10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3809 í B-deild Alþingistíðinda. (2974)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Jón Skaftason:

Herra forseti, Vegna þess að fsp. var til mín beint langar mig til að svara henni örfáum orðum. Ef ég man rétt mun það hafa verið á fundi í heilbr.- og trn., að mig minnir 28. f. m., að ákveðið var að senda þetta mál til umsagnar. Það var algert samkomulag í nefndinni að setja stuttan frest til svara, og ef mig misminnir ekki þá hygg ég að sá frestur hafi verið ákveðinn vika og í bréfi til umsagnaraðila hafi verið sett tilmæli um að umsögn berist eigi síðar en 6. maí til nefndarinnar. Þegar við svo tókum mál þetta fyrir í heilbr.- og trn. í gærmorgun, 9. maí, hafði borist umsögn frá einum af þeim fjórum aðilum sem málið var sent til umsagnar. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hafði lokið við að semja sitt svar sem okkur hafði að vísu ekki borist, en sumum okkar a. m. k. í nefndinni var fullkunnugt um hvers efnis það svar var. Á grundvelli þessa var málið afgr, úr n. á þann hátt sem nál. ber með sér. Ég vil því mótmæla því algerlega að af hálfu n. hafi á nokkurn hátt verið viðhöfð afbrigðileg vinnubrögð um þetta frv. umfram það sem mjög er algengt þegar þingi er að ljúka.