10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3840 í B-deild Alþingistíðinda. (2998)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr. þessa máls þar eð afstaða mín til málsins hefur komið skýrt fram. En það, sem varð þess valdandi að ég kvaddi mér hljóðs, var kannske fyrst og fremst það að mér hefur fundist það eins og skína út úr ummælum hv. aðstandenda þessa frv., sem hér hafa um það talað, að við, sem höfum viljað fara aðra leið til þess að koma málinu í höfn, værum andvígir því að það fólk, sem hér um ræðir, fengi notið þessara réttinda. Þetta er náttúrlega algerlega rangt og að ástæðulausu sem slíkar getgátur eru uppi hafðar, vegna þess að mér er ekki um það kunnugt að neinn af stjórnarandstæðingum hafi látið orð um það falla að þeir væru andvígir þessu máli. Hér er fyrst og fremst ágreiningur um bað hvaða leið á að fara að settu marki.

Það hefur verið vikið að því fyrr í umr. að gerð var til þess tilraun við afgreiðslu efnahagsmálafrv. að tryggja þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, þessi réttindi í gegnum almannatryggingakerfið, og eins og hent var á fyrr í dag var sú till., sem flutt var um það efni, felld af stjórnarliðinu og þar með einsýnt að það er búið að hafna þeirri leið að farið verði með málið, a. m. k. að sinni, inn í almannatryggingakerfið og sú lausn fundin, sem a. m. k. mér og mörgum öðrum finnst langsamlega eðlilegust til þess að leysa þetta vandamál.

Hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og trn., hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, sagði í kvöld að sá sjóður, sem hér um ræðir, Atvinnuleysistryggingasjóðurinn, væri eini sjóðurinn sem hefði fjármagn til að standa straum af þessari lagasetningu. Ég held að það sé ljóst af umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að það er víðs fjarri að sá sjóður geti tekið þessar auknu greiðslur á sig öðruvísi en annaðhvort að draga í land með að sinna þeim verkefnum, sem hann hefur sinnt og á hann hafa verið lögð, eða þá í öðru lagi að sjóðnum verði séð fyrir auknum tekjum til þess að standa straum af þessum auknu útgjöldum. Og það er alveg ljóst að það er samkv. lögum sem langsamlega mestum hluta af fjármagni Atvinnuleysistryggingasjóðs er ráðstafað til hinna ýmsu verkefna sem hvert á sinn sviði er mjög nauðsynlegt út af fyrir sig.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sagði að það væri mjög orðum aukið um þann kostnaðarauka sem kæmi á Atvinnuleysistryggingasjóð ef frv. þetta yrði samþ. Hv. þm. hefur haft uppi um það orð að hér væri um 100 millj. kr. bagga að ræða. Annar hv. flm. þessa frv. hefur hins vegar rætt um 200 millj. kr. bagga sem kæmi til með að lenda á Atvinnuleysistryggingasjóði. Ég skal ekkert um það segja hvor þessara talna er rétt eða réttari. Hins vegar er ljóst að það er talavert fjárhagsspursmál sem hér er um að ræða sem verið væri þá að leggja á Atvinuleysistryggingasjóð umfram það sem hann nú hefur fjármagn til.

Eins og hér hefur komið fram er ljóst af umsögnum um þetta mál að allar umsagnir eiga það sameiginlegt að þær telja málinu betur komið og eðlilegri leið hefði verið að með þetta hefði verið farið í gegnum almannatryggingakerfið. (RH: Ekki Kvenréttindafélagsins.) Það má vera að það sé rétt hjá hv. þm. að þar sé undantekning að einhverju leyti, umsögn Kvenréttindafélags Íslands. Eigi að síður kemur skýrt fram að sú umsögn ber það ekki með sér að þeir aðilar telji eðlilegt að Atvinnuleysistryggingasjóður beri þetta algerlega að kostnaðarhluta til. Það held ég að hafi ótvírætt komið fram í þeirri umsögn.

Bæði miðstjórn Alþýðusambands Íslands og stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs telja það ótvírætt í sínum umsögnum að með því að setja slík aukin útgjöld á Atvinnuleysistryggingasjóð án þess að sjá honum fyrir auknum tekjustofnum á móti sé verið að stefna fjárhag sjóðsins í talsverða tvísýnu að því er varðar að hann geti séð fyrir þeim grundvallarþörfum sem hann var fyrst og fremst stofnaður til að sinna. Og það virðist því miður allt benda til þess, — ég segi því miður, — að ætla megi ef ástand heldur áfram að versna að því er varðar atvinnu, að þá verði auknar skuldbindingar, sem verði lagðar á herðar Atvinnuleysistryggingasjóðs umfram það, sem verið hefur, og fjárhag hans þar með enn teflt í meiri tvísýnu með því að leggja aukna fjárhagslega bagga á hans herðar án þess að tekjur komi á móti. Auk þess er á það bent í umsögn Alþýðusambands Íslands að hér sé a. m. k. um allfjarskylt verkefni Atvinnuleysistryggingasjóðs að ræða miðað við hans upprunalega tilgang. Og í umsögn miðstjórnar Alþýðusambandsins, sem ég skal ekki um segja hvort hefur verið einróma samþykkt — það kemur ekki fram — en í þessari umsögn er einmitt á það bent að greiðslustaða Atvinnuleysistryggingasjóðs sé nú mjög veik og útlit í atvinnumálum sé á þann veg að það sé mjög ótryggt og gæti því farið svo að stórauka þyrfti útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs með hliðsjón af því. Fer því ekkert á milli mála að verði þetta frv. samþ. án þess að séð sé fyrir auknum tekjustofnum fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð, þá er hans fjárhag mjög stefnt í tvísýnu, nema þá því aðeins að horfið verði að því ráði að skera niður fjárframlög til þeirra verkefna sem sjóðurinn hefur sinnt til þessa.

