10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3807 í B-deild Alþingistíðinda. (2967)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég skal ekkert um það fullyrða hvort þetta er í fyrsta og eina skiptið sem þetta hefur komið fyrir. En það er búið að bera fram margar fsp. við bæði þan rn., sem ég hef með að gera á þessu þingi í vetur, og mig misminnti það að þetta svar ætti að vera skriflegt — og ég auðvitað bið afsökunar á því — því að það hafa verið nokkrar fsp. sem beðið hefur verið um skriflegt svar við. Þau svör hafa öll verið gefin. Það verk hefur verið framkvæmt af starfsmönnum í rn. undir forustu ráðuneytisstjóra í báðum þeim rn., en það hefur gengið böslulega með þessa fsp. Hins vegar skal ég játa það að ég hef ekki haft tíma til þess að fara sjálfur í að vinna að svari við þessari fsp., og ég hygg að hv. fyrirspyrjandi, sem gegndi þessu ráðherraembætti á undan mér, hafi þurft á því að halda að hafa starfsfólk til þess. Þarna var hafður sá háttur á. Ráðuneytisstjórinn í heilbrrn. er allra manna duglegastur og fljótastur til allrar vinnu og get ég ekki annað en borið honum það allra besta sem hægt er að bera einum starfsmanni. En ég hef kvartað undan þessu vegna þess hvað mér hefur fundist það seint ganga. En þetta er ástæðan fyrir því. Og ef hv. 3. þm. Reykv. reiðist yfir því að það sé sagður umbúðalaus sannleikurinn, þá verður að hafa það.