10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3819 í B-deild Alþingistíðinda. (2987)

11. mál, launajöfnunarbætur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Sú meðferð, sem það mál, sem hér er nú til umræðu, hefur fengið, er enn eitt dæmið um þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið hér á Alþ. og sýnir reyndar glöggt að stjórnviska núv. hæstv. ríkisstj., hvorki í sambandi við vinnubrögð þings né almennt talað, er ekki, að því er mér finnst, upp á marga fiska. Þetta mál er 11. mál sem lagt er hér fram á Alþ., og það er fyrst núna, þegar nokkrir dagar eru til þingloka, að málið kemur til meðferðar í þessari hv. d. og þá orðið svo umbreytt að varla er eftir tangur né tetur af hinu upprunalega frv. eins og það var, nema að því er varðar kannske það ólíklegasta sem síst hefði átt að vera eftir, þ. e. a. s. 1. gr. frv. eins og hún er nú og eins og hún var. Það verður að teljast vægast sagt undarlegt af hæstv. ríkisstj. að koma með málið eins og það nú er hér til umræðu, þ. e. a. s. 1. gr., eins og var vikið að áðan af hv. 3. þm. Reykv., að eftir að búið er að gera bráðabirgðasamkomulag — að vísu milli aðila vinnumarkaðarins — um enn þá auknar launajöfnunarbætur, þá á að afgreiða hér frá Alþ. lög sem eru á allt annan veg en búið er að semja um milli launþegasamtakanna og atvinnurekenda. Mér a. m. k. finnst að það sé full þörf á því fyrir þá hv. n. sem málið fær til meðferðar að það verði gætt meira samræmis í því sem raunverulega hefur gerst frá því að málið var lagt hér fram á Alþ. á s. l. hausti, og að a. m. k. verði eitthvað í takt við tímann þau ákvæði frv. sem kannske koma til með að skipta meginmáli.

Þetta frv., eins og það nú er, snýr fyrst og fremst að mínu áliti að þeim þjóðfélagsþegnum sem hvað verst eru settir, — verst settir, segi ég, vegna þeirrar stjórnarstefnu í efnahags- og launamálum sem uppi hefur verið höfð af núv. hæstv. ríkisstj. Hér er fyrst og fremst um að ræða með hverjum hætti gera á tilraun til þess að leiðrétta þá gífurlegu kjaraskerðingu sem þessir hópar, þ. e. a. s. elli- og örorkulífeyrisþegar, hafa orðið fyrir í valdatið núv. ríkisstj. Ég er þeirrar skoðunar að meðferðin á þessum þjóðfélagsþegnum hafi lengst af verið fyrir neðan allar hellur hjá löggjafarsamkomunni og að þó að vissulega hafi fengist þar leiðrétting á og það veruleg leiðrétting á árinu 1971. Eitt af fyrstu verkum þáv. ríkisstj. var einmitt að gera þá breytingu til hagsbóta fyrir þetta fólk sem sennilega mun lengi vera í minnum höfð og núv. forustuflokkur í ríkisstj., Sjálfstfl., kallaði veisluhöld af hálfu þáv. ríkisstj. Ég held að menn mæli ekki á móti því að sú breyt., sem gerð var til handa þessum þjóðfélagsþegnum á árinu 1971, er hvað stærsta skrefið sem stigið hefur verið til þess að reyna að rétta hlut þessa fólks.

Það er enginn vafi á því að sú þróun, sem átt hefur sér stað í verðlags- og launamálum, hefur farið hvað verst með þetta fólk. Það hefur orðið harðast úti og eru allar líkur á því að tiltölulega lítilla leiðréttinga sé að vænta af hálfu hæstv. ríkisstj. varðandi þau ósköp sem yfir þetta fólk hefur dunið í verðhækkunarflóði á undanförnum mánuðum.

