10.05.1975
Sameinað þing: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3768 í B-deild Alþingistíðinda. (2896)

215. mál, hafnaáætlun 1975-1978

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þegar hafnaáætlun er lögð fram og rætt er um skiptingu fjár til hafnaframkvæmda er eðlilegt að margir láti það mál til sinna kasta koma og ekki nema eðlilegt að þess sé beðið með nokkurri eftirvæntingu hvernig þessu fé sé skipt og hvernig áætlunin líti út. Hér er um að ræða eitt stærsta hagsmunamál flestra byggðarlaga á landinu og vissulega rétt að byggð stendur og fellur víðast hvar meðfram ströndum landsins með því hvernig að hafnarmálum er staðið. Þessi staðreynd er flestum ljós, hvort sem þeir búa í þéttbýli eða dreifbýli, hvort sem þeir búa í Reykjavík eða annars staðar, og ég hugsa að það sé markmið okkar allra að reyna að bæta úr þar sem vandinn er mestur og þá auðvitað án tillits til þess hvort um er að ræða þéttbýla staði eða staði í dreifbýli. Við reynum að leysa úr þeim vanda sem fyrir er á hverjum tíma og hverjum stað, og þess vegna hef ég mestu skömm á málflutningi eins og þeim sem fram kom í ræðu síðasta ræðumanns. Þetta er hvimleiður málflutningur og ég get fullyrt að hann er ekki til hagsbóta fyrir umbjóðendur hans eða fólk í dreifbýli landsins. Það er ómaklegt að lýsa því hér yfir að það sé engin sanngirni og engin rök til þess að leggja fram fé til hafnarmála í Reykjavík, ef þess gerist þörf, og lýsa því yfir að það komi ekki til greina að einn einasti eyrir gangi til þeirra framkvæmda. Þessum ummælum vísa ég á bug sem ómaklegum og ósanngjörnum.

Ég hafði kvatt mér hljóðs til þess að skýra frá skýrslu eða grg. sem hafnarstjórinn í Reykjavík hafði sent mér og sennilega fleiri þm., og það er enn þá meiri þörf á því að vitna aðeins til þessarar skýrslu eftir síðustu ræðu.

Í þessari skýrslu er rakin nokkuð þróun Reykjavíkurhafnar og bent á að þessi höfn hafi staðið nokkuð undir sínum eigin rekstri og sinni eigin uppbyggingu frá upphafi og er það vissulega lofsvert, en síðan bent á að vegna aukins þrýstings og aukinna viðskipta við þessa höfn hafi þurft að ráðast í Sundahöfnina og ýmsar aðrar fjárfrekar framkvæmdir sem hafi reynst Hafnarsjóði Reykjavíkur erfiðar. En sem dæmi um þýðingu hagkvæmra hafna fyrir Reykjavík er bent á að vegna bættrar aðstöðu hér í Reykjavík hafi afkastageta skipastóls Eimskipafélags Íslands vaxið sem svarar einu skipi hvað snertir afgreiðslu skipanna.

Mikill hluti vöruflutninga til landsins fer í gegnum Reykjavík, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, og þess vegna er það auðvitað áríðandi vegna flutningskostnaðar og vegna flutnings almennt til og frá landinu að hér sé a. m, k. sæmileg aðstaða. Að þessu hefur verið stefnt hjá Reykjavíkurhöfn og er enn.

Nú hefur verið gerð fjárhagsáætlun fyrir árið 1974 og jafnframt er unnið að framkvæmdaáætlun fyrir árin 1974–1978, og til þess að standa undir þessari áætlun þyrfti Hafnarsjóður að taka að láni um 200 millj. kr. En það er tekið fram í þessari skýrslu að stjórnvöld hafi synjað Hafnarsjóði Reykjavíkur um þessa lántöku. Hafnarsjóður Reykjavíkur hefur, eins og fyrr er sagt, staðið undir sínum eigin rekstri og sínum eigin stofnkostnaði sjálfur og hefur ekki leitað eftir fyrirgreiðslu úr ríkissjóði a. m. k. til skamms tíma. Nú er ljóst samkv. þeim áætlunum, sem fram eru lagðar, að til nokkurra framkvæmda og stofnkostnaðar þarf að koma á næstunni á þessu tímabili og er talið að framkvæmdaféð þurfi að nema 765 millj. kr. og af því þurfi að taka að láni 632 millj. eða um 83%. Ef lán miðuðust við 10 ára afborgunartíma og núv. vaxtakjör mundi Hafnarsjóður á þessu tímabili þurfa að greiða 218 millj. kr. í afborganir og 227 millj. í vexti og augljóst er, segir í grg., að rekstrarstöðu Hafnarsjóðs yrði með þessu stefnt í algert óefni.

Af þessari upptalningu og þessari lesningu má vera ljóst að það er hagsmunamál allra landsmanna að vel sé búið að höfninni í Reykjavík, og það er líka ljóst að hún er komin í miklar fjárhagskröggur og eitthvað meira þarf til að koma en þau gjöld sem hún hefur innheimt nú eins og er. Þess vegna hlýtur það að vera eðlilegt að reykvíkingar og stjórnvöld hér í borginni setji fram þá kröfu að ríkisstj. og Alþ. eða fjárveitingavaldið a. m. k. skoði vandamál Reykjavíkurhafnar, en afgreiði þau vandamál ekki með því að lýsa því yfir að það sé ósanngjarnt að Reykjavík fái fjárveitingar og þar að auki bætt við að hún eigi alls ekki að fá einn einasta eyri. Þetta eru auðvitað fráleitar fullyrðingar. Ég sá ástæðu til að kynna þessi vandamál sem blasa við, eins og reyndar hv. þm. Albert Guðmundsson hefur gert fyrr við þessa umr., og er enn ríkari ástæða til þess eftir þá ræðu sem hér var flutt næst á undan mér.

Það er sett fram sú ósk í grg. hafnarstjórans í Reykjavík að inn í þessa till. til þál. um athafnaáætlun séu settar framkvæmdaáætlanir Reykjavíkurhafnar þannig að stjórnvöld hafi betri yfirsýn yfir fjárþörf til hafnarmála í heild, og ég vil ítreka þessa ósk hafnarstjórans í Reykjavík hér með. Hvort sem það þýddi að fjárveiting yrði ákveðin til Reykjavíkurhafnar í þessari till. eða næstu þáltill. þessa efnis, þá er alla vega held ég nauðsynlegt að framkvæmdaáætlun Reykjavíkurhafnar fylgi með í slíkum þáltill. En síðan hlýtur að koma að því að stjórnvöld, ríkisstj. og fjárveitingavaldið, taki til alvarlegrar og sanngjarnrar athugunar hvernig leysa megi vandamál Reykjavíkurhafnar á allra næstu árum.