10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3784 í B-deild Alþingistíðinda. (2916)

140. mál, gatnagerðargjöld

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég er í sjálfu sér ekki undrandi yfir því þó að borgarráðsmaður í Reykjavíkurborg geti haldið slíku fram, en þetta er dálítið annað fyrir okkur utan Reykjavíkurborgar. Við eigum svo geysilega mikið ógert í gatnagerð miðað við þann ágæta stað, og gatnagerðargjöldin, þar sem þau eru innheimt, eru hvergi innheimt hærri en svo að þau séu ætluð til þess að standa undir undirbyggingu gatna. Það er svo matsatriði hvort útsvör eigi að ganga til þess að fullgera götur eða ekki. En gagnvart stöðum, sem eru í örri uppbyggingu og eiga allt ógert t. d. í varanlegri gatnagerð, þá hygg ég að það sé til mikilla hagsbóta að fá þetta ákvæði lögfest og það verður síðan verk hverrar sveitarstjórnar að vega og meta hvort hún vill nota þetta ákvæði, og sveitarstjórnarmenn ganga undir dóm sinna kjósenda að loknu hverju kjörtímabili. En ég trúi því að það sé vilji íbúðaeigenda að götunum sé komið í sem best horf sem mögulegt er. Það er hinum smærri sveitarfélögum ákaflega illviðráðanlegt, og þetta er spor í þá átt að viðurkenna að það er fyrst og fremst samfélagsins að gera þetta.

Það eru sett viss mörk um það hvað má innheimta í útsvörum, og það er verið að nálgast það, eins og ég veit að borgarráðsmaður, hv. 12. þm. Reykv., veit, að hinni lögákveðnu hámarksupphæð í útsvarsálögum sé að mestu leyti orðið ráðstafað með löggjöf þannig að þar koma sveitarstjórnir lítt til. Það er ákaflega lítið eftir til ráðstöfunar af hinum almennu útsvörum þó að í fyllsta hámarki sé, — það er lítið eftir til verklegra framkvæmda í því efni. En ég er ekkert óhræddur við að samþykkja þetta að því leyti til, að það hlýtur að verða mat hverrar sveitarstjórnar á hverjum tíma hversu langt sé rétt að ganga í þessu efni. Þær eiga sinn dóm yfir sér.