Og þá kem ég að því sem ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst út af. Það voru þau ummæli hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur að fé sjóðsins hefði verið varið í ýmsar framkvæmdir úti á landsbyggðinni sem a. m. k. væri tvísýnt um að verja hefði átt því fé í og þeir fjármunir hefðu verið betur komnir eða þeim betur varið til verkefnis eins og t. d. þessa. Nú veit ég ekki hvað hv. þm. á við þegar hann segir þetta, en mjög gjarnan vildi ég a. m. k. fá frekari skýringu á því hvað hér er átt við, þegar látið er að því liggja að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hafi veitt fjármagn út á land til einhverra þeirra verkefna sem talið sé mjög vafasamt að eigi rétt á sér. Ég hygg a. m. k. að það þurfi að koma einhver frekari skýring hér á hvað við er átt. Og mér finnst einnig að þegar það liggur ljóst fyrir að það verður annað tveggja að gera: að sjá sjóðnum fyrir auknu fjármagni eða skera niður eitthvað af þeim liðum sem hann hefur áður fjármagnað, þá finnst mér ekki nema eðlilegt að það komi fram um það ábendingar flm. frv. hvað það er sem þeir vilja skera niður í útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs sem hann hefur notað fjármagn sitt til á undanförnum árum. Það fylgir umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs hér upp sett hvernig fjármagni hans hefur verið varið og ég sé ekki annað en þar sé um að ræða mjög brýn verkefni, kannske mismunandi brýn, en öll eru þau að sjálfsögðu þess eðlis að það er ekki óeðlilegt að Atvinnuleysistryggingasjóður hlaupi undir bagga. Og mér finnst að fyrst menn eru um það sammála, sem ég held að allir séu, að á Atvinnuleysistryggingasjóð verði ekki bætt fleiri böggum nema þá með því að sjá honum fyrir tekjustofnum á móti, þá a. m. k. komi menn fram með hugmyndir hvað það er sem á að mæta afgangi af því sem sjóðurinn hefur þó reynt að sinna hingað til.

Eins og ég sagði áðan hafa stjórnarsinnar hafnað þeirri leið, sem lögð var til við afgreiðslu efnahagsmálafrv., að þetta yrði gert í gegnum almannatryggingakerfið. Ég geri ráð fyrir því fastlega að þegar þeirri leið hefur verið hafnað, þá munum við, sem að minnihlutaáliti heilbr.- og trn. stöndum, greiða atkv. með því að þetta verði gert til bráðabirgða. En við teljum okkur skylt að benda á leiðir til þess að standa undir þeim kostnaði sem af þessu leiðir og um það eru brtt. sem við flytjum á sérstöku þskj. Verði því hins vegar hafnað að séð verði fyrir auknum tekjustofnum til þess að mæta þessari kvöð sem á Atvinnuleysistryggingasjóð á samkv. frv. að leggja, þá bera þeir að sjálfsögðu höfuðábyrgð á því sem hafna slíku og verða þá að sjá svo um, hvernig sem þeir gera það, að sjóðurinn geti staðið fyllilega við allar þær skuldbindingar sem hann er fyrst og fremst stofnaður til að sjá fyrir. Ég vil minna á það, að þegar Atvinnuleysistryggingasjóður var settur á fót var það gert í tengslum við lausn harðrar vinnudeilu, sem staðið hafði yfir, og enginn vafi á því að með stofnun Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur fólk látið af þeirri kauphækkun sem það a, m. k. að öllum líkindum hefði fengið, hefði ekki verið farin sú leið að setja á fót Atvinnuleysistryggingasjóð. Það er því a. m. k. álit verkalýðshreyfingarinnar, held ég ótvírætt, að hér sé sjóður sem verkalýðshreyfingin fyrst og fremst á.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta öllu fleiri orðum. En aðaltilefni þess, að ég stóð hér upp, voru ummæli hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, frsm. meiri hl. heilbr.- og trn., sem fram komu í framsöguræðu hennar fyrir nál, Ég vil gjarnan óska þess að hún skilgreini frekar við hvað hún á þegar hún segir að ráðstöfun á fé Atvinnuleysistryggingasjóðs til ýmissa framkvæmda úti á landsbyggðinni sé vafasöm og þeim fjármunum hefði mátt verja til ýmissa annarra framkvæmda sem betur hefðu komið að gagni, og eins hitt, hvað er það sem hv. flm. þessa frv. vilja draga úr í fjárveitingum Atvinnuleysistryggingasjóðs ef þeir vilja ekki sjá fyrir fjármagni til þess að standa undir þessum auknu skuldbindingum hans.