið rituð á einn veg, er til þess fallið að valda ruglingi, sem m. a. getur orðið mjög bagalegur í stafrófsröðun, t. d. að rita skuli hvort heldur er, (ár)niður eða (ár)nyður, tékki eða tjekki o. s. frv.

Í fjórða lagi teljum við“ — og nú er ég kominn að meginatriði málsins frá mínu sjónarmiði séð, ég held lestrinum áfram — „að sú festa í íslenskri stafsetningu, sem tókst að koma á undanfarna tæpa hálfa öld, sé til ómetanlegs hagræðis á mörgum sviðum, svo sem í bókagerð, stjórnsýslu, safnstörfum og kennslu, en breyting að sama skapi til þess fallin að valda glundroða og tjóni. Má ekki gleyma því, að tveimur kynslóðum Íslendinga er töm sú stafsetning, sem kennd hefur verið undanfarna áratugi, og eiga margir bágt með að sætta sig við stafsetningu, sem þeir telja óskilmerkilegri og óhentugri.“

Hér lýkur áskorun hinna kunnu 100 íslendinga til núv, hæstv. menntmrh.

Það er þetta fjórða atriði í röksemdafærslunni sem í mínum augum er aðalatriði og er megin ástæða þess að ég hef leyft mér að flytja þetta frv. Ég tel ekki seinna vænna en nú að snúa við á þeirri braut sem farið var inn á í fyrra. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að hið háa Alþ., þótt ekki sé langt eftir af starfstíma þess, einmitt þetta Alþ. taki afstöðu til þessa máls. Ástæða er til þess að ætla, miðað við atkvgr. sem fór fram um þáltill. um málið í fyrra, að meiri hl. alþm. hafi verið andvígur þeirri breytingu sem hæstv. þáv. menntmrh. gerði á stafsetningunni. Það er rétt og í alla staði lýðræðislegt og þingræðislegt að nú á þessu þingi fáist úr því skorið hvort meiri hl. alþm. er fylgjandi þeirri breytingu, sem gerð var fyrir einu ári, eða ekki, þ. e. hvort meiri hl. Alþ. vill hverfa aftur til þeirrar stafsetningar sem hér var í gildi í næstum hálfa öld og hafði náð algjörri fótfestu. Það er í öllu falli eðlilegt að úr því sé skorið með atkvgr. um lög hver skuli vera stafsetning íslenskrar tungu.

Ég er þess fullviss að meginefni þessa máls er svo kunnugt öllum hv. alþm., málið er. í raun og veru svo einfalt í gerð sinni og hefur þegar í fyrra verið rætt svo ítarlega, að ég sé ekki ástæðu til þess að leggja til að málinu sé vísað til nefndar. Ég býst við því að allir alþm. hafi þegar ákveðna skoðun á þessu máli. Málið er ekki þess eðlis að ástæða sé til þess að ræða það í nefnd. Það er engra frekari upplýsinga að vænta um málið sem gætu haft áhrif á afstöðu alþm. svo að ég tel eðlilegast að málið sé rætt með venjulegum hætti og um það gangi atkvæði. Ég legg því til að að lokinni þessari umr, sé málinu vísað til 2. umr.