26.11.1974
Sameinað þing: 13. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

31. mál, sjónvarpsmál

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég var að búast við því að einhver af hinum svokölluðu hernámsandstæðingum, sem í mjög langan tíma hafa barist fyrir lokun Keflavíkursjónvarpsins, kæmu hér fram á sjónarsviðið og ræddu þetta mál. En svo varð ekki.

Það má þó segja að það er eitt gott við umr. um Keflavíkursjónvarpið. Það sýndi sig 1961, þegar um þetta mál urðu mjög miklar umr., að ég held, að bað var hverjum einasta þm. ljóst, sem þá var á Alþ., að það flýtti fyrir komu íslensks sjónvarps, örugglega um nokkur ár. Ég ætla að vona að flutningur á þeirri till. sem hér liggur fyrir, till. hv. 12 þm. Reykv., verði einnig til þess að flýta því að íslenskir sjónvarpsáhorfendur, íslenska þjóðin, komist í nánari snertingu við umheiminn í gegnum þá tækni sem nú er um að ræða í sambandi við sjónvarpsútsendingar.

Það má segja, eins og kom fram hjá einum ræðumanni áðan, að kjarni málsins er raunverulega ekki sjálft Keflavíkursjónvarpið sem við erum hér að ræða. Það má segja að það sé alls ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er að það liggur ljóst fyrir að fámennum hópi hér á landi hefur tekist að koma því til leiðar að fyrir þeim íslendingum, sem ekki telja sig veika á svellinu menningarlega séð, sem hafa þorað að horfa á Keflavíkursjónvarpið, hefur því verið lokað. Ég held að ef þeir hv. ræðumenn, sem hér hafa talað um Keflavíkursjónvarpið, bæði nú og eins 1961, hefðu horft á það sjónvarp, væru þeir ekki með neinar umr. um það að þetta væri bandarískur áróður. Þetta er yfirleitt, eins og flestir vita, mjög létt dagskrá sem fellur fólki vel í geð sem dægrastytting. Ég hygg að jafnvel íslenska sjónvarpið flytji mun meira af ýmiss konar efni frá austantjaldslöndunum, þeim löndum sem hér voru nefnd áðan, Póllandi, Tékkóslóvakíu og öðrum austantjaldslöndum. Ég hef ekki heyrt nokkurn íslending hafa neitt við það að athuga. Sumt af efni þessu er ágætt, annað er hundleiðinlegt. Þetta er eins og gengur og gerist um sjónvarpsefni, bæði í Keflavíkursjónvarpinu og íslenska sjónvarpinu. Menn hafa misjafnan smekk fyrir efni sem flutt er og verður því hver að meta það sjálfur hvað hann telur að sé við sitt hæfi.

Ég sagði áðan, og það er það sem gaf mér tilefni til þess að koma hér upp í ræðustólinn, að ég tel sjálft Keflavíkursjónvarpið alls ekki vera kjarna málsins. Menn geta án efa lifað án þess. Sumir hafa gaman af því, aðrir opna án efa aldrei fyrir það og skoða það aldrei, þannig að það er ekki það sem skiptir máli, heldur hitt, að það er verið að meina íslendingum að velja og hafna á þessu sviði, eins og kannske að er stefnt, að taka af þeim réttinn á öðrum sviðum. Það þýðir ekkert fyrir mig að vera að halda því hér fram, að þarna hafi — þetta yrði kommúnistaáróður en það vill nú þannig til að í Þjóðviljanum 12. okt. er þetta mál tekið til umr. Ég vil aðeins leyfa mér að lesa stuttan kafla úr þeim leiðara sem að því víkur þennan dag og sýnir nokkuð hver raunverulega er kjarni málsins. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Náttúrlega kemst borgarfulltrúinn“, þar er átt við frú Sigríði Ásgeirsdóttur sem hafði skrifað grein í Morgunblaðið, „að þeirri niðurstöðu að takmörkun hermannasjónvarpsins“, eins og Þjóðviljinn orðar það í leiðaranum, „sé kommúnistum að kenna.“

Þetta er það sem Þjóðviljinn segir í svari sínu til borgarfulltrúa í Reykjavík, sem er að því leyti rétt að það var fyrir áhrif Alþb. í fráfarandi ríkisstj. að til takmörkunar kom. Þarna liggur alveg fyrir svart á hvítu að kommúnistum hefur tekist vegna áhrifa sinna í fyrrv. ríkisstj. að fá því framgengt að Keflavikursjónvarpinu var lokað fyrir þeim íslendingum sem á það vildu horfa.

Það má segja að þetta er kannske ekki stórt atriði, en þetta er aðeins einn þátturinn í baráttu þessara aðila gegn varnarliðinu hér og þá auðvitað í þágu þess stórveldis sem kommúnistar — ég leyfi mér að kalla þá kommúnista úr því að þeirra eigið blað gerir það — berjast fyrir. Ég vil benda hv. þm. á að þetta er ekki frá mér komið. Það getur hver sem er lesið þetta í leiðara Þjóðviljans, þar er það sagt berum orðum að það sé fyrir áhrif fulltrúa Alþb. í ríkisstj. að kommúnistar hér á Íslandi fái ýmsum málum framgengt. Ég segi, þetta er sá alvarlegi hlutur sem um er að ræða þegar við ræðum bæði þetta mál og annað í sambandi við varnarmálin, að málgagn Alþb. er búið að viðurkenna opinberlega í leiðara að þeir fulltrúar, sem hér á Alþ. kalla sig Alþb.-menn, eða a.m.k. forustumenn þeirra, ég vil ekki ganga lengra, það er viðurkennt að þeir eru að vinna fyrir kommúnista, bæði í sambandi við lokun Keflavíkursjónvarpsins og þá að sjálfsögðu í öðrum málum, sem hinn alþjóðlegi kommúnisti hefur áhuga fyrir.

Ég tel að í sambandi við allar umr., sem orðið hafa um þetta mál, sé þetta það alvarlega í öllu þessu, að slíkt skuli geta átt sér stað um jafnfámennan hóp og kommúnistar eru hér á Íslandi þótt Alþb. sem slíkt hafi allmarga kjósendur á bak við sig, eru það kannske ekki nema 5% af því fólki, sem kýs það, sem hefur hugmynd um að það er að kjósa aðila sem vinna eins og þeirra eigin málgagn segir, vinna í þágu kommúnista. Ég segi, það var gott að þessi leiðari kom í ljós, því að þá þarf ekki að vera að vitna í að þetta sé Moggalygi, þetta sé áróður úr við skulum segja t.d. fyrrv. félmrh., Hannibal Valdimarssyni, sem á sínum tíma flutti hér mjög skelegga ræðu og greindi frá samskiptum sínum við kommúnista og var þar ekkert myrkur í máli. Það er hægt að lesa ræðu hans upp hér. En það var ágætt að þetta skyldi koma fram, því þá sjá menn hvað er að gerast í þessu máli eins og öðrum.

Auðvitað getur bæði sjálfstæðismenn og aðra menn greint á í þessu máli. Það er ekkert óeðlilegt. Menn hafa misjafnar skoðanir um það. En það greinir engan á um það lengur að þarna er stefnumörkun frá tilteknum stjórnmálaflokki sem hrósar sér af því að hafa getað gert vinum sínum — og maður getur þá sagt sínum yfirboðurum — þennan greiða, að koma því til leiðar með veru sinni í ríkisstj. Íslands að lokað var fyrir Keflavíkursjónvarpið þannig að Íslendingar gætu ekki lengur horft á það.

Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál efnislega. Ég vil aðeins bara vekja athygli hv. þm. á því að þetta liggur fyrir og þetta er sá kjarni sem ég tel vera í sambandi við lokun Keflavíkursjónvarpsins, að það skuli liggja alveg ljóst fyrir og viðurkennt að víss stjórnmálaflokkur hafi verið með því að þóknast kommúnistum að koma þessu fram.

Hv. 3. þm. Austf. vakti athygli á því á sumarþinginu og endurtók það nú að hann drægi mjög í efa að það væri ekki brot á íslenskum lögum að Keflavíkursjónvarpið hefði verið látið afskiptalaust, hefði fengið að senda út eins og það gerði. Hann hefur nú dregið þetta til baka svo að það er óþarfi að vera að leiðrétta það. En ef menn vilja lesa þingtíðindin frá 1961 þar sem þáv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, svarar fsp. frá hv. 4. þm. Reykv., Þórarni Þórarinssyni, um málið, þá liggur ljóst fyrir að Keflavíkursjónvarpið hefur alltaf verið rekið hér á þann hátt, sem það er gert, með fullu samþykki stjórnvalda Landsímans og með samþykki Ríkisútvarpsins. Þetta kemur alveg greinilega fram í svari þáv. hæstv. utanrrh. Það fer ekkert á milli mála. (SvH: Það voru nú ekki allt lög sem Guðmundur Í. sagði.) Það voru ekki allt lög sem Guðmundur Í. sagði, en því hefur ekki verið mótmælt, mér vitanlega, af neinum hér á Alþ. að það sem þá var gert hafi stuðst við íslensk lög. Og ég vil þá spyrja: Dettur nokkrum manni í hug að hæstv. núv. utanrrh. telji sig þurfa að fara til Bandaríkjanna til að semja um það sem ætti að liggja fyrir að væri brot á íslenskum lögum? Hann veit eins og allir aðrir að varnarliðið hafði fullan rétt á rekstri stöðvarinnar eins og hún var. Það er enginn vafi á því að þetta var gert með fullri vitund íslenskra stjórnvalda og hefur svo verið allan tímann.

Ég vonast til þess, eins og ég sagði í upphafi, að þær umr., sem hér hafa orðið um þetta mál og hér kunna verða um þetta mál, verði til þess að flýta fyrir því að íslendingar geti notfært sér þá tækni sem nú er að verða í þessum málum, þannig að þeir þurfi ekki að vera einskorðaðir við að horfa á íslenska sjónvarpíð, þeir geti bæði á þeim tíma, sem það er, og á öðrum tímum skipt yfir á aðrar stöðvar, eins og nú er gert og hefur verið gert með útvarpið. Ég held að þetta sé það sem er hinn almenni vilji íslensku þjóðarinnar, menn þurfa ekki að vera að einskorða sig við eitt sjónvarp og þeir geti leyft sér það að komast í snertingu við umheiminn í gegnum þennan fjölmiðil. Ég endurtek að ég vona að þessar umr. og þessi tillöguflutningur verði til þess að flýta fyrir að þessi aðstaða skapist hér.