10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3825 í B-deild Alþingistíðinda. (2990)

11. mál, launajöfnunarbætur

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Það eru nokkur orð í tilefni af því sem hv. síðasti ræðumaður, Guðmundur H. Garðarsson, kom inn á, vegna ummæla hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar um að 1. gr. þessa frv. sérstaklega væri ögrun við verkalýðshreyfinguna. Þessu vildi hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson mótmæla mjög eindregið. Guðmundur H. Garðarsson á sæti í miðstjórn Alþýðusambands Íslands og þar voru þessi mál á sínum tíma rædd mjög ítarlega og miðstjórnin samþykkti mjög harðorð og eindregin mótmæli gegn þessari lagasetningu — þessum brbl. Hins vegar áttu fulltrúar frá Alþýðusambandinu viðræður við ríkisstj. um framkvæmd þessara mála. En þetta voru engin samningamál, það er allt annað. Guðmundur H. Garðarsson mun raunar ekki hafa greitt atkv. þessari ályktun miðstjórnarinnar og var held ég einn á báti um það, hefur sjálfsagt haft í huga hvað hann ætti eftir að gera hér í sölum Alþ. En ég efast ekki um að Guðmundur H. Garðarsson er, eins og aðrir sem í forustu verkalýðshreyfingarinnar eru, algjörlega andvígur því að með lagasetningu, hvort sem það eru brbl. eða lög sett hér á hv. Alþ., séu löglega gerðir samningar verkalýðshreyfingarinnar að engu gerðir. Það er nákvæmlega það, sem gert er með þessum lögum. Með lögunum er numið úr gildi það ákvæði samninga að greiða skuli verðlagsbætur á kaup.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér þær aðstæður, sem voru þegar þessi lög voru sett, en auðvitað hlýtur verkalýðshreyfingin að mótmæla slíku og það gerði hún. Hvers vegna á nú að vera að lögfesta þessi ákvæði þegar aðeins örstuttur tími er eftir af gildistíma brbl. og þeim samningum sem gerðir voru nú fyrir stuttu?

Hvað verkalýðsfélögin og launafólkið áhrærir, þá er það fullkomlega rétt sem hv. 3. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, sagði í upphafi síns máls að öll launaákvæði, sem felast í 1. gr. laganna, eru þegar samningsbundin hjá verkalýðsfélögunum. Allar þessar tölur eru innifaldar í því kaupi sem gildir í dag, og samningarnir eru að sjálfsögðu í gildi hvort sem þetta verður staðfest með lögum hér eða ekki. En það, sem verið er að gera með þessu og er ögrun við verkalýðshreyfinguna, það er að framlengja þessi ákvæði um óákveðinn tíma eða þar til öðruvísi verður um samið af heildarsamtökum aðila vinnumarkaðarins, þ. e. a. s. það geta sennilega ekki aðrir um þetta samið — það er sú venjulega skýring en Alþýðusambandið, heildarsamtökin, og svo samtök atvinnurekenda hins vegar.

Nú vitum við að samkvæmt íslenskum lögum, vinnulöggjöfinni, er samningsrétturinn hjá hverju einstöku félagi. Félag það, sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson er formaður fyrir, getur ekki samkv. þessu, þótt það sé stórt og öflugt félag, eitt út af fyrir sig samið um að verðlagsbætur skuli greiðast á laun verslunar- og skrifstofufólks, og ekkert annað félag getur það ef 1. gr., eins og hún er nú, verður lögfest. Það er sem sagt verið að takmarka rétt verkalýðsfélaganna til samninga enn frekar en var í upphaflegu brbl.

Ég ætla ekki að gera þessi mál frekar að umræðuefni, en lýsi mig algjörlega andvígan því að 1. og 2. gr. verði samþykktar. Þær eru algjörlega óþarfar, hafa enga praktíska þýðingu, og ég vil undirstrika það sem hér hefur verið sagt af andmælendum frv. um innihald þess og skal ekki rekja það frekar.