09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3754 í B-deild Alþingistíðinda. (2883)

272. mál, íslensk stafsetning

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þótti mjög vænt um ræðu síðasta hv. ræðumanns. Hún undirstrikaði einmitt kjarna þess máls sem hér er um að ræða. Ég met sérstaklega mikils skoðun hennar á málinu og málflutning hennar vegna þess að hún er ein í hópi þeirra nýju þm. sem tóku sæti nú á þessu þingi, en áttu ekki sæti á þinginu sem um þetta mál fjallaði í fyrra.

Mér var því miður ekki kunnugt um þá fyrirætlun hv. þm. Sverris Hermannssonar að viðhafa þá aðferð til að fá fram eðlilega leiðréttingu á þessu máli að flytja till. til þál. um íslenska stafsetningu. Ef mér hefði verið um þetta kunnugt hefði ég að sjálfsögðu haft samráð við hann í framhaldi af málflutningi hans um þetta mál í fyrra og þeim ákveðnu og skynsamlegu skoðunum sem ég tel hann hafa á málinu. Mér var ekki heldur kunnugt um að hann hefði látið fara fram eða væri að láta fara fram könnun á því hvort það gæti staðist að auglýsing ráðh. frá því í fyrra hefði gildi þrátt fyrir ályktun Alþ. frá því í fyrra. Ég er ekki lögfróður maður og skal engan dóm um þetta fella, en auðvitað væri mjög æskilegt að fá um þetta úrskurð sem ég treysti þá að núv. hæstv. menntmrh. mundi taka tillit til ef hann færi í þá átt að gildandi auglýsing hefði ekki lengur gildi, fyrst Alþ. hefði ályktað eins og það ályktaði í fyrra. Og þar með væru málin náttúrlega einfaldlega leyst.

Varðandi það að ég tala um till. í fyrra sem áskorun á ráðh. þá er það auðvitað algjörlega rétt hjá hv. þm. Sverri Hermannssyni að till. var um að hrinda ákvörðuninni Þetta var mér auðvitað ljóst. En ástæðan til þess, að ég notaði samt þetta orðalag, var að fyrrv. hæstv. menntmrh. hafði lýst því yfir að hann teldi sig ekki bundinn af ályktun Alþ. um þetta mál og stóð við það, eins og reynslan hefur sýnt. Hann taldi sig ekki bundinn af ályktun Alþ. Þetta var mér ljóst, þessi hefur reynslan verið og þess vegna var það að ég notaði þetta orðalag sem er í grg., en ekki hitt, að ég hafi nokkra tilhneigingu til að rangtúlka eða vantúlka þá till. sem samþ. var um málið í fyrra.

Mergur málsins er sá, að þeir, sem talað hafa um málin núna, eru allir á einu máli um að eðlilegt sé að breyta hér aftur til og að það megi ekki bíða. Það getur orðið dýrt að láta þetta sumar líða og taka ekki ákvörðun um málið fyrr en á næsta þingi. Skólar hefjast næsta haust áður en Alþ. kemur saman, en það þarf einmitt að liggja fyrir, hver raunverulegur vilji Alþ. er, áður en skólar hefja starf sitt næsta haust. Þess vegna er nauðsynlegt að einmitt þetta Alþ. taki nú ákvörðun um málið.

Þær raddir, sem heyrst hafa við þessa 1. umr., hafa þrjár verið í þá átt að breytingu eigi að gera, hverfa eigi aftur að hinu næstum hálfrar aldar gamla skipulagi í þessum efnum. Það er eingöngu fyrrv. hæstv. menntmrh. sem andmælt hefur þessu, og er það auðvitað skiljanlegt og fullkomlega eðlilegt að hann sé enn sömu skoðunar og hann var þegar hann gaf auglýsinguna út. En vegna tilmæla hans um að málið gangi til menntmn., þá skal ég gjarnan á það fallast og gera till. um að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. menntmn.