10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3826 í B-deild Alþingistíðinda. (2991)

11. mál, launajöfnunarbætur

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka fram vegna þeirrar gagnrýni, sem fram hefur komið um meðferð þessa máls, að hún hefur verið með eðlilegum hætti. Í brbl. sem gefin voru út 24. sept. s. l. og frv. þetta fjallar um að staðfesta, var gert ráð fyrir því að launajöfnunarbæturnar yrðu endurskoðaðar ef framfærsluvísitalan færi fram yfir 358 stig. Það var ákveðið, þegar frv. til staðfestingar brbl. var lagt fyrir þing, að bíða með afgreiðslu þess í fyrri d. þar til séð yrði hver þróun framfærsluvísitölunnar yrði. Þegar ljóst var að hún færi yfir 358 stig og til slíkrar endurskoðunar launajöfnunarbóta kæmi, þá undirbjó ríkisstj. till. til efnda á þessu loforði og hafði þær till. tilbúnar. En forsvarsmenn launafólks og atvinnurekenda, aðila vinnumarkaðarins, fóru fram á að þær till. yrðu ekki lagðar fram, heldur yrði þess freistað að endurskoðunin færi fram með frjálsum samningum aðila á milli. Þessir samningar tókust með bráðabirgðasamkomulaginu og því beið ríkisstj. með meðferð málsins þar til séð var fyrir endann á þessu bráðabirgðasamkomulagi. Ég vil geta þessa til skýringar á því hvers vegna frv. hefur verið látið bíða og kemur ekki fyrr fram í seinni deild en nú.

En annar þáttur brbl. frá því í haust og staðfestingarfrv. þar af leiðandi var ákvörðun á tryggingabótum. Um leið og endurskoða þurfti launajöfnunarbæturnar var sjálfsagt að endurskoða tryggingarbæturnar. Þótt deila megi um og það sé matsatriði hvort endurskoðun tryggingarbótanna hefði átt að vera í efnahagsmálafrv. ríkisstj. eða í þessu frv., þótti eðlilegt að hafa endurskoðun tryggingarbótanna í sama frv. og þær voru upprunalega ákveðnar með samræmi við fyrstu launajöfnunarbætur. Við vildum gjarnan vanda sem best gerð þeirra brtt. og kanna með hvaða hætti unnt væri að endurskoða tryggingarákvæðin sem mest í vil lífeyrisþegum. Í þessum efnum hefur engin töf átt sér stað sem ekki er hægt að skýra. Meðferð málsins ber ekki vitni stjórnleysis, eins og hv. þm., 9. þm. Reykv. sagði, heldur miklu fremur að það var rökrétt meðferð málsins sem var í fyrirrúmi og réð gangi þess.

Ég vil mótmæla því, að 1. og 2. gr. frv. séu ögrun eða móðgun við launþegasamtökin, og ítreka þau orð, sem hv. 6. landsk. þm. viðhafði, og vitna máli mínu til sönnunar til orða hv. 7. þm. Reykv. áðan þar sem hann sagði að vísu að þessi ákvæði hefðu enga praktíska þýðingu. Látum það liggja á milli hluta. En ákvæðin geta varla verið ögrun eða móðgun hvað þá launþegasamtökin tekið þau nærri sér ef ákvæðin hafa enga praktíska þýðingu. En ástæðan til þess, að þessi ákvæði eru í lögunum, er sú m. a. að bráðabirgðasamkomulagið, sem gert var og fól í sér að einnig var tekið tillit til launajöfnunarbótanna samkv. þessum lögum, nær ekki til allra starfshópa eða kaups og kjara allra starfshópa og því er eðlilegt að þessi launajöfnunarákvæði séu staðfest þótt skammur tíma sé þar til þau falli úr gildi.

Um það atriði að þau séu þrengjandi frá því sem var í upprunalegum lögum, eins og hv. 7. þm. Reykv. hélt fram, vildi ég aðeins segja það, að ég hefði haldið, að við værum flestir þm. sammála um nauðsyn einhvers konar tengsla milli launaupphæðar og framfærslukostnaðar, um leið og við höfum mörg hver, að ég segi ekki flest, haft á orði að nauðsynlegt væri að endurskoða fyrr gildandi fyrirkomulag í þessum efnum. Ég held að það sé engin móðgun gagnvart launþegum að fela það á vald heildarsamtaka þeirra að hafa forustu í þeim efnum og samræma afstöðu launþegasamtakanna á svo mikilvægu sviði sem tengsl kaups og verðlags eru.

