10.05.1975
Sameinað þing: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3755 í B-deild Alþingistíðinda. (2888)

278. mál, samstarfssamningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar

Utanrrh. (Einar Ágústsson) ; Herra forseti. Hér er lagt fram af utanrrn. till. til þál. um fullgildingu á samningi þeim sem forseti áðan gat. Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að veita ríkisstj. heimild til þess fyrir hönd Íslands að fullgilda samkomulag um breytingu á samstarfssamningi frá 23. mars 1962 milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar er undirritað var í Kaupmannahöfn 11. mars 1974 og prentað er hér sem fskj.“

Þessari þáltill. fylgja svo hljóðandi aths.: „Helsingforssamningurinn um norræna samvinnu var gerður árið 1962. Árið 1971 var gerð sú breyting á samningnum að grundvallarákvarðanir um starfsemi Norðurlandaráðs voru teknar inn í hann og norræna ráðherranefndin sett á stofn.

Hinn 11. mars 1974 undirrituðu fulltrúar Norðurlanda aðra breytingu á samningnum með fyrirvara um fullgildingu ríkisstjórna Norðurlandanna. Eins og skýrt kemur fram í þáltill. felur breytingin í sér fjögur meginatriði en þau eru:

1) Ákvæði um samstarf Norðurlandanna á sviði umhverfismála. Er hér gert ráð fyrir að Norðurlöndin samræmi viðleitni sína í umhverfismálum og skipulagningu útivistarsvæða, en sem kunnugt er hafa þessi málefni verið ofarlega á döfinni undanfarin ár.

2) Ákvæði um „sérstaka samninga“. Ástæðan fyrir þessu ákvæði er sú að ekki var álitið hagkvæmt að taka inn í Helsingforssamninginn samninga sem gerðir hafa verið eða gerðir verða á hinum ýmsu sérsviðum. Mundi það hafa í för með sér stöðuga endurskoðun á Helsingforssamningnum. Var álitið nægilegt að vísa til þessara samninga sem vísbendingar um framkvæmd Helsingforssamningsins.

3) Ákvæði um að auðvelda almenningi aðgang að upplýsingum um norræn samstarfsmálefni. Frá því í febr. 1973 hefur verið starfandi norræn embættismannanefnd sem falið var að leggja fram till. um reglur er varða upplýsingaskyldu Norðurlandaráðs. N. var skipuð eftir að nokkrar umr. höfðu farið fram milli stjórnarnefndar og ráðherranefndar Norðurlandaráðs.

4) Ákvæði um hverjir skuli sitja ráðherranefnd Norðurlandaráðs. Í breytingunni frá 1971 var gert ráð fyrir að í ráðherranefnd sæti einn ráðh. frá hverju Norðurlandanna með þeirri undantekningu að íslenski ráðh. mætti tilnefna embættismann sem fulltrúa sinn gæti hann ekki sjálfur setið fundi n. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að ráðh. hinna Norðurlandanna geti einnig tilnefnt embættismenn í stað ráðh. geti þeir ekki setið vissa fundi, en 3 Norðurlandaráðherra þarf til þess að n. sé starfhæf.

Samningurinn tekur gildi með ofangreindum breytingum 30 dögum eftir að fullgildingarskjöl allra landanna hafa verið afhent utanrrn. Finnlands.“

Mér er kunnugt um það að Íslandsdeild Norðurlandaráðs leggur kapp á að þessi þáltill. nái fram að ganga á þessu þingi. Þess vegna mælist ég til þess að hún fái fljóta afgreiðslu og verði að lokinni þessari umr. vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.