10.05.1975
Efri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3800 í B-deild Alþingistíðinda. (2955)

232. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 2. umr., er flutt af landbn. Nd. og er flutt að beiðni veiðistjóra. Efni frv. er einungis um að hækka verðlaun fyrir að vinna refi og minka og farið er fram á þá hækkun með hliðsjón af þeim breytingum sem hafa orðið á verðlagi. Í grg. með frv. og fskj. með því er prentað bréf frá veiðistjóra þar sem hann skýrir þessa beiðni sína, og ég sé ástæðu til, af því að ekki var mælt fyrir þessu frv. hér við 1. umr., að koma aðeins lítillega inn á það sem hann hefur um þetta að segja.

Hann segir m. a. að á nýliðnu ári hafi enn orðið miklar verðhækkanir svo að núgildandi verðlaun, 1 100 kr. fyrir ref og 700 kr. fyrir mink, séu enn lengra frá að ná tilgangi sínum. Þegar lög um eyðingu refa og minka voru samþ. á Alþ. 1957 voru verðlaunin ákveðin 350 kr. á ref og 200 kr. á mink og þótti þá síst of hátt. Miðað við kauptaxta þá, sem var 20–25 kr. á tímann, en er nú um 300 kr. á tímann, ættu verðlaun að vera um 4 500 kr. fyrir ref og 3 000 kr. fyrir mink, en verðmunur á skotvopnum, veiðibúnaði og bílkostnaði er nú margfalt meiri en þetta.

Þó að veiðistjóri skýri frá þessum staðreyndum er þó ekki farið fram á þessa hækkun, heldur er beðið um að verðlaun fyrir að vinna ref verði 2 500 kr. og fyrir mink 1500 kr. og aðrar upphæðir í samræmi við það.

Að sjálfsögðu mætti spyrja hvort þessar veiðar væru nauðsynlegar. Ég hygg, að menn verði almennt sammála um að það megi ekki láta þær niður falla. Refurinn gerir að vísu öllu minni usla nú en áður í búfénaði bænda. Það er minna um það að hann leggist á sauðfé heldur en áður var. Hins vegar held ég að það fari ekki á milli mála að hann vinnur mikinn skaða í varplöndum þegar hann kemst í þau, og má segja sömu sögu um hann eins og minkinn að varðandi allt fuglalíf í landinu er hann mesti skaðvaldur.

Það er nú svo að eins og stendur virðist fjölgun ekki eiga sér stað í refastofninum en án þess að þó sé nein hætta á því að honum verði útrýmt. Hins vegar hefur síðustu tvö ár sérstaklega orðið nokkur fjölgun að því er varðar villimink og er það trúlega vegna þess að mönnum þykir það minna keppikefli nú að gera ferðir til þess að vinna minkinn fyrir þau verðlaun sem í boði hafa verið undanfarandi. En ég held að allir séu sammála um að það þurfi verulega að halda þeim skaðvaldi niðri, sérstaklega vegna þess, eins og ég sagði áðan, að hann er mikill skaðvaldur í varplöndum og hið sama er að segja um veiðivötn.

Ég hef ekkert frekar að segja um þetta málefni. Ég vildi aðeins láta þessar röksemdir koma hér fram. Það skýrir álit okkar í landbn. sem leggjum til að frv, verði samþ. óbreytt. Þess ber að geta að hv. þm. Jón Árm. Héðinsson var ekki á fundi þegar málið var afgr.