26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

305. mál, endurskoðun stjórnarskrárinnar

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég hef óskað eftir því við formann þeirrar stjskrn. sem nú er að störfum, Hannibal Valdimarsson, að hann gerði grein fyrir hvað líði störfum stjskrn. og vil leyfa mér að lesa hér upp — með leyfi forseta — svar hans:

„Nefndin hóf störf í sept. 1972 og hefur unnið að verkefni sínu síðan. Er n. hafði á fyrsta fundi sínum skipt með sér verkum urðu nm. sammála um að heppilegt væri á næstu fundum að ræða málið í heild en snúa sér síðan að athugun einstakra efnisþátta stjórnarskrárinnar. Þegar að því kæmi mundi sennilega nauðsynlegt að ráða sérfræðinga til ráðuneytis við n., enda væri ráð fyrir því gert í sjálfri samþykkt Alþ. Var þó talið rétt að fresta því þar til öflun gagna væri að mestu lokið og úrvinnsla úr þeim hafin.

Þá var öflun gagna hérlendis og erlendis næsta verkefni n. Voru fljótlega lagðar fram stjórnarskrár þessara ríkja: Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar, Tékkóslóvakíu, Sambands hinna sósíalísku Sovétlýðvelda, Frakklands og Bandaríkja NorðurAmeríku. Er þessi gögn lágu fyrir n. kom fram ósk um að enn fremur yrði útveguð stjórnarskrá Vestur-Þýskalands, Sviss, Írlands og Niðurlanda. Var þess einnig óskað að þessar stjórnarskrár og þær aðrar, sem ekki væru til á íslensku, yrðu þýddar eða a.m.k. tekinn úr þeim efnisútdráttur á íslensku. Var utanrrn. skrifað og þess óskað að það gerði ráðstafanir til að útvega þessar stjórnarskrár. Einnig voru gerðar ráðstafanir til að fenginn yrði maður til að gera efnisútdrátt úr þessum gögnum þegar þeirra hefði verið aflað.

Auk þessara gagna fengu nm. í hendur till. þær sem á síðari árum hafa verið bornar fram á Alþ. til breytinga á stjórnarskránni. Er þar um að ræða þáltill., er Gísli heitinn Guðmundsson flutti á Alþ. og þáltill., er Gunnar Thoroddsen flutti á Alþ. 1971–1972. Hvorar tveggja till. eru í mörgum liðum og gera þannig ráð fyrir allvíðtækri endurskoðun. Ber margt saman í till. þessum. Efni þessara till. var rætt allrækilega í n. og farið yfir grg. er með þeim fylgdu. Nokkru síðar sendi Ragnar Arnalds n. frv. til stjórnarskipunarlaga sem hann hafði lagt fram ásamt fleiri þm. Alþb. á árunum 1966–1968. Var frv. þetta einnig rætt í nefndinni.

Það mun hafa verið strax á 2. fundi n. sem formaður beindi því til nm. að taka sérstaklega eftirtalin atriði til athugunar:

1. Skipan handhafa forsetavalds í forföllum forseta, hvort menn teldu núverandi skipan á hendi þriggja manna æskilega eða hvort menn teldu réttara að varaforseti væri kjörinn samtímis og á sama hátt og kjör forseta fer fram.

2. Hvort ákvæði um landsdóm skuli haldast eða taka upp aðra skipan, t.d. þá að fela Hæstarétti hlutverk dómsins, en hann hefur svo sem kunnugt er verið óvirkur frá öndverðu og ákvæðin um hann þannig alltaf reynst dauður bókstafur.

3. Hvort halda skuli núverandi deildaskiptingu Alþingis eða breyta því í eina málstofu. Alllöngu eftir að n. hafði rætt þetta atriði barst frv. Benedikts Gröndals um að breyta Alþ. í eina málstofu.

4. Hvort hin evangelísk-lúterska kirkja skuli áfram vera þjóðkirkja á Íslandi.

5. Hvort menn vilji rýmka og auka heimildir stjórnarskrár til þjóðaratkvæðagreiðslna eða láta núgildandi heimildir nægja.