Mér finnst óskiljanlegt, ef t. d. hæstv. ráðh. eða öðrum þm. kemur til hugar að þetta fólk geti lifað af þeim bótum almannatrygginga, hvort sem talað er um elli- eða örorkulífeyri, sem það hefur orðið að gera á undanförnum vikum og mánuðum. Hitt skal viðurkennt, að sú breyting, sem orðið hefur á þessu frv. eða réttara sagt viðhorfum stjórnarliða til þessa fólks, er jákvæð, en þó að mínu áliti mjög lítið skref til þess að brúa það geysilega bil sem orðið hefur frá því sem var, þegar breytingin var gerð í tíð fyrrv. ríkisstj., og til þess sem nú hefur átt sér stað frá valdatöku hæstv. núv. ríkisstj.

Þetta frv. var fyrst og fremst flutt til staðfestingar á brbl. um launajöfnunarbætur, en, eins og ég hef áður vikið að, er það nú orðið fyrst og fremst frv. um breyt. á greiðslu almannatrygginga til elli- og örorkulífeyrisþega. Enginn mælir því mót að sú geigvænlega lífskjaraskerðing, sem orðið hefur, hefur vissulega víða komið við, en hún hefur komið hvað harðast við þessa einstaklinga. Það er talið að framfærslukostnaður hafi frá 1. apríl 1974 til 1. mars 1975 hækkað um 46% á einu ári. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að þessir þegnar, sem njóta bóta almannatrygginga, komi til með að fá hækkun samkv. till. núv. stjórnarliða sem nemur um 13.3% í hækkun á móti þeim 46% sem framfærsla hefur hækkað á sama tímabili. Það hlýtur vissulega að leiða huga hv. þm. að því hvort það sé í reynd frambærilegt að bjóða þessum þjóðfélagsþegnum slíkt þegar það er fyrir fram séð að það er gjörsamlega útilokað fyrir þetta fólk að draga fram lífið á þessum tekjum.

Ég hef nú talað almennt um afkomu elli- og örorkulífeyrisþega. Hún er vægast sagt bágborin miðað við þau kjör, sem þeim hafa verið búin, og þau kjör sem virðist eiga að búa þeim í áframhaldi, verði að þessu staðið eins og nú er gert ráð fyrir. Ég skil ekki hvernig í ósköpunum hv. þm. getur t. d. dottið í hug að ætla að bjóða þetta þeim elli- og örorkulífeyrisþegum víðs vegar í kringum landið sem búa við þau skilyrði að hita sín híbýli með t. d. olíukyndingu. Langsamlega mestur hluti allrar hótaupphæðarinnar fer í það eingöngu að borga kyndingarkostnað á þessum híbýlum. Það er því æðilítið orðið eftir til annarra nauðsynjaþarfa þegar þetta fólk er búið að standa skil á þeim greiðslum sem það verður að gera þegar búið er að taka tillit til þess gífurlega kostnaðar sem þetta fólk eins og aðrir, hefur orðið að taka á sig vegna olíukreppunnar og þeirrar hækkunar sem orðið hefur á olíuverði. Ég trúi því vart að það fáist ekki tekið tillit til þessara sjónarmiða þegar það liggur fyrir sem staðreynd að stór hluti elli- og örorkulífeyrisþega fer með lífeyri sinn einungis til þess að greiða hitunarkostnað íbúða. Það er orðin mikil breyting bara á þeim kostnaðarlið á tiltölulega skömmum tíma, og ég tel að Alþ. sé ekki sæmandi að skjóta sér undan þeirri ábyrgð að horfast í augu við þessa staðreynd og gera viðhlítandi ráðstafanir til þess að þessu fólki verði léttar þær byrðar sem á það hafa verið lagðar með þessum hækkuðu olíuálögum. Það má auðvitað segja að hv. stjórnarliðar hafi sýnt hug sinn til þessa fólks við afgreiðslu máls hér ekki alls fyrir löngu í sambandi við greiðslu olíustyrksins svokallaða þegar þeir létu sig hafa það að fella till. þess efnis, að þessir verst settu þjóðfélagsþegnar fengju sem næmi tvöföldum styrk einstaklings varðandi olíugreiðslustyrkinn. Þá kom skýrt fram hugur hv. stjórnarliða til þessa fólks sem við erum nú fyrst og fremst að ræða um.

