26.11.1974
Sameinað þing: 13. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

31. mál, sjónvarpsmál

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í innanflokksdeilur samstarfsflokks míns í ríkisstj. um þessar mundir. Þeir eru menn til þess að gera það mál upp sin á milli án minnar aðstoðar. En ég hef hug á að segja örfá orð um þessa till. til þál. um sjónvarpsmál og þá fyrst og fremst til að lýsa því yfir að ég er henni algerlega andvígur. Hún er að vísu í tvennu lagi, till., og það er fyrst og fremst fyrri liðurinn sem ég er andvígur, þ.e.a.s. að við afturköllum þá ákvörðun íslensku ríkisstj. að Keflavíkursjónvarpið skuli takmarkað við Keflavíkurflugvallarsvæðið.

Seinni liður till. er sjálfsagt góðra gjalda verður, en hann er raunar um allt annað efni. Það er efalaust framtíðin að við könnum með hvaða hætti við komumst í samband við útsendingar erlendra sjónvarpsstöðva gegnum alþjóðleg fjarskiptatæki. Það er góðra gjalda vert, ef hægt er að gera það, og á ekkert skylt við það að leyfa einum aðila rekstur hermannasjónvarpsstöðvar að mínu mati, ekki neitt. Það er allt annað mál og ég mundi fagna því ef íslenskir sjónvarpsnotendur ættu kost á viðtækara sjónvarpsefni en íslenska sjónvarpið er fært um að veita þeim. En það verður að gerast með öðrum hætti en þeim