Varðandi almennar umr., sem hér hafa farið fram um kaupskerðingu og verðhækkanir, vil ég aðeins segja, að það er út af fyrir sig alveg rétt að kaupmáttur launa hefur skerst frá því sem hann var mestur. En á þeim tíma sem hann var mestur var um falskan kaupmátt að ræða sem flestir gerðu sér grein fyrir að gat ekki staðist til lengdar. Þegar við horfum fram á það að þjóðartekjur fara minnkandi, þá verður að draga úr þjóðareyðslu. Úr eyðslu þjóðarinnar í heild verður hins vegar ekki dregið þegar slík áföll eiga sér stað, nema það komi niður almennt á landsmönnum. Þá hefur það verið markmið ríkisstj. að vernda hag hinna lægst launuðu eina og verða má, en jafnvel þeir verða, miðað við það þegar kaupmáttur tekna þeirra var hæstur — og ég endurtek: þá var hann óraunhæfur, að sæta nokkurri skerðingu frá því sem þá var. (Gripið fram í.) Ég kem að ellilífeyris- og örorkulífeyrisþegum síðar.

Ég ætla mér ekki að svara í raun og vera jafnfjarstæðukenndri fyrirspurn og þeirri hvort ríkisstj. sé vitandi vits að kalla yfir íslendinga atvinnuleysi. Það hefur verið mörkuð stefna ríkisstj. að fyrst og fremst sé tryggð full atvinna, og sem betur fer hefur ríkisstj. hingað til tekist að tryggja fulla atvinnu í landinu. Það verkfall, sem á hefur skollið á stóru skuttogurunum, leiðir auðvitað til atvinnuleysis í þeim stéttum sem vinna úr hráefnum sem þessir togarar bera að landi. En ég legg áherslu á að um leið og dregið er úr þjóðareyðslunni í heild, koma auðvitað upp mikil vandamál í tekjuskiptingu innan þjóðfélagsins sjálfs, og skiptir ákaflega miklu máli að allar þjóðfélagsstéttir sýni þá þolinmæði sem þarf til að leysa þann hagsmunaágreining sín á milli í friði meðan framleiðslutækin eru í fullum gangi, fremur en að stofna öllu í voða með því að stöðva framleiðslutækin og draga úr verðmætasköpuninni og gera þannig þjóðarbúið miður fært um að halda uppi þeim bestu lífskjörum sem unnt er miðað við viðskiptakjör þjóðarinnar út á við. Ég hefði haldið að það væri skylda hv. alþm. að skírskota til þjóðarinnar og allra atvinnustétta að halda frið sín á milli og leysa hagsmunaárekstra og tekjuskiptingarvandamál með rökræðum, með samningaumleitunum, fremur en að örva menn til átaka og verkfalla eins og því miður mér fannst gæta í þeim orðum sem ýmsir hv. þm. létu frá sér fara áðan.

Varðandi þau ákvæði frv., er snerta launajöfnunarbætur til bænda, er það að segja að þau eru í frv. komin til þess að tryggja það einmitt að launajöfnunarbætur gangi til þess hóps bænda sem hefur líka stöðu og láglaunafólk meðal launþega. Eins og ég gat um í framsögu minni hefur nefnd fjallað um reglugerð á þessu sviði. Þessi nefnd starfar undir forustu hagstofustjóra, Klemenz Tryggvasonar. Í henni á m. a. sæti formaður Stéttarsambands bænda. Ég er sannfærður um að þessir menn og þeir aðrir, sem undirbúið hafa þetta mál, hafa gert það samkvæmt bestu sannfæringu og í þeim anda sem löggjöfin ætlaðist til með ákvæðum þessara laga.

