10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3813 í B-deild Alþingistíðinda. (2986)

11. mál, launajöfnunarbætur

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég starfa nú í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar hér í deildinni og mun e. t. v. fjalla ítarlegar um það þegar nefndin hefur lokið atörfum sínum, en engu að síður vil ég fara um það nokkrum orðum við 1. umr.

Það er satt sem hæstv. forsrh. sagði að það hafa verið haldnir einir tveir sameiginlegir fundir nefndanna sem ég hef verið á, en því fer þó mjög fjarri að ég telji að það hafi verið kannað til hlítar af nefnd þessarar hv. d. og að sjálfsögðu hljótum við dm. að leggja áherslu á að um þetta mál verði fjallað á eðlilegan hátt í deildinni.

Þetta frv. hefur legið fyrir Alþ. frá því í þingbyrjun, og það er til marks um ákaflega undarleg vinnubrögð að það er látið liggja aðgerðalaust í nefnd í Ed. án þess að hreyft sé við því þangað til nú í þinglokin. Á því voru að vísu gerðar þar ýmsar verulegar breytingar, en það er haldið föstum ákvæðum sem ég sé ekki betur en séu höfð áfram í frv. til þess að ögra verkalýðssamtökunum á Íslandi, og þar á ég við bæði 1. og 2. gr. Hæstv. ríkisstj. gaf út brbl., þar sem hún kvað á um kaupgreiðslur á Íslandi, að launajöfnunarbætur mættu ekki vera nema 3 500 kr. til manna, sem væru undir tilteknu tekjumarki, og lagði bann við því að greiddar yrðu vísitölubætur á kaup. Síðan hafa verið gerðir samningar milli verkalýðssamtaka og atvinnurekenda, bráðabirgðasamkomulag sem gert var 26. mars s. l. Í þessu samkomulagi ern að sjálfsögðu meðtalin þau ákvæði sem skömmtuð voru með þessum brbl. á sínum tíma. Þau eru nú samningsatriði í samningum verkalýðsfélaga og atvinnurekenda og standa þar að sjálfsögðu óhögguð meðan sá samningur gildir. Hann gildir að vísu aðeins til næstu mánaðamóta, eins og menn vita, en af þessum ástæðum lít ég á það sem hreina ögrun að ríkisstj. skuli halda þessum ákvæðum í þessu frv. Þar segir svo í 1. gr.:

„Frá 1. okt. 1974 til 31. maí 197b og þar til heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins hafa samið um annað skulu launagreiðendur greiða launajöfnunarbætur í stað almennrar verðlagsuppbótar.“

Þessi samningur hefur verið gerður, og það eru mikil undur ef hæstv. ríkisstj. veit ekki um það, svo nátengd sem hún var allri þeirri samningsgerð, þannig að ég held að það hefðu verið miklu eðlilegri vinnubrögð að fella gersamlega niður þennan þátt úr frv., en búa til sjálfstætt frv. um aðra þætti, sem þarna verður að fjalla um, og þá fyrst og fremst bætur til aldraðs fólks og öryrkja og annarra viðskiptavina almannatrygginga. En þetta hefur ekki verið gert, og vegna þess að þarna er verið að fjalla um kaup og kjör, þá er ástæða til að minna á það, þótt við höfum oft gert það hér í vetur, hversu harkalegar árásir hafa verið gerðar á kaup og kjör fólks síðan núv. ríkisstj. tók við. Þær bætur, sem samið hefur verið um og samið var um 26. mars, nema svo sem 40% af þeirri verðhækkun sem orðið hefur á þessu tímabili, og það leið ekki langar tími frá því að þeir samningar höfðu verið gerðir og þar til hæstv. ríkisstj. byrjaði á því að afnema í raun þá tekjuhækkun sem launafólk hafði fengið. Það kom verðhækkanaskriða í kjölfarið. Sama daginn og söluskattur var felldur niður af nokkrum vörutegundum, söluskattar og tollar að upphæð sem nam 600 millj. kr. á ári eftir því hvað það var metið, þá voru hækkaðar reglur um álagningu heildsala og kaupsýslumanna um upphæð sem nemur á annan milljarð kr. á ári. Það var tekið helmingi meira en látið var. Og það var ákveðið einmitt á þeim sömu dögum að þeir atvinnurekendur, sem eru taldir setja út selda vinnu, fengju að velta allri þessari hækkun út í verðlagið. Sama máli gegnir um alla innlenda atvinnurekendur sem hafa aðstöðu til þess, þeir hafa allir fengið að velta þessari kauphækkun af sér út í verðlagið. Það stendur sannarlega ekki á því að afgreiða þá hluti.

