10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3783 í B-deild Alþingistíðinda. (2912)

163. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. félmn. hefur tekið þetta frv. til meðferðar og í nál. á þskj. 590 mælir n. með því að frv. verði samþ. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Eggert G. Þorsteinsson, Steingrímur Hermannsson og Ólafur Ólafsson.

Þetta mál, sem kemur frá Nd., tók verulegum breytingum í þeirri d. frá því sem var þegar frv. var lagt fram. Samkv. frv., eins og það var lagt fram, var gert ráð fyrir að hús, sem reist eru og notuð einvörðungu við viðurkennda tómstundaiðju, sem fram fer á vegum félags- og æskulýðssamtaka eða í tengslum við þau, skuli lúta því ákvæði að af þeim sé greiddur fasteignaskattur 1/2% í staðinn fyrir allt að 134% sem gildir samkv. núgildandi lögum.

Í meðförum Nd. tók frv. breytingum á þá leið að þar var ákveðið að skipbrotsmannaskýli og sæluhús skyldu vera undanþegin fasteignaskatti, en sveitarstjórnum verði veitt heimild til þess að undanþiggja fasteignaskatti þau mannvirki, sem talað er um í upphaflega frv. Það var enginn ágreiningur um þessa breytingu í hv. Nd. og í þessari mynd kom frv. til þessarar deildar, og það er þetta form á frv, sem hv, félmn. mælir með að verði samþ.