Ég vil þá með nokkrum orðum víkja að elli- og örorkulífeyrinum. Það er engum blöðum um það að fletta, að hækkun tekjutryggingar og tekjutryggingarmarks er ýmist mun hærri eða fyllilega á borð við það sem fyrirheit hafa verið gefin um. Þegar hins vegar er um það talað að grunnlífeyririnn hækki ekki nema hlutfallslega það sama og meðalkauphækkun var talin nema og það er gagnrýnt, þá skulu menn hafa í huga að þennan grunnlífeyri fá allir ellilífeyris- og örorkulífeyrisþegar, hvaða tekjur sem þeir ella hafa, m. a. þeir sem eru í verðtryggðum lífeyrissjóði eða hafa tekjur af atvinnurekstri eða eignum og eru því engan veginn í sömu sporum og hinir sem litlar eða engar aðrar tekjur hafa en lífeyri. Þess vegna er eðlilegt að það sé fremur lögð áhersla á hækkun tekjutryggingar og tekjutryggingarmarks en grunnlífeyris. Hins vegar er fyllilega staðið við það fyrirheit stjórnarinnar að hækka grunnlífeyri um það sama og hækkun almennra tekna nam. Ef við litum á stöðu einstaklinga og hjóna er hún að vísu ólík. Hjón hafa samkv. tekjutryggingarmarki álíka háar tekjur og lægri Dagsbrúnarverkamenn. En hins vegar hefur einstaklingurinn mun lægri tekjur. Þetta er auðvitað sérstakt vandamál sem þarf að taka til meðferðar þegar endurskoðun þessara mála fer fram, m. a. í tengslum við endurskoðun á skattakerfinu. Í sambandi við áform um að samræma tryggingakerfið og skattakerfið þarf að skapa öllum þjóðfélagsborgurum lágmarkstekjur sem þeir geta örugglega dregið fram lífið á. Enn fremur er um sérstakt vandamál að ræða þar sem eru ellilífeyrisþegar sem hafa hærri tekjur en tekjutryggingarmarkið segir til um. Þar um hefur verið gerð skrá er sýnir hvernig þróunin er í þeim efnum. En tekjutryggingin skerðist ekki að fullu fyrr en heildartekjur eru orðnar 829 þús. kr. fyrir hjón og 476 þús. kr. fyrir einstakling. Það er á þessu tekjubili sem tengja þarf þetta kerfi við almennar tekjur í landinu og skattakerfið í heild sinni.

Það kemur úr hörðustu átt þegar hv. 3. þm. Reykv. fer að gagnrýna það að bótafjárhæðir hækki aðeins hlutfallslega, en ekki um sömu krónutölu og samið var um í bráðabirgðasamkomulaginu eða launajöfnunarbæturnar námu á sinni tíð. Sannleikurinn er sá að þetta er viðtekin venja og var einnig í hans tíð sem trmrh. Það má vel vera að þarna þurfi að breyta, og að vissu leyti er nokkur breyting gerð með þessu frv. því að tekjutrygging einstaklinga er hækkuð nokkru meira hlutfallslega heldur en bráðabirgðasamkomulagið segir til um.

Þá vitnaði hv. þm. til dæma, sem létu lífeyrisbæturnar hækka í hlutfalli við framfærsluvísitölu. Menn skyldu ætla að hann hefði sjálfur reynt að fylgja þessari reglu í sinni ráðherratíð. En þegar engin launahækkun varð 1. júní1974 og framfærsluvísitalan hækkaði úr 242 stigum í 289 stig voru bætur almannatrygginga óbreyttar. Ég er út af fyrir sig ekki að gagnrýna þetta, en vek athygli á því að hv. þm. gerir meiri kröfur til annarra en sjálfs sín. Ég held líka að það sé fyrir neðan virðingu þessa hv. þm. að jafna bótafjárhæðum í Danmörku við bótafjárhæðir hér án þess að tekið sé tillit til almenns framfærslukostnaðar þar og hér og aðstöðu allrar. Og vegna þess að hann nefndi ráðherralaun í tengslum við tryggingarbætur þá væri fróðlegt eftir þeim tölum, sem hann vitnaði til að hann reiknaði út hlutfallið á milli tryggingarbóta í Danmörku annars vegar og ráðherralauna þar og tryggingarbóta hér hins vegar og ráðherralauna hér. Ég held að þetta hlutfall sé ellilífeyrisþegum mun hagstæðara hér en í Danmörku. En þar með er ekki sagt að nóg sé að gert. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að hækka tekjutryggingarmarkið einkum og sér í lagi og tengja það með rökvísari hætti en nú er gert við aðrar tekjur lífeyrisþega, þannig að þær háu fjárhæðir, sem varið er á fjárlögum til lífeyrisbóta, nýtist þeim best sem þörfina hafa mesta fyrir þær.