Í því sambandi er ástæða til að minna á að í þessu frv., eins og það liggur fyrir, er 10. gr. þar sem segir að frá 1. okt. 1974 til 31. mars 1975 og þar til öðru vísi verði ákveðið megi ekki hækka verð vöru og þjónustu eða endurgjald fyrir afnot af fasteign eða lausafé frá því sem var 23. sept. 1974 nema að fengnu samþykki réttra yfirvalda og skulu þau ekki leyfa neina hækkun nema þau telji hana óhjákvæmilega.

Það er í gildi verðstöðvun. Þessi verðstöðvun hefur verið í gildi frá því í fyrrahaust, og einkenni þessarar verðstöðvunar er meiri verðhækkunarskriða en íslendingar hafa nokkru sinni kynnst — meiri verðhækkunarskriða en íslendingar hafa nokkru sinni kynnst. Hvert einasta atriði í þessum verðhækkunum er samþykkt af ríkisstj. vegna þess að þessi lög kveða svo á að ríkisstj. verði að samþykkja þetta allt saman. Ríkisstj. ber ábyrgð á þessari hrikalegu verðbólgu, og þessi verðbólga er nú þegar búin að hirða aftur þessa litlu upphæð sem um var samið 26. mars. Það er alveg öruggt mál að hver eyri er farinn af því sem þá bættist við launin. Ég sé ekki betur en hæstv. ríkisstj. sé að stefna öllum málefnum vinnumarkaðarins í algert óefni með stefnu sinni í þeim málum. Þar er ekki aðeins um að ræða þá feiknalegu kjaraskerðingu sem ég minntist á áðan og hef oft áður rakið hér á þingi, kauplækkun sem á að nema svo sem eins og fjórðungi að mati ríkisstj. sjálfrar. — Hún talar um að koma kaupmætti launa niður á sama stig og hann var 1971–1972. Við þetta bætist að hæstv. ríkisstj. hefur nú horft á það aðgerðalaus í meira en mánuð að stóru togararnir hafa verið að stöðvast einn af öðrum, 22 mikilvirkustu veiðitæki íslendinga. Það eru 500–600 sjómenn í landi sem hafa unnið að gjaldeyrisframleiðslu á þessum togurum. Það er búið að hrekja beint úr störfum um 1500 manns sem höfðu atvinnu af því að vinna úr þessum afla, og áhrifin birtast að sjálfsögðu á óbeinan hátt gagnvart miklu fleiri aðilum. Af þessum sökum er að koma upp mjög alvarlegur atvinnuskortur á Íslandi. Það fjölgar á atvinnuleysingjaskrá um hundruð manna á hverjum degi.

Óróann á vinnumarkaðinum má einnig marka af því að það standa nú yfir erfiðar samningaviðræður, eftir því sem ég heyrði í hádegisútvarpinu, a. m. k. við aðila sem vinna á flugvélunum, og það kom til stöðvunar á flugflota íslendinga á miðnætti s. l. nótt. Eru taldar verulegar horfur á því að það kunni að koma til stöðvunar hjá þremur mjög mikilvægum ríkisverksmiðjum, Áburðarverksmiðjunni, Sementsverksmiðjunni og Kísiliðjunni, vegna þessarar stefnu ríkisstj. í kjaramálum. Það er haldið þannig á þessum málum að ég tel ástæðu til þess að spyrja hæstv. ríkisstj. hvort það sé verið að stuðla að því vitandi vits að koma hér á atvinnuskorti á næstu vikum. Verkalýðshreyfingin þarf að gera nýja samninga fyrir 1. júní og hefur hug á því að gera þá varanlega samninga. Mér er spurn: Stefnir ríkisstj. að því vitandi vits að hafa þá komið á alvarlegu atvinnuleysi á Íslandi svo að unnið verði að þeim samningum undir því alvarlega fargi? Þetta er aðferð sem er gamalkunn í mörgum löndum, einnig hér á Íslandi, þetta „hæfilega atvinnuleysi“ sem á að fá fólk til þess að falla frá eðlilegum kröfum um lífskjör sem eru í samræmi við getu þjóðarbúsins. Mér finnst full ástæða til þess að spyrja hæstv. forsrh. um þetta, hvort það sé vitandi vits verið að kalla alvarlegt atvinnuleysi yfir íslendinga á næstu vikum.

