10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3839 í B-deild Alþingistíðinda. (2996)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Þingfl. Alþfl. hefur rætt þetta mál og ákveðið að styðja það, að greiða því atkv., þar eð við teljum að hér sé um mikið réttlætismál að ræða, stórt framfaraspor á sviði íslenskra félagsmála og tryggingamála. Við hefðum að vísu kosið að sporið yrði stigið til fulls, þ. e. a. s. að allar íslenskar konur nytu þeirra réttinda sem konur í opinberri þjónustu nú njóta og gert er nú ráð fyrir að einnig taki til þeirra kvenna sem skipa stéttarfélög innan Alþýðusambandsins. Eftir stendur stór hópur kvenna sem ekki nýtur þessara réttinda, en við teljum að ætti að njóta þeirra. Spor í þá átt ætti að stíga sem fyrst.