09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3748 í B-deild Alþingistíðinda. (2880)

272. mál, íslensk stafsetning

Magnús T. Ólafsson:

Hv. forseti. í frv. á þskj. 562 er í rauninni fjallað um tvennt: Annars vegar um málsmeðferð, hins vegar um efni sama máls.

Eins og fram kemur í grg. er það megintilgangur flm. með flutningi þessa máls að fá því slegið föstu að meðferð stafsetningarmála á Íslandi skuli héðan af færð á annan grundvöll en verið hefur frá öndverðu þegar stjórnvöld tóku að hafa afskipti af slíkum málum. Í stað þess að stafsetningu sé skipað með auglýsingum hlutaðeigandi ráðh., að fengnum þeim ráðum sérfróðra manna sem þeir telja rétt að afla sér, þá sé stafsetningu hér eftir skipað með lagasetningu á Alþ. eða a. m. k. þeim atriðum sem þetta frv. tekur til.

Og þá er komið að hinum þætti málsins. Hv. flm. leggur til að nú verði fest í lög ráðherraauglýsing frá 1928 um þau stafsetningaratriði sem hún fjallar um.

Nú held ég það hljóti að teljast töluvert athugunarverð ákvörðun af hálfu Alþ. að breyta svo gersamlega til um meðferð þeirra mála eins og hér er gerð till. um, hvernig sem menn líta svo á einstök stafsetningaratriði. Eins og hv. frsm, tók fram, hlýtur ævinlega að þurfa að kveðja til þá menn sem fróðastir eru og fjallað hafa bæði á fræðagrundvelli og sem kennarar um stafsetningu og þá málþætti sem hún byggist á. Og þessi þörf væri jafnmikil hvort heldur það væru 60 alþm., sem endanlega ákvörðun tækju með atkvgr. um stafsetningarreglur í lagaformi, eða hvort það er einn ákveðinn ráðh., sem ákvörðun tekur að fengnum þessum ráðum. Ég skal ekki kveða upp úr með það hvor þessara aðferða í sjálfu sér er réttari aðferð, að því máli vandlega athuguðu. En ég tel þó að einnig um þetta atriði, um það hvort heppilegra sé að ákvarða stafsetningu með ráðherraauglýsingu eða lagasetningu, væri einnig rétt að fá ráð og ábendingar hinna fróðustu manna um íslenskt mál og stafsetningu þess og þau sjónarmið sem þar þurfa að ríkja. Því get ég ekki fellt mig við þá málsmeðferð, sem hv. 9. þm. Reykv. lagði til, og tel einsýnt að slíkt mál sem þetta þurfi að ganga til nefndar.

Það, sem ég vil ræða alveg sérstaklega nú við 1. umr. þessa máls, er það atriði, sem gífurleg áhersla er lögð á í grg. og einnig var nokkuð endurtekið í nýfluttri framsöguræðu, að tilgangur með flutningi þessa frv. sé að hindra hringlanda og ringulreið og koma á festu í stafsetningu íslensku. Málið er nefnilega þannig vaxið að þrátt fyrir fullyrðingar um festu og samhengi og samfelldni í stafsetningu íslensku eftir að auglýsingin frá 1928 gekk í gildi, þá er það mála sannast og kemur reyndar fram í 2. gr. þessa frv., að sú stafsetning var aldrei í gildi nema að nokkru leyti. Eitt atriði þeirrar stafsetningar, z-ritunin, var aldrei kennd í almennum skólum og til þess er ætlast samkv. 2. gr. að það ástand ríki áfram. Það á að lögbjóða með þessu frv. stafsetningu sem ætlast er til að ekki sé kennd fyrr en á síðari stigum skólanna í landinu.

Það er algjört rangmæli hjá hv. 9. þm. Reykv. og hverjum sem því heldur fram að sú ákvörðun um stafsetningarbreytingar, sem tekin var með auglýsingum 1973 og 1974, sem ég gaf út, hafi stuðlað að ringulreið í stafsetningarmálum. Þvert á móti var þar verið að festa í sessi stafsetninguna frá 1928 að því eina atriði undanskildu sem hafði valdið hálfrar aldar glundroða og ringulreið í stafsetningarmálum, því atriði í þeirri stafsetningu sem olli því að þjóðin skiptist í tvo hópa, þá sem höfðu hlotið það langa skólagöngu að þeir nutu kennslu sem þurfti til að tileinka sér z-stafsetninguna, og svo annan hóp sem aldrei tileinkaði sér hana, og ég vil ekkert fullyrða hversu stórir þeir eru hvor um sig. En hér var tvímælalaust um að ræða mjög hættulegt misræmi, mjög alvarlegan glundroða í stafsetningu. Sama máli gegnir væri nú enn, eftir að stafsetningarbreytingin hefur verið í gildi í tvö ár og verið kennd í skólum í samræmi við hana, farið að breyta til. Þá er fyrst verið að leiða glundroða og ringulreið inn í stafsetningarmál.

Hv. frsm. virtist telja það dæmalaust að nokkur þjóð — eða nokkur menningarþjóð, eins og hann komst að orði, hafi breytt stafsetningu sinni í tilteknum atriðum. Ég vil minna á það að á undanförnum 2–3 áratugum — ég vil ekki fullyrða um áratalið nákvæmlega — hafa allar þær þjóðir, sem nánast málsamfélag eiga við okkur, sem sé danir, norðmenn og svíar, þeir hafa allir gert meiri og minni breytingar á sinni stafsetningu svo að sú breyting, sem gerð var nú fyrir fáum árum hér á landi, er síður en svo einsdæmi.

Meginatriði í afstöðu til þessa máls að mínum dómi er það, að hér er síður en svo verið að stuðla að festu og samhengi í meðferð stafsetningarreglna, heldur þvert á móti verið að stuðla að ringulreið og upplausn í þeim málum. Stafsetningin frá 1928 hefur fengið að reyna sig á hálfri öld. Hún reyndist fær um að festast í sessi að einu atriði undanskildu, z-reglunni. Sú regla festist aldrei og hún var gerð að undantekningu frá almennu skólanámi. Því var með auglýsingunum frá í fyrra og hittiðfyrra verið að víkja brott misræmi og ringulreið sem leitt hafði af því að sú stafsetning var aldrei viðhöfð í almennri kennslu í landinu. Með þeim auglýsingum voru sköpuð skilyrði fyrir raunverulegri festu í stafsetningarmálum, og ef nú á að fara að ónýta þær reglur, sem þá voru settar og hefur verið farið eftir í skólum landsins í tvö kennsluár, þá er fyrst verið að stofna til ringulreiðar og glundroða í stafsetningu.