Ég vil minna á það að fyrir utan þau atriði sem ég hef rakið hér að framan, þá gerist það einmitt þessar vikur að þúsundir launafólks koma á vinnumarkaðinn og þurfa á því að halda að öll framleiðslutæki okkar séu hagnýtt til hins ítrasta. Ég lít svo á að hér sé um ákaflega alvarlegt vandamál að ræða. Ef ríkisstj. ætlar sér að halda á málum í þeim samningum, sem nú eru fram undan, á sama hátt og hún hefur gert frá því að hún tók við völdum, þá er hún að stefna að mjög hættulegum og alvarlegum stéttaátökum á Íslandi.

Það hefur verið reynt áður að fara í slík átök við verkalýðshreyfinguna. Við þekkjum ákaflega mörg slík dæmi frá síðustu áratugum. En þau dæmi hafa öll sannað að það er ekki hægt að brjóta verkalýðshreyfinguna á bak aftur með slíkum aðferðum. Þetta var reynt á mjög skipulegan hátt í upphafi viðreisnarstjórnarinnar, eins og menn muna, og þá tókst að koma fram alvarlegri kjaraskerðingu. Þá var það heilagt boðorð hjá hæstv. ríkisstj. að það mætti ekki vera um neina kaupgjaldsvísitölu að ræða. Til hvers leiddi þetta? Þetta leiddi til þessa að verkalýðsfélögin háðu verkfallsbaráttu og gerðu samninga allt að því þrisvar sinnum á ári, eins og gerðist á árinu 1963 ef ég man rétt, — þrisvar sinnum á ári. Og ég þarf ekki að lýsa því hversu kostnaðarsöm átök af þessu tagi eru fyrir þjóðarbúið. Þau eru kostnaðarsöm fyrir það fólk sem verður að standa í verkföllum og þau eru kostnaðarsöm fyrir þjóðarbúið líka. Í sambandi við þær ytri aðstæður, sem menn eru að lýsa að séu okkur óhagkvæmar og vissulega eru það, þurfum við á öllu öðru að halda en vinnubrögðum af þessu tagi, en ég sé ekki betur en að ríkisstj. sé með stefnu sinni að stuðla einmitt að slíkum átökum og það er mikið alvörumál. Mér finnst að fastheldni hæstv. ríkisstj. við þessar tvær fyrstu greinar, sem hún veit að Alþýðusamband Íslands lítur mjög alvarlegum augum, sé vísvitandi ögrun og ekkert annað.

Í þessu frv. hefur verið bætt við ákaflega flóknu kerfi um það hvernig á að standa að greiðslum til bænda, svokölluðum launajöfnunarbótum til bænda. Það er nú sannast að segja flóknara kerfi en svo að ég fái séð í gegnum það, og ég efast um að nokkur geti gert það á þessari stundu. En hitt er ég alveg sannfærður um, að þarna er verið að búa til kerfi sem er bæði tóm endileysa, leiðir til ótrúlegrar skriffinnsku og þar að auki leiðir til þess að menn, sem ekki eiga neinn rétt á bótum, munu fá þær í mjög ríkum mæli.

Það var reynt af hæstv. forsrh. að leggja á það áherslu að hækkunin á greiðslum tryggingabóta á ellilífeyri og örorkulífeyri væri ákaflega myndarlegt framlag, alla vega í þessu frv. Því fer mjög fjarri að svo sé. Staðreyndin er sú að það hefur verið níðst freklegar á þessu fólki, öldruðu fólki og öryrkjum, en nokkrum öðrum þjóðfélagshópum á Íslandi og það er áfram gert með þeim upphæðum sem gerðar eru tillögur um í þessu frv.

