10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3809 í B-deild Alþingistíðinda. (2972)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Það er út af þeim ummælum forseta að það sé ekki ótítt að mál komi hér til umræðu með stuttum fyrirvara, þá er það að sjálfsögðu rétt. Hitt held ég að sé rangt hjá hæstv. forseta, að fyrir nokkrum dögum hafi verið liðinn sá frestur sem gefinn var til umsagnar. Ég hygg að það hafi ekki verið fyrr en 8. maí sem tilskilinn frestur var útrunninn ef ég man rétt — það verður þá leiðrétt af hv. formanni þessarar umtöluðu nefndar fari ég með rangt mál — en ég hygg að fresturinn hafi verið útrunninn 8. maí. Í gær var 9. maí og þá var málið tekið til afgreiðslu í nefndinni, þannig að ég held að ég muni rétt að það eru ekki margir dagar, sem voru liðnir umfram tilskilinn frest sem veittur var. Ég ítreka það og vænti þess að hæstv. forseti verði við þeirri beiðni að þetta mál verði ekki tekið til umr, fyrr en á mánudag.