29.10.1974
Sameinað þing: 1. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Minning Björns Ólafssonar

Aldursforseti (Guðlaugur Gíslason):

Áður en gengið verður til dagskrár, vil ég minnast látins fyrrv. þingmanns.

Björn Ólafsson fyrrv.ráðherra og alþm.andaðist í Borgarspítalanum í Reykjavík 11. okt. s.l. eftir langvarandi sjúkleika, 78 ára að aldri.

Björn Ólafsson var fæddur á Akranesi 26. nóv. 1895. Foreldrar hans voru Guðmundur útvegsbóndi þar Ólafsson bónda í Einarsnesi í Borgarhreppi Guðmundssonar og síðari kona hans, Ingibjörg Ólafsdóttir bónda á Bárustöðum í Andakíl Jónssonar. Á sjötta aldursári missti hann föður sinn og fluttist ári síðar með móður sinni til Reykjavíkur. Á árunum 1908–1916 starfaði hann við póstþjónustuna í Reykjavík, var síðasta árið forstöðumaður bögglapóststofunnar. Verslunarfulltrúi í Reykjavík var hann 1916–1918 og síðan stórkaupmaður og iðnrekandi að aðalstarfi. Hann var fjármála- og viðskiptamálaráðherra í utanþingsráðuneyti Björns Þórðarsonar 1942–1944, gegndi sömu störfum í ráðuneyti Ólafs Thors 1949–1950 og var menntamála- og viðskiptamálaráðherra í ráðuneyti Steingríms Steinþórssonar 1950–1953. Alþingismaður Reykvíkinga var hann 1948–1959, sat á þeim árum á 12 þingum alls, en áður hafði hann átt sæti á þrem þingum sem ráðherra í utanþingsstjórninni.

Jafnframt þeim aðalstörfum, sem hér hafa verið rakin, gegndi Björn Ólafsson ýmsum trúnaðarstörfum á vegum ríkisins. Hann átti sæti í innflutnings- og gjaldeyrisnefnd 1930–1937, var í samninganefnd um verslunarviðskipti við Bretland 1939, við Bandaríkin 1941 og við Sovétríkin 1947. Hann var kosinn árið 1940 í milliþn. um gjaldeyrisverslun og innflutningshömlur, 1941 og 1942 í gjaldeyrisvarasjóðsnefnd og 1954 í togaranefnd. Í júlí 1954 var hann skipaður í endurskoðunarnefnd laga um lax- og silungsveiði og í janúar 1960 í endurskoðunarnefnd skattalaga og var formaður þeirrar nefndar. Á árinu 1955 var hann kosinn í orkunefnd. Í bankaráði Útvegsbankans átti hann sæti 1957–1968 og var formaður bankaráðsins 1965–1968

Björn Ólafsson átti sæti í bæjarstjórn Reykjavíkur árin 1922–1928. Hann var í stjórn Verslunarráðs Íslands og Félags íslenskra stórkaupmanna í mörg ár. Aðalhvatamaður var hann að stofnun Ferðafélags Íslands árið 1927, var varaforseti í fyrstu stjórn þess og síðar forseti þess á árunum 1929–1934. Hann var stofnandi Bálfararfélagsins og formaður þess um skeið.

Björn Ólafsson stundaði ekki skólanám nema þrjá vetur í barnaskóla. Hann fór ungur að vinna fyrir sér og hóf sjálfstæðan atvinnurekstur rúmlega tvítugur að aldri. Hann var sjálfmenntaður með ágætum, og starfshæfni hans og starfareynsla öfluðu honum sívaxandi trausts, eins og æviferill hans ber glöggt vitni. Fyrirtæki hans á sviði verslunar og iðnaðar stóðu jafnan á traustum grunni og efldust jafnt og þétt. Störfum að félagsmálum sinnti hann af heilum hug, og þar sem hann á annað borð lagði hönd á plóginn, var ekki slegið slöku við. Skýrast dæmi um það traust, sem hann naut til ábyrgðarstarfa, er val hans í ríkisstjórn, þegar leitað var út fyrir þingsali við val ráðherra á tímum heimsstyrjaldar og mikils vanda í viðskipta- og verðlagsmálum.

Björn Ólafsson var baráttumaður fyrir einstaklingsfrelsi og frjálsri verslun á Íslandi. Hann var um langt skeið einn af eigendum dagblaðsins Vísis, skrifaði mikið í blaðið og átti þar vettvang til baráttu fyrir þjóðmálaskoðunum sínum. Oft stóð styr um athafnir hans og framkvæmdir, eins og jafnan verður um slíka menn. Hann hélt fast við stefnu sína, var heilsteyptur í hvívetna, einarður og ákveðinn, djarfur og stórhuga.

Ég vil biðja þingheim að minnast Björns Ólafssonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum. — Síðan gekk forseti Íslands út úr þingsalnum.]