Ég vil minna á það að þegar hinar svokölluðu launajöfnunarbætur voru settar í brbl., fjölluðu þær um það að hver einstaklingur undir vissu tekjumarki ætti að fá 3 500 kr. Það var viðurkennt af stjórnarvöldum að þetta væri miklu minni hækkun en jafngilti verðlagshækkunum, en þetta átti að vera aðstoð sem kæmi jafnt til allra og hlutfallslega rétti þá mest hlut þeirra sem höfðu litlar tekjur fyrir og voru vanir að búa við rýran kost. En þarna var fólk undanskilið. Það var aldrað fólk og öryrkjar. Það fékk ekki 3 500 kr. Það fékk, ef ég man rétt, 1886 kr. Það var ekki nema hálfdrættingar. Þetta fólk var tekið sérstaklega út úr, aldrað fólk og öryrkjar, og því var skammtað svo sem eins og helmingur af því sem annað fólk fékk. Og þessi stefna heldur áfram. Það var samið um það 26. mars að greiðslan 4 900 kr. kæmi til alls verkafólks undir vissu tekjustigi. En hæstv. ríkisstj. ætlast ekki til þess að aldrað fólk og öryrkjar fái þessa hækkun. Það á að koma prósenta, 9%, sem þýðir það að þetta fólk fær ekki nema tæpan helming af þessari upphæð. Og ég vil hreinlega spyrja um það: Finnst mönnum að staða þjóðarbúsins á Íslandi sé sú þrátt fyrir alla erfiðleika að við þurfum að leysa vandamál okkar með því að ganga á hlut þeirra sem búa við skörðust kjör í þjóðfélaginu? Finnst mönnum að við getum leyst þessi vandamál með því að ganga á tekjur aldraðs fólks og öryrkja? — Það er kannske ástæða til þess að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. alveg sérstaklega um þetta. Hvað telur hann að aldrað fólk og öryrkjar, sem að undanförnu hefur haft rúmar 20 þús. kr. í mánaðarlaun, hvað telur hann að það eigi að spara? Hvar getur það sparað við sig til þess að bjarga þjóðarheildinni, þetta fólk sem hefur á einu ári ámóta tekjur og þessi ráðh. hefur á einum mánuði? Ég lít svo á að þessi meðferð á öldruðu fólki og öryrkjum sé okkur til algerrar vansæmdar.

Ég kynnti mér nú fyrir nokkrum dögum hvernig að þessum málum hefur verið staðið í Danmörku. Menn vita að danir hafa átt við mjög mikla efnahagsörðugleika að etja, miklu, miklu flóknari og margbreytilegri efnahagsörðugleika en við Íslendingar, miklu stærri ytri áföll. Hafa danir leyst þetta með því að skerða kjör aldraðs fólks og öryrkja? Þeir hafa ekki gert það. Þar er enn í lögum ákvæði um að greiðslur til aldraðs fólks og öryrkja breytist samkv. framfærsluvísitölu. Þetta er skoðað tvisvar á ári, en þetta fer eftir framfærsluvísitölu og á að tryggja að þetta fólk haldi óskertum tekjum að því er raungildi snertir. Fullur almennur lífeyrir í Danmörku, sem allir eiga rétt á fyrir utan tekjutryggingu, er nú 32 200 ísl. kr. Það eru lágmarksgreiðslurnar sem allir fá. Það er meira en tvöfalt hærri upphæð en skammta á íslensku fólki, öldruðu fólki og öryrkjum, samkv. þessu frv. Finnst mönnum þetta sæmandi?

Það var lengi blettur á þjóðfélagi okkar hvernig búið var að þessu fólki. Ég tel að það hafi verið Alþ. til mikils sóma þegar úr þessu var bætt á árinu 1971 og Alþ. stóð þá einróma að því að gera þær lagabreyt. sem vinstri stjórnin beitti sér fyrir að gerðar yrðu. Þá varð stökkbreyting á afkomu þessa fólks sem betur fór. En það er búið að taka aftur alla þessa kjarabót. Það get ég reiknað út. Ég skal ekki fara að koma með neinar flóknar tölur hér, en það er mjög auðvelt að sýna fram á að það er búið að taka aftur alla þessa kjarabót og það er aftur verið að festa þennan sama smánarblett á okkur íslendinga.

