10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3810 í B-deild Alþingistíðinda. (2975)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Skaftasyni fyrir að upplýsa þetta hér. Ég minnist þess eigi að síður að formaður stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs mun hafa haft símasamband við hv. þm. Jón Skaftason sem formann heilbr.- og trn. og skýrt honum frá því að þeir væru ekki tilbúnir að skila svari sínu á tilskildum fresti og frestur hafði verið gefinn til viðbótar a. m. k. um einn ef ekki tvo daga. Þetta var ekki komið skriflegt í gærmorgun, eins og hann tók fram, en hann hafði þá fengið vitneskju um hver væri niðurstaða stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og gerði lauslega grein fyrir því.

Hitt er mér ekki kunnugt um að ég eða aðrir hafi ásakað n. fyrir að hún hafi verið með einhver óeðlileg vinnubrögð. Það var einungis það að ég óskaði eftir að málið yrði ekki tekið hér til umr. vegna þess hversu stuttur tími hefði gefist til þess að ganga bæði frá nál. og brtt. þar sem málið var ekki afgr. fyrr en í gær og umsögn barst ekki fyrr en síðari hluta dagsins í gær. Það var einungis þetta. Mér er ekki um það kunnugt að nokkur hafi ásakað formann n. eða meiri hl. hennar um að nefndarstörf hafi verið með óeðlilegum hætti. Hitt finnst mér nokkuð hart keyrt ef stjórnarandstöðu í þessu máli sem og öðrum er ekki gefinn kostur á því að ganga frá nál. og brtt. um mál sem ætlast er til að hér séu tekin til umræðu.