10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3808 í B-deild Alþingistíðinda. (2970)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs til þess að óska þess eindregið við hæstv. forseta að hann láti ekki koma hér til umræðu 18. mál á dagskránni, þ. e. atvinnuleysistryggingar — fæðingarorlof. Ég ber þessa ósk fram vegna þess að það var fyrst í gærmorgun sem mál þetta var afgreitt úr nefnd og þá að vísu án þess að við í stjórnarandstöðunni teldum að hefði verið fullnægt þeirri lágmarksskyldu eða kröfu að við fengjum í hendur umsagnir þeirra aðila sem leitað var til og vitað var að búnir voru að svara. Þessar umsagnir bárust ekki, a. m. k. mér, fyrr en síðari hluta dags í gær og ég tel að það hafi verið of stuttur tími til þess að ætlast til af okkur að ganga frá nál. og brtt. ef við hygðumst gera það. Vegna þessa stutta fyrirvara fer ég þess eindregið á leit við hæstv. forseta og vænti þess að hann verði við þeirri beiðni að þetta mál verði ekki tekið til umr. nú á þessum fundi eða nú í dag.