10.05.1975
Sameinað þing: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3763 í B-deild Alþingistíðinda. (2893)

215. mál, hafnaáætlun 1975-1978

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er augljóst mál að þegar óðaverðbólga er í landinu og upplausn í öllu efnahagslífi, þá er mjög erfitt að gera áætlanir um framkvæmdir til nokkurra ára og þótt til styttri tíma væri. Hins vegar höfum við góða reynslu af áætlunargerð, sérstaklega í samgöngumálum, og ég vil benda á að einmitt á þessum tímum er meiri þörf fyrir það en nokkurn tíma endranær að menn geri sér glögga grein fyrir því hvernig á að raða framkvæmdum, því að augljóslega getur þjóðin ekki unnið allt það, sem þörf er fyrir. Upplýsti hæstv. ráðh. að óskir um hafnarframkvæmdir mundu duga til 8 ára með þeim framkvæmdahraða sem gert er ráð fyrir í dag.

Ég legg því áherslu á að þrátt fyrir erfiðleika á framkvæmd áætlunargerðar, þá verði hún að halda áfram og við verðum að reyna að nota hana sem skynsamlegt og eðlilegt hagstjórnartæki til að raða framkvæmdum, finna þær, sem nauðsynlegastar eru, og láta þær ganga fyrir því að við getum ekki unnið allt sem okkur langar til og þörf er á.

Vegna þessa verður að harma það að núv. ríkisstj. virðist hafa misst algerlega vald á áætlunargerð í samgöngumálum. Það er burðast við það á nokkrum síðustu dögum þingsins að reyna að afgreiða vegáætlun, og næsta furðulegt er að lifa það að ráðh. skuli mæla fyrir áætlun um nokkur þúsund millj. framkvæmdir í hafnamálum og segja síðan eins og sá sem valdið hefur í ræðu sinni: Ég hef ákveðið að láta ekki afgreiða þetta mál. Hann notaði örlitið þinglegra orðbragð seinna í ræðu sinni því að væntanlega gerir hann sér ekki neinar grillur um það að þetta sé kurteislegt tal við Alþ. Engu að síður mælir hann fyrir till. með þeim eindregnu óskum, eins og hann sagði kurteislega í seinni hluta ræðu sinnar, að málið verði ekki afgreitt.

Hvað þýðir þetta? Hann lýsti sjálfur mjög vel þeirri þörf, sem er fyrir hafnarframkvæmdir um allt land, og þeim augljósu ástæðum, sem eru fyrir nýjum hafnarframkvæmdum við tilkomu hins nýja togaraflota. Við vitum að um allt land bíða sjómenn og útvegsmenn og raunar byggðirnar allar eftir því að fá að vita hvað verður um þessi mál. Og boðskapurinn, sem héðan berst frá ríkisstj. í dag, er ekkert annað en áframhaldandi óvissa. Það verður engin áætlun fyrr en í haust. Hv. síðasti ræðumaður hefur lagt fram spurningar, sem ég veit að margir óska eftir að heyra svörin við, um það hvað eigi að taka við á framkvæmdatímanum í sumar. Ætlar ríkisstj. sjálf að valsa með þetta fram og aftur og hafa alla landsbyggðina í algerri óvissu?

Ég vil átelja það mjög hvílíkt los er komið á þessi mál, að ríkisstj. skuli algerlega missa vald á nauðsynlegustu áætlunargerð og hafnir um allt land og þeir, sem þær nota, skuli verða í áframhaldandi óvissu um það, hvað muni gerast af um það hvernig niðurskurðaráform kunni að því að áætlunin er ekki afgreidd, og í öðru lagi koma fram á þessu sviði.