10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3788 í B-deild Alþingistíðinda. (2925)

43. mál, ljósmæðralög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég þarf litlu við að bæta það sem hv. 5. þm. Austf. var að enda við að segja hér áðan. En þetta er nú í annað sinn sem ég stend að frv.-flutningi í sama anda og í annað sinn sem ég verð fyrir þeirri reynslu að þurfa að vísa því til ríkisstj. — máli sem ég taldi í upphafi og tel enn að sé svo sjálfsagt að ekki þurfi annað að gera en að renna því í gegnum Alþ. Það má kannske segja mér til afsökunar áður að ég hafi haft mikla trú á því að mín eigin ríkisstj. sinnti þessum málum vel, en það má kannske líka heimfæra það nú að þessi trú mín á núv. hæstv. ríkisstj. sé kannske oftrú frá mínum bæjardyrum séð og það sé í raun óþörf linkind af mér að standa í annað sinn að því að láta vísa þessu máli til ríkisstj., það sé sem sagt rétt að láta sjást hvort svona sjálfsögð réttindi komast í gegn hér á Alþ., eða ekki. Ég vil þó enn láta reyna hér á, og trú mín á hæstv. ríkisstj., sem reyndar er ekki kannske beysin, er þó byggð gagnvart þessu máli á tilvitnuðum orðum sem hv. 5. þm. Austf. fór hér með frá hæstv. heilbr.- og trmrh. í Sþ. þegar hann svaraði fyrirspurn frá mér varðandi þetta. Þau orð hans styrktu mig í þeirri trú að frá honum mætti góðs vænta í þessu máli.

Hinu er svo ekki að neita að mér hefur þótt hans ráðuneyti, heilbr.- og trmrn. vera heldur neikvætt í þessum efnum. Mér hefur þótt embættismenn þar einblína á þann hluta ljósmæðra sem kemur til starfa á heilsugæslustöðvunum. Við höfum auðvitað engar áhyggjur af þessum konum. Þær ganga inn í störf betur launuð en þær hafa áður haft. En hæstv. ráðh, hefur einmitt lofað því að líta á hinar líka, og það er í því trausti sem ég stend að þessari afgreiðslu ásamt öðrum nm.

Þær konur, sem hér um ræðir, eru í raun að mínu viti án allra réttinda. Þær búa við launakjör sem eru ákveðin á furðulegan máta, samkv. yfir 40 ára gömlum lögum, í engum tengslum við launakjör opinberra starfsmanna yfirleitt þó að launakjör þeirra hafi smátt og smátt batnað að vísu. Þessi réttindi hljóta að vera sjálfsögð þeim til handa. Þær hafa unnið erfitt starf, innt af hendi góða þjónustu. Þetta eru aðallega eldri konur eða konur sem vinna við þessi störf í mjög afskekktum héruðum. Ég bendi á það t. d. sem hefur verið gert áður hér hvað lífeyrissjóður þeirra ljósmæðra er broslegur. Bætur þaðan eru nær engar, og stafar það einmitt af því hvernig þær taka laun.

Eins og hv. 6. þm. Austf. tók fram, þá væntum við þess að niðurlagsorðin í okkar nál.: „í trausti þess að réttindaatriði ljósmæðrum til handa, þau sem felast í frv., verði lögfest“ — að þau niðurlagsorð verði að raunveruleika, þá sætti ég mig við þetta nú, en stend að því með honum að endurflytja þetta frv. ef ekkert gerist. Og allt er þá þrennt er, og þá verður á það að reyna hvað þingið gerir í málinu.