10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3830 í B-deild Alþingistíðinda. (2992)

11. mál, launajöfnunarbætur

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. — Eins og ég gat um í ræðu minni áðan hef ég tækifæri til að fjalla um þetta mál í þeirri n., sem kemur til með að vinna að því, og tek væntanlega þátt í síðari umr. um það.

Ég vildi aðeins gera örfáar athugasemdir við það sem hæstv. forsrh. sagði í sambandi við bætur til aldraðs fólks og öryrkja. Hann sagði að ég hefði verið með tillögur um að þessar greiðslur yrðu greiddar öldruðu fólki og öryrkjum án tillits til tekna þeirra. Þetta er ekki rétt, ég var með till. um að aldrað fólk og öryrkjar fengju 3 500 kr. innan sömu marka og ákveðið var um almennt launafólk, fólk, sem byggi við nákvæmlega sömu kjör og almennt launafólk, fengi sömu upphæð, upphæð sem allir vissu að væri aðeins brot af þeim verðhækkunum sem yfir hafa dunið, Og sama máli gegnir um samningana, bráðabirgðasamkomulagið sem verkallýðsfélögin gerðu, það er líka langt undir því sem verðlagsþróunin hefur verið. Það var samið um að þessi greiðsla næði til fólks innan vissra tekjumarka, og það, sem ég hef verið að leggja til, er að þessi regla verði einnig látin ná til aldraðs fólks og öryrkja. Það er því ekki rétt að það hafi verið nein till. um að þetta yrði gert hverjar svo sem tekjur þessa fólks væru.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það hefur verið ríkjandi gömul hefð um það hvernig ætti að greiða til einstaklinga annars vegar og til hjóna hins vegar, og það er alveg rétt sem hann sagði að þessu var ekki heldur breytt í minni tíð. Ég hygg að ég hafi frekar legið undir ámæli fyrir að breyta of miklu í sambandi við tryggingalöggjöfina en of litlu. Mér er ljóst að þar er margt sem betur mætti fara eftir þau störf sem ég vann þar. En tónninn í málgagni hæstv. forsrh. var sá að ég væri þar að efna til veislu. En hitt er alveg ljóst, að þetta gamla kerfi, þessi gamla viðmiðun milli einstaklinga og hjóna, hún er gersamlega úrelt orðin og sérstaklega verður hún það í því ástandi sem við höfum nú lifað síðustu 10 mánuði eða svo. Við skulum gera okkur það alveg ljóst, þegar láglauna- eða jafnlaunabæturnar voru ákveðnar með lögum í fyrrahaust, þá var ekki ákveðið að heimili fengju 3 500 kr., heldur hver einstaklingur sem vinnur utan heimilis. Ef hjón unnu bæði utan heimilis fengu þau 7 000 kr. að sjálfsögðu. Og sama máli gegnir um það sem um var samið í bráðabirgðasamkomulaginu, það var ekki samið um að fjölskylda eða heimili fengi 4900 kr., heldur hver einstaklingur sem vinnur utan heimilis. Að sjálfsögðu á að heimfæra þessa reglu upp á aldrað fólk og öryrkja þegar um er að ræða bætur sem eru langt neðan við það sem verðbólgan í þjóðfélaginu rökstyður. Í þeirri framkvæmd, sem hæstv. ríkisstj. hefur á þessu, er falin ákaflega alvarleg mismunun að mínu mati — ákaflega alvarleg mismunun.

Hæstv. ráðh. vék að því, eins og fleiri hafa raunar vikið að, að ég hafi staðið að því á sínum tíma að sett voru brbl. í algerri pólitískri sjálfheldu sem upp var komin á síðasta ári, þegar ekki tókst að fá samstöðu um að fjalla málefnalega um eitt einasta atriði sem tengdist efnahagsmálunum hér á þingi. Það er alveg rétt að ég stóð að setningu brbl. sem fólu í sér að kaup hækkaði ekki í samræmi við kaupgjaldsvísitöluna. En hvernig var þetta framkvæmt? Það var framkvæmt með því ekki síst að stórauka niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Ég er alveg sannfærður um að ef ofan í þetta verður farið, þá mun koma í ljós að aldrað fólk og öryrkjar hafi á þessu tímabili haft betri kjör en nokkurn tíma fyrr vegna þess að þessar niðurgreiðslur, sem að sjálfsögðu hlutu að vera tímabundnar, komu fyrst og fremst til gagns því fólki sem notar tekjur sínar til þess að kaupa sér matvæli. Ég er alveg sannfærður um að það væri auðvelt að sýna fram á með tölum að einmitt á þessu tímabili áður en núv. hæstv. ríkisstj. tók við, meðan þessar miklu og reyndar óraunsæju niðurgreiðslur voru í gildi, þá voru kjör þessa fólks ekki skert að einu eða neinu leyti og ég hygg að þau hafi verið jafnvel betri en þau voru áður.

Það voru aðeins þessar athugasemdir sem ég vildi koma á framfæri á þessu stigi málsins.