26.11.1974
Sameinað þing: 13. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

27. mál, kaup ríkissjóðs á húsakosti í Flatey á Skjálfanda

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Till., sem ég flyt hér, fjallar um kaup ríkissjóðs á húsakosti á Flatey á Skjálfanda og er svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að festa kaup á húsakosti einstaklinga á Flatey á Skjálfanda, þeirra sem selja vilja, og gera ráðstafanir til þess að eignum þessum verði haldið við, svo að verstöðin, eyjan með gögnum og gæðum, sé tiltæk til fullra nytja.“

Grg., sem till. fylgir, er svo hljóðandi: „Flatey á Skjálfanda, eign ríkisins, hefur verið í eyði í 6 ár, þar sem hún liggur tæpa eina og hálfa sjómílu undan Flateyjardal. Hafði byggðin tærst upp á nokkrum árum vegna skorts á félagslegri þjónustu samfara ýmiss konar lagasetningu sem þrengdi hag útkjálkabyggða. Hélst það nokkurn veginn í hendur, að lokið var hafnargerð á eynni fyrir 12 millj. kr. og síðasti Flateyingurinn fluttist til Húsavíkur. Eftir stóðu þá á eynni 17 íbúðarhús, þar af 4 á lögbýlum, skólahús, samkomuhús, og kirkja, verslunarhús Kaupfélags þingeyinga og fiskverkunarhús og aðrar byggingar sem að sjávarútvegi lúta.

Nú er svo komið að flestum eigendum húsanna á Flatey er orðið um megn að annast þau sem skyldi. Hafa sum þegar skemmst af vanhirðu, en önnur liggja undir skemmdum og ekki sýnt að eigendurnir, sem flestir hverjir eru orðnir aldurhnignir, hafi bolmagn til að bjarga þeim frá eyðileggingu.

Ljóst er að landeigandi, ríkissjóður, hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart landsetunum og nú tímabært að á því verði ráðin bót.

Nú liggur það ekki fyrir hversu margir húseigendur vilja selja eignir sínar á Flatey, en flm. hefur rökstudda ástæðu til að ætla að það muni flestir vilja, og sé reiknað með öllum húseignunum, þá nemur fasteignamat þeirra samtals 2.3 millj. kr., en brunabótamat 22 millj. Samkv. upplýsingum tryggingafélagsins, er brunabótamatið óeðlilega lágt miðað við byggingarkostnað, og stafar af því að tekið er tillít til þess að húsunum hefur ekki verið haldið við.

Ef hugað er að eign ríkisins, Flatey á Skjálfanda, og notagildi hennar, verður myndin þessi: Flatey telst vera 262 hektarar að flatarmáli.

Þar af eru 200 hektarar gróið land og ræktunarhæft. Landverð lögbýlanna fjögurra er að fasteignamati 477 þús. kr. og hlunnindi eru metin á 279 þús. kr. samkv. sama mati. Leigulóðir undir fyrrnefnd hús, önnur en lögbýli, eru metnar á 144 þús. Höfn sú, er fyrr getur og lokið var við árið 1967, mun hafa kostað um 12 millj. kr. og er enn í eigu ríkisins. Þegar byggð lagðist af með öllu í Flateyjarhreppi, var allt landssvæði hreppsins lagt undir Hálshrepp með því skilyrði af hálfu forsvarsmanna hans, að skuldir Flateyjarhafnar fylgdu ekki með. Hefur hafnamálastjórn verið að smáborga niður þær skuldir og munu standa eftir af þeim um 7.5 millj. kr. Í Flatey er nú lífhöfn fyrir smábáta og sé verðmæti hennar reiknað út frá vísitölu byggingarkostnaðar má meta hana á 50 millj. kr. Þá er enn ótalinn flugvöllur á eynni, sem nú mun að vísu ekki í sem bestu ástandi, en gera má hann nothæfan með mjög litlum tilkostnaði.

Þar sem Flatey liggur nú í eyði með hrörnandi hásakosti og ónotaðri lífhöfn, má heita að eigandinn, íslenska ríkið, hafi af henni vansæmdina eina og ekkert gagn. Í byggð og nytjum yrði hún tæpast metin til verðs, ef tekið er tillít til auðlegðar fiskimiðanna kringum eyna.

Ljóst er að þegar á næstu missirum munu þær verstöðvar, þær sem skemmst er að sækja á fiskislóð, fá stóraukið verðgildi sökum hækkaðs olíuverðs. Árið 1973 mun hafa látið nærri að hver 5 kg af fiski hafi kostað 1 kg í olíueyðslu, og sýnt má nú heita að eldsneytiskostnaður fiskiskipaflotana muni hækka til mikilla muna enn á næstu árum og hafa úrslitaþýðingu í sjávarútvegi okkar.

