10.05.1975
Sameinað þing: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3772 í B-deild Alþingistíðinda. (2901)

236. mál, heimildir Færeyinga til fiskveiða við Ísland

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir það að okkur beri í öllum atriðum að hafa sem vinsamlegust samskipti við færeyinga. Þetta er sá aðili sem stendur okkur mjög nálægt og hefur haft við okkur yfirleitt mjög góð og vinsamleg samskipti. Ég mun vissulega standa að þeim samningi sem hér liggur fyrir að staðfesta, þótt ég hefði talið að í honum hefði verið betra að hafa það ákvæði, sem ég tel að hefði átt að vera í öllum samningagerðum sem gerðar hafa verið, að einhver viðurkenning hefði fengist á útfærslu okkar í 60 mílurnar. En þetta er ekki í þessum samningi og hefur ekki verið í öðrum samningum, þannig að það þýðir ekki að fara að taka það mál upp nú.

En það var það sem hv. 4. þm. Norðurl. v. kom hér inn á varðandi hina gagnkvæmu landhelgi eða fiskveiðimörk íslendinga og færeyinga. Ég hef skilið það þannig að við Færeyjar gilti dönsk fiskveiðilögsaga eða dönsk landhelgi, þannig að ég hygg að það mál þurfi að skoðast mun betur. En það er þó annað sem ég tel að við þurfum að vera mjög vel á verði fyrir, ef okkur dytti í hug að gera slíkan samning við einhverja þjóð, annað hvort færeyinga eða aðra, en það er að við værum þá, að mér sýnist, að skapa möguleika fyrir aðrar þjóðir að opna bakdyr fyrir erlenda útgerð til að fiska hér í íslenskri landhelgi, Ég hygg að ef þetta yrði gert þá mundu bæði kannske bretar og aðrir verða mjög fúsir á að leggja fjármagn í færeyska útgerð og komast þannig eftir þeirri leið inn í íslenska landhelgi ef um gagnkvæma landhelgi á milli þessara tveggja aðila væri að ræða. Það er þetta atriði sem ég tel að útiloki alveg það sem við vildum fyrir færeyinga gera, og hvaða samskipti sem við vildum við þá hafa í þessu sambandi, þá tel ég að þetta mundi útiloka að slíkt kæmi til greina að við gætum gert þetta. Þetta er að mínum dómi þess eðlis að það mál hlýtur að verða að skoða einnig í þessu ljósi. Ef þarna er um nokkra hugsanlega smugu að ræða fyrir aðra að komast inn í íslenska landhelgi, þá auðvitað kemur ekki til greina með slíka sameiginlega landhelgi, hvorki til færeyinga né aðra. Við getum varist því að erlendir aðilar komist gegnum íslenska útgerð inn í íslenska landhelgi. Við höfum það í hendi okkar sjálfir hvað við viljum gera í þeim efnum og getum auðvitað útilokað það eins og við höfum gert í þessu sambandi og örugglega verður haldið áfram að gera. En við höfum engin tök á því að útiloka það ef aðrar þjóðir hefðu hug á að komast á hinn veginn inn í íslenska landhelgi.