10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3782 í B-deild Alþingistíðinda. (2910)

276. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Flm. (Jón Árnason) :

Herra forseti. Aðeins nokkur orð út af því sem fram kom hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. varðandi þá samþykkt sem hann gat um frá Búnaðarsambandi hvítsíðinga vil ég, eins og ég taldi að ég hefði gert í framsöguræðu minni fyrir málinu, benda sérstaklega sér stað í Suður-Þingeyjarsýslu þegar í Laxárá það að hér er allt öðruvísi staðið að en átti virkjun var ráðist. Hér liggur fyrir fundargerð fundar sem haldinn var með öllum þeim bændum sem land eiga að meira eða minna leyti sem fer undir vatn ef í þessa virkjun verður ráðist. Þeir hafa allir talið sig samþykka því að verða fyrir þeim landspjöllum, sem hér um ræðir, og komið sér saman um hvernig með skuli fara, að taka ákvörðun um þær bætur sem um verður að ræða vegna þeirra landspjalla sem að sjálfsögðu eiga sér þarna stað.

Með því að virkja aðeins 13.5 mw., eins og ég gat um, er hægt að tala um litla virkjun. En á okkar mælikvarða t. d. á Vesturlandi, þegar við sjáum hvað við tryggjum mikið af þeirri orku sem við þurfum á að halda á þessum landshluta, þá er þar alls ekki um litla virkjun að ræða — ekki fyrir okkur. En ef hv. þm. vill alltaf stefna að því að virkja aðeins fyrir orkufrekan iðnað og semja við útlendinga og annað þess háttar, þá náttúrlega er sjónarmið hans skiljanlegt. En með tilliti til okkar þarfa út af fyrir sig á Vesturlandi er hér um mjög hagstæða stærð að ræða á orkuvinnslufyrirtæki. Eins og fram kemur í fskj. með frv. hefur verið rætt um þau landspjöll, sem um verður að ræða í þessu sambandi, og allir bændur skrifað undir sem náðist til þá. Það eru tveir aðilar sem ekki skrifa undir, en hafa tjáð sig samþykka þó að ekki hafi náðst í nöfn þeirra. Það liggur fyrir. Þess vegna kemur okkur, sem stöndum að þessu máli, eftir að unnið hefur verið þannig að málinu eins og raun ber vitni samkv. þessari fundargerð sem hér liggur fyrir, — þá kemur okkur það kynlega fyrir frá öðrum heimamönnum að slík samþykkt sé gerð sem er rétt höfð eftir hjá hv. þm. Ég hef séð þessa samþykkt einnig. En okkur kemur hún kynlega fyrir eftir að slíkur fundur hefur átt sér stað og algjört samkomulag á milli aðila um hvernig með skuli fara ef ekki næst samkomulag um mat. Þeir telja sem sagt að enda þótt þeir verði að láta nokkurt land af hendi, sem í þessu tilfelli, miðað við stærð virkjunarinnar, er ótrúlega lítið eða ekki svo mjög mikið með þeirri takmörkun sem hér er um að ræða á stíflugerðinni, þá sé um svo mikið hagsmunamál að ræða fyrir héraðsbúa í heild að þeir telja að það sé réttlætanlegt.