6. Á kjördæmaskipanin, tala þm. og þm.- tala hvers kjördæmis að vera bundin í stjórnarskrá eða aðeins að meira eða minna leyti í kosningalögum?

7. Á að taka víðtæk mannréttindaákvæði inn í sjálfa stjórnarskrána í viðbót við þau sem nú eru talin?

8. Eiga takmarkandi ákvæði um kjörgengi, eins og þau er nú gilda um hæstaréttardómara, að ná til fleiri embættismanna, svo sem bankastjóra, sýslumanna og lækna?

Öll þessi atriði hafa verið rædd meira eða minna í n. og að sumum þeirra vikið oftar en einu sinni. Einna ítarlegastar voru umr. um deildaskiptingu Alþ. Virtust flestir nm. fremur aðhyllast þá skoðun að forsendur fyrir deildaskiptingu væru orðnar svo breyttar að réttara væri að fara að dæmi þeirra nágrannaþjóða sem nú þegar hefðu fellt deildaskiptingu niður og breytt þingum sínum í þing einnar málstofu. Tóku þó flestir nm. rækilega fram að það, sem þeir segðu á þessu stigi málsins um afstöðu til efnisatriða varðandi þetta og annað, túlkaði persónulegar skoðanir þeirra og væri sagt með fyllsta fyrirvara um samþykki þingflokka þeirra.

Talið var rétt að leita umsagna þingforseta í nágrannalöndum, þar sem deildaskipting hefði verið felld niður, um það hvernig hin nýja skipan hefði reynst í framkvæmd.

Varðandi 5. lið hér að framan, þ.e. um þjóðaratkvgr., létu menn í ljós að þeir væru yfirleitt hlynntir nokkurri rýmkun. Fyrir n. lágu ítarlegar skýrslur um þjóðaratkv. á Íslandi og í nokkrum öðrum löndum samdar af þeim Valdimar heitnum Stefánssyni saksóknara ríkisins og dr. Gauki Jörundssyni. Hafa nm. kynnt sér þessa viðamiklu skýrslu rækilega og hefur verið kosin undirnefnd til að semja álit um þennan efnisþátt stjórnarskrármálsins.

Um 6. liðinn hér að framan, breytingaþörf á kjördæmaskipaninni, fóru einnig fram nokkrar umr. Varð fljótt augljóst að um þetta voru skoðanir mjög skiptar og ólíklegt að n. gæti mótað till. um það nema að höfðu mjög nánu sambandi og samráði við þingflokkana sem vafalaust þurfa að leita samkomulagsleiða sín á milli um lausn þess. Að umr. loknum urðu nm. ásáttir um að láta þetta mál ekki tefja fyrir störfum n. á þessu stigi, heldur leggja það til hliðar um sinn og geyma að taka afstöðu til þeirra atríða, sem kjördæmaskipunina varða, þangað til seinast, þar sem hér væri um að ræða eitt viðkvæmasta pólitíska vandamálið í öllu endurskoðunarstarfinu.

Um það, hversu víðtæk mannréttindaákvæði sé rétt að taka inn í stjórnarskrána og þá hver, hefur verið lagt til í n. að leitað verði til sérfróðra manna er semji um það álitsgerð fyrir nefndina.

Ýmis önnur atriði en hér hefur verið greint frá hafa verið tekin til umr. á fundum n. Í þál. um endurskoðun stjórnarskrárinnar segir að n. beri að leita álits sýslunefnda og bæjarstjórna, landshlutasamtaka sveitarfélaga og landssambanda stéttarfélaga. Samkv. þessu ákvað stjórnarskrárnefnd á fundi sínum 5. júlí í sumar að rita bréf þeim aðilum sem samkv. þál. ber að leita álits hjá og till. um breyt. á stjórnarskránni. Meginmál bréfsins var svo hljóðandi:

„Hinn 18. maí 1972 samþykkti Alþ. till. til þál. um skipun 7 manna n. til að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Í þessari þál. segir m.a.:

N. ber að leita álits sýslunefnda og bæjarstjórna, landshlutasambanda sveitarfélaga og landssambanda stéttarfélaga. Hún skal leita álits lagadeildar Háskóla Íslands og hæstaréttar um lögfræðileg efni. Með opinberri tilkynningu skal þeim, sem þess kynnu að óska, gefinn kostur á að koma á framfæri við n. skriflegum og skriflega rökstuddum brtt. við núgildandi stjórnarskrá fyrir þann tíma sem n. tiltekur.“

Samkv. þessu leitar stjórnarskrárnefndin nú álits yðar og till. til breyt. á stjórnarskránni og óskar þess að svör yðar hafi borist n. eigi síðar en 1. des. n.k.

Virðingarfyllst,

f. h. stjórnarskrárnefndar,

Hannibal Valdimarsson,

Guðmundur Benediktsson.“

Vegna fyrirmælanna í ályktun Alþ. um, að stjórnarskrárnefnd skuli einnig með opinberri tilkynningu gefa sérhverjum þeim, sem þess kynni að óska, kost á að koma á framfæri við n. skriflegum og skriflega rökstuddum brtt. við núgildandi stjórnarskrá fyrir þann tíma sem n. tiltaki, var svo hljóðandi auglýsing birt í Lögbirtingablaðinu:

„Hinn 18, maí 1972 samþykkti Alþ. till. til þál. um skipun 7 manna n. til að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar, Í þessari þál. segir m.a.

„Með opinberri tilkynningu skal þeim, sem þess kynnu að óska, gefinn kostur á að koma á framfæri við n. skriflegum og skriflega rökstuddum brtt. við núgildandi stjórnarskrá fyrir þann tíma sem n. tiltekur.

Samkv. þessu leitar stjórnarskrárnefndin nú álits og till. til breytinga á stjórnarskránni og óskar þess að svör berist n. eigi síðar en 1. des. n.k.“

Undir þá auglýsingu skrifa f.h. stjórnarskrárnefndar Hannibal Valdimarsson og Guðmundur Benediktsson.

Eins og augljóst er af framanrituðu og auglýsingu í Lögbirtingablaðinu var veittur 5 mánaða frestur til þess að skila svörum og brtt., þ.e. til 1. des. Voru nm. sammála um að þetta væri ríflegur frestur til andsvara. En þegar þetta er ritað hafa samt engar till. borist n. En um seinustu mánaðamót barst svo hljóðandi bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga:

„Reykjavík, 24. okt. 1974. Með bréfi, dags. 8. júlí s.l., leitaði stjórnarskrárnefnd álits Sambands ísl. sveitarfélaga og till. til breytinga á stjórnarskránni og óskaði n. eftir að svör bærust eigi síðar en 1. des. n.k. Sambandið fagnar því að fá þetta tækifæri. Á landsþingi sambandsins 3.–5. sept. s.l. var kosin sérstök n. til þess að vera stjórn sambandsins til ráðuneytis um þetta mál. Þar eð n. hefur enn ekki haft tækifæri til að koma saman er sýnilegt, að álit og till. sambandsins geta ekki legið fyrir 1. des. n.k., og fer ég þess hér með á leit við hv. stjórnarskrárnefnd að hún framlengi skilafrestinn til 16. febr. n.k.

Virðingarfyllst,

Magnús E. Guðjónsson,

framkvæmdastjóri.“

Ekki hefur ennþá verið tekin ákvörðun um hvort verða skuli við tilmælum Sambands ísl. sveitarfélaga um að framlengja skilafrestinn til 16. febr. þar eð bréfið barst eftir að seinasti fundur n. var haldinn, en það var 10. okt. s.l.

Þannig standa málin nú, en ætlunin var að hefja úrvinnslu aðsendra till. upp úr mánaðamótum og ganga síðan til ákvörðunartöku um efnisatriði í framhaldi þess.

Hannibal Valdimarsson.“

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu nema að gefnu tilefni að bæta einu eða neinu við þessa grg. um störf stjórnarskrárnefndar þar sem ég vænti þess að hún skýri sig sjálf.