Í framsöguræðu með þáltill. mun ég freista þess að gera ítarlegri grein fyrir þjóðhagslegum ávinningi af því að ríkið taki fasteignir á Flatey í sinar hendur, en ítreka í lok grg. þá skoðun flm. að ríkisvaldið standi í óbættri skuld við fyrrverandi landseta sína á eynni og hana beri að gjalda án tafar“

Í grg. þeirri, sem ég var nú að lesa fyrir þáltill. minni um kaup ríkissjóðs á húsakosti á Flatey á Skjálfanda, staðhæfi ég það sem er að ríkissjóður hefur ekki staðið við skuldbindingar sinar gagnvart landsetunum. Ég staðhæfði að byggð á eynni hafi lagst niður, íbúarnir hrakist burtu frá eignum sínum vegna slæmrar félagslegrar þjónustu og svo ýmiss konar löggjafar sem gerði það að verkum að útkjálkamenn gátu ekki rækt lagalega skyldu við samfélag sitt. Ég eyði ekki tíma í það að tína til rök sem hv. alþm. hafa þegar fulla vitneskju um, en vil til staðfestingar tilgreina aðeins það að flateyingum var ekki kleift af fjárhagsástæðum að sjá börnum sínum fyrir barnaskólagöngu samkv. skólalöggjöfinni og hið opinbera veitti þeim ekki þá aðstoð sem þurfti til þess að þeim væri kleift að halda við byggð í eynni.

Víkjum þá að fyrirheiti grg. um frekari rökstuðning fyrir þeim þjóðhagslega ávinningi sem af því væri að ríkið gerðist eigandi að húsakosti á Flatey. Það mun ekki vera fjarri lagi að fjárfesting ríkisins í hafnarmannvirkjunum og flugvellínum á Flatey nemi upphæð sem nú reiknaðist á 55 millj. kr. Ef við bætum svo við verðmæti sjálfrar eyjarinnar þar sem hún liggur nú í niðurníðslu, þá ætla ég að 60 millj. kr. væru varlega áætluð heildarmatsupphæð. Þessir milljónatugir liggja þarna ónýtir eins og er og hljóta raunar að eyðast ef ekki verður búið þannig um hnútana að mannabyggð geti myndast á eynni á ný.

Þá skulum við víkja aðeins að líkindunum fyrir því að fólk vilji setjast að á Flatey á Skjálfanda á nýjan leik. Ég er þeirrar skoðunar að sá tími sé nú e.t.v. ekki ýkjalangt undan að fólk muni telja fýsilegt að byggja að nýju ýmsa þá staði þar sem áður var byggð er lagðist í eyði á síðustu áratugum vegna lífsgæðakapphlaups sem nú er að ljúka. Lífsgæðakapphlaupinu er að ljúka vegna þess að gæðin, sem keppt var um, eru að þrjóta og við blasir ekki beinlínis skemmtikapphlaup, heldur barátta um nauðþurftir þar sem til verður að kosta miklu þreki til þess að nýta gæði lands og lagar á sem ódýrastan og hagkvæmastan hátt, og munu þurfa til að koma e.t.v. bæði fjallagrös og söl um það er lýkur til þess að brauðfæða íbúa þessa lands.

Í grg. sagði ég að árið sem leið hefði það kostað fiskiflotann okkar 1. kg af olíu að afla 5. kg af fiski. Raunar mun það dæmi vera fullhagstætt. Hvert kg af olíu mun ekki hafa gefið nema rúmlega hálft 5. kg af fiski. Hér er rætt um olíunotkun fiskiskipaflotans í heild. Hjá línubátunum og bátaflotanum í heild var orkunýtingin yfirleitt mun hagstæðari. Línubátarnir munu hafa skilað röskum 10 kg af fiski fyrir hvert olíukg. Hjá togurunum hefur orkunýtingin verið svo léleg að láta mun nærri að eytt hafi verið kg af olíu fyrir hvert kg af fiski sem þeir hafa komið með að landi. Meðalafli á úthaldsdag hjá togurunum var 7–8 tonn. Meðalolíueyðsla á úthaldsdag var 6–8 tonn. Þegar á heildina er lítið og rætt er um kostnaðarhliðina má heita að olíutilkostnaður hafi numið 9% af brúttóverðmæti aflans. Hjá mótorbátunum nemur þessi kostnaður ekki nema tæpum 5%, en hjá togurunum mun olíukostnaðurinn nema nær helmingi.

Ekki treysti ég mér til þess að leiða getum að því hvort fiskverð muni hækka í líkingu við olíuverð á næstu árum. Hitt þykjast fróðir menn vita, að olíuverð muni hækka um a.m.k. 150% á næstu 5 árum, og einnig hitt, að olía muni þrjóta gersamlega innan fárra áratuga.

Í þessu sambandi get ég ekki látið hjá líða að minnast á frétt sem kom í hádegisútvarpínu, ríkisútvarpinu okkar, fyrir rúmri viku. Þar var það haft eftir Simons, viðskmrh. Bandaríkjanna, að olíulindir, sem fundist hefðu m.a. í Mexíkó, Kína og botni Norðursjávar, mundu leysa olíukreppuna. Samkv. upplýsingum Rómarklúbbsins eða sérfræðinga, sem störfuðu í hinum svonefnda Rómarklúbbi á sínum tíma og stóð m.a. að útgáfu bókarinnar um takmörk vaxtar, Limits of Growth, geyma þessar olíulindir birgðir sem samsvara 6 ára notkun af olíu í heiminum. Það er allt og sumt. Það er ljóst mál að á allra næstu árum verðum við tilknúnir, hvort sem okkur er ljúft eða leitt, að auka landnýtingu okkar að nýju og miða þá fremur við nauðþurftabúskap heldur en nægtabúskap. Við komum til með að þurfa að hefja útræði á ný frá ýmsum þeirra verstöðva þar sem styst er á fiskimið, og á þeim sömu næstu árum verður draumurinn um samþjöppun útgerðar á nokkra fjölmenna staði e.t.v. ekki jafn nærri og hann er okkur nú, hann er að verða úr sögunni. Hvað þetta snertir má líta á þessa þáltill. sem viðkomandi mörgum útskagabyggðum öðrum en Flatey á Skjálfanda, þar sem enn mætti e.t.v. bjarga verðmætum fasteignum sem munu koma að ákaflega miklum notum á næstu árum.

Tveir þm. Framsfl., þeir Jónas Jónsson og Ingvar Gíslason, fluttu í fyrra þáltill. um búðir fyrir skólafólk á Flatey á Skjálfanda. Þetta var góð till. sem ég hefði gjarnan viljað styðja, eiga aðild að, ekki síst vegna þess að mér er það persónulega kunnugt að Flatey hefur reynst ágætis uppeldisstöð fyrir íslendinga. Hins vegar hefði ég líka talið æskilegt að okkar framsýna, góða, gáfaða og djarfa skólafólk, sem talar af hvað mestri skynsemi um gæði lands okkar og nauðsyn þess að nytja þau fyrir landsmenn sjálfa, hefði haft gott af því að byrja útræði frá Flatey sjálft undir leiðsögn góðra manna sér til sálubótar og heilsubótar og landi okkar til gagns. Nú þykist ég aftur á móti sjá að lokið sé um sinn pólitísku tímabili félagslegra tilrauna á landi okkar, fram undan séu þess háttar harðindi og umfram allt þó á næstu missirum þess háttar viðhorf til félagslegra aðgerða, sem ekki muni leyfa slíkt, og að fram undan kunni að vera á næsta áratug þess háttar tímabil þrenginga, að okkur muni ekki veita af því að hefja nú þegar ráðstafanir til þess að nýta flestöll gæði landsins til þess að framfleyta fólkinu á landi hér, Íslandi, öldnum sem ungum.

Ég er uggandi um að landsfeðurnir séu hálfhræddir við að horfast í augu við kaldan raunveruleikann, ekki síður hér en vestanhafs, í Ameríku. Þeir ímynda sér að einhver ótilgreind snilli mannsandans muni leysa vandamál þurrausinna orkulinda og dvínandi hráefna á þann hátt að neyslusamfélagið glæsilega fái staðist. A.m.k. er ljóst að allar meiri háttar fjárfestingar af hálfu hins opinbera hér á landi virðast miðaðar við það að hagvöxturinn muni halda áfram. Á döfinni mun t.d. nokkurra milljarða fjárfesting í verksmiðju hér í sjónmáli við sjálft alþingishúsið, þar sem ætlunin er að framleiða varning sem hlýtur að falla í verði í réttu hlutfalli við verðhækkun á olíu og orku og hlýtur að verða gersamlega óseljanlegur nokkru áður en olíuna sjálfa þrýtur.

Ég sagði áðan að á allra næstu árum yrði líf þessarar þjóðar undir því komið að hún hefði dug í sér til þess að nytja öll gæði landsins frá fjallseggjum og út á landgrunníð á sem ódýrastan hátt. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ábyrgðarleysi af ríkisstj. og Alþ. að gera sér ekki fulla grein fyrir því þrengingasímabili, sem nú kann að vera fram undan, og veita fé til annarra framkvæmda en þeirra sem miða að því að búa okkur undir þær þrengingar. Á Flatey á Skjálfanda eru nokkur íbúðarhús sem liggja undir skemmdum. Í þeim má hýsa rúmlega 100 manns sem nytjað geta fiskimiðin hið næsta eyjunni, 15 mínútna til klukkutíma róður á árum. Og eyjan er þeim kostum búin til landbúnaðar að hún getur séð íbúum sínum fyrir mjólk og kjöti.

Seinna mun ég vafalaust fá tækifæri til þess að ræða nánar það sérstaka ástand sem gerir það nauðsynlegt að ríkið taki að sér að undirbúa endurbyggð Flateyjar á Skjálfanda og raunar fleiri byggða sem vel liggja við matföngum.

Ég óska þess svo að þáltill. verði vísað til fjvn.