Ég vil eindregið beina þeim tilmælum til þeirrar hv. nefndar, sem málið fær til meðferðar, fjh.- og viðskn., að hún skoði það rækilega hvort ekki sé réttlætanlegt, ef ekki fæst hækkun, almenn hækkun til handa þessu fólki, að athuga sérstaklega um hækkun til þess fólks sem ég hef hér verið um að tala og sannarlega og staðreyndir sýna fram á að verður að fara með langsamlega mestan hluta síns elli- eða örorkulífeyris bara til þess að kynda íbúðarhúsnæðið. Mér finnst a. m. k. — vel má vera að ég sé einn um þá skoðun, en það verður þá að hafa það, — mér finnst a. m. k. að það sé réttlætanlegt að taka tillit til slíkra staðreynda og sjónarmiða eina og menn almennt ættu svo sannarlega að vera búnir að fá áþreifanlega varðandi þessi mál.

Ég sagði áðan, því skal ekki neitað, að það er vissulega breyting, jákvæð breyting, sem gerð hefur verið till. um af meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed., — breyt., sem ég tel eigi að síður langt frá því að vera til þess nægjanleg að hægt sé, a. m. k. fyrir mig, að standa að samþykkt frv. eins og það nú er. Ég held að það verði að gera þá lágmarkskröfu til meiri hl. hér á Alþ. að hann sjái svo um að þessir þjóðfélagsþegnar, sem engan hafa annan til þess að gæta sinna hagsmuna heldur en Alþ., — að hann sjái svo um að þeir einstaklingar, sem hér eiga hlut að máli, fái þá hækkun sem orðið hefur á framfærslukostnaði á þessu tímabili. Mér a. m. k. finnst það lágmarkskrafa sem hægt er að gera til stjórnvalda og Alþ. að það sjái sóma sinn í því að veita þessum verst settu, langverst settu þjóðfélagsþegnum þessa leiðréttingu sinna mála með því að þeir fái alla þá hækkun sem orðið hefur á framfærslukostnaði. Vel má vera að mönnum þyki sumum hverjum hér frómt talað og betra um að tala en í að komast. En ég er þó þeirrar skoðunar að þó að þessi mál væru afgreidd með þessum hætti, þá geti það ekki verið nein röksemd að hækkun til elli- og örorkulífeyrisþega, t. d. öll hækkun sem samið var um, 4 900 kr. á mánuði, sem láglaunauppbót, — að sú hækkun, þó að hún væri veitt til þessara einstaklinga, gæti sligað þjóðfélagið þann veg að það væri útilokað fyrir ríkisvaldið að standa að slíkri hækkun.

Mér finnst að það verði að taka tillit til þeirrar staðreyndar sem við höfum fyrir augum að það er gjörsamlega vonlaust að ætlast til þess að þessu fólki, ef það á annað borð á að lifa mannsæmandi lífi, sé ætlað að draga fram lífið af þeirri skömmtun sem mér virðist hér vera gerð tillaga um. Mér finnst því ástæða til að beina þeim eindregnu tilmælum til hv. fjh.- og viðskn. að hún a. m. k. geri til þess tilraun að fá breytingar á frv., eins og það er nú, í þá átt að virt verði þau sjónarmið að þessir þjóðfélagsþegnar, sem eru vissulega tilheyrandi láglaunafólki, fái sömu hækkun og samið var um varðandi láglannabæturnar í því bráðabirgðasamkomulagi sem gert var fyrir stuttu.

Ég skal ekki hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég vildi strax við 1. umr. koma þessu á framfæri. Við eigum ekki fulltrúa í þeirri nefnd sem málið fær til meðferðar, og ég vildi þess vegna strax við 1. umr. málsins hreyfa þeim aths. sem ég hef hér gert að umræðuefni og vænti þess að nefndin skoði þær gaumgæfilega.