Í Danmörku er lífeyrir og tekjutrygging fyrir einstakling 39100 kr. íslenskar, lífeyrir og tekjutrygging fyrir hjón er 63 300 kr. íslenskar og þar er tekið tillit til frekari aðstöðu manna. T. a. m. er sú regla í Danmörku að ef annar makinn, þ. e. ef karlmaðurinn er orðinn 67 ára og á rétt á ellilífeyri, en konan er yngri, milli 62 og 67 ára og vinnur ekki úti, hefur ekki neinar umtalsverðar tekjur, — þannig getur verið ástatt um margar konur sem hafa komið upp stórum barnahópi og ekki unnið úti á hinum almenna vinnumarkaði, þær eru búnar að koma börnunum upp, þær geta ekki farið að vinna úti á almennum markaði þegar þær eru orðnar sextugar, — þetta fólk fær sömu greiðslur og hjón sem bæði ern orðin 67 ára. Við erum þarna að verða algerir eftirbátar og mér finnst það vera mjög hörmulegt hlutskipti fyrir hæstv. heilbr.- og trmrh. að halda svona á málstað þessa fólks. Þetta er ekki aðeins sá þjóðfélagshópur sem býr við erfiðust kjör í þjóðfélaginu. Þetta er sá þjóðfélagshópur sem hefur ákaflega lítið vald til þess að reyna að hafa áhrif á stjórnarvöld. Þetta fólk hefur ekki verkalýðsfélög. Það getur ekki gert verkföll. Það á allt sitt undir því að það eigi skilning okkar alþm. og sérstaklega að sá ráðh., sem fer með málefni þess, beiti sér í þágu þessa fólks og tryggi að það sé ekki afskipt á óeðlilegan hátt eins og gerst hefur alveg tvímælalaust nú að undanförnu og það mjög alvarlega.

Ég mun í þeirri nefnd, sem fær málið til umræðu, flytja brtt. um þessi atriði, till. um það hvernig ég tel að haga eigi þessum bótum. Ég tel að aldrað fólk og öryrkjar eigi rétt á því að fá sömu láglaunabætur og annað fólk, og ég tel að við eigum að sjá sóma okkar í því að aldrað fólk og öryrkjar með tekjutryggingu fái að halda óbreyttum kaupmætti frá því sem var í fyrra. Það var ekkert afskaplega hár kaupmáttur þó að hann væri að vísu miklu betri en hann var áður, en hann var sannarlega ekki það mikill að við eigum að skerða hann á jafnsiðlausan hátt og gert hefur verið nú að undanförnu.

En um þessi atriði er fjallað í 6. og 7. gr. frv. og ég mun flytja brtt., eins og ég hef áður getið, og mun ekki ræða þær frekar hér við þessa umræðu.

Inn í frv. hefur á seinustu stundu verið bætt nýrri grein, 11. gr. frv., um starfsemi fjárfestingarlánasjóða, þar sem gert er ráð fyrir stóraukinni verðtryggingu á öllum fjárhagsskuldbindingum sem þeim eru tengdar. Þetta er mál sem hefur ákaflega margar hliðar og ég held að menn eigi að fara sér hægt í því að koma þarna á einhverju steinrunnu kerfi. Finnar gerðu þetta í lok síðustu heimsstyrjaldar, þeir fóru inn á þá leið að verðtryggja allar hugsanlegar fjármunalegar skuldbindingar. En reynsla þeirra af því kerfi var sú að það leiddi til stöðnunar, til samdráttar, til atvinnuleysis, og ég held að menn, sem hafa reynslu og þekkingu á þessum málum, ættu að íhuga vel hvort við erum ekki þarna að fara inn á braut sem kann að reynast hættuleg. Ég held að samdráttareinkennin í þjóðfélagi okkar séu það mikil og alvarleg núna að við eigum ekki að leika okkur að því að gera frekari ráðstafanir til þess að atvinnuvegir okkar og athafnir í landinu dragist saman.

Ég mun, eins og ég sagði í upphafi máls míns, gera frekari grein fyrir þessum sjónarmiðum mínum eftir að málið hefur verið til umræðu í nefnd. En á það vil ég leggja áherslu að nefndin fái eðlilegan tíma til starfa og geti haft tök á því að fá þá vitneskju sem hún hefur áhuga á að fá í þessu sambandi.