10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3796 í B-deild Alþingistíðinda. (2933)

129. mál, fisksölusamstarf við Belgíumenn

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Sjútvn. Ed. hefur haft til meðferðar þáltill. um fisksölusamstarf við belgíumenn.

Þessi till. er nú orðin alllegin. Við ræddum hana, sendum hana til umsagnar, fengum eina umsögn sem var jákvæð, og nefndin hefur gefið út á þskj. 575 svofellt nál.:

N. var sammála um að mæla með samþykkt till. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Jón G. Sólnes og Halldór Ásgrímsson.“

Þessi till. fjallar um það að fela ríkisstj. eða þeim aðilum er hún til þess kveður, að leita eftir samstarfi við belgíumenn um neðangreind atriði:

1. Um bætta löndunar- og geymsluaðstöðu á íslenskum fiski í Ostende.

2. Um myndun fyrirtækis er hafi það verkefni að dreifa og selja ferskan og frystan fisk í hinum ýmsu Mið-Evrópulöndum.

3. Um möguleika á flugflutningi á fiski milli Keflavíkur og Ostende með dreifingu þaðan um Mið-Evrópu í huga.

4. Um hugsanlega lækkun sölu- og löndunarkostnaðar vegna aukinna umsvifa.

Í sjálfu sér þarf ekki mikið um þetta mál að segja. Okkur hefur orðið það ljóst á síðustu árum að það er hæpið fyrir okkur að treysta á fáa stóra markaði. Breytingar þar geta komið hart við okkur eins og reynslan hefur sýnt. Hins vegar hafa sölumiðstöðvar fyrir íslenskan fisk í Evrópulöndum verið mjög ófullkomnar. Þar er aftur á móti geysimikill markaður og miklir markaðsmöguleikar, ekki aðeins í Mið-Evrópu, heldur er þaðan stutt til stöðva í Afríku og Asíu, og með breyttum þjóðfélagsháttum, eins og nú er í sunnanverðri Evrópu og í Afríku og Asíu, má ætla að markaðir, sem hingað til hafa verið lokaðir eða ekki til, opnist fyrir okkar framleiðsluvörur. Má t. d. geta þess að nú nýlega hefur komið fram sú skoðun að hægt væri að hafa áhrif á einn alvarlegasta sjúkdóm Afríku, þ. e. a. s. skort á próteinum, skort á eggjahvítuefnum, með því að blanda fiskmjöli í brauð, og viss Afríkuríki hafa lýst áhuga á að fá samstarf við okkur í því efni. Eitt er víst, að okkur er nauðsyn að fá upp bætta aðstöðu til fisksölu bæði í Mið-Evrópulöndum, Afríku og Asíu. Með þetta í huga er þessi till. flutt, vegna slæmrar reynslu af hinum fáu og stóru mörkuðum sem við höfum orðið að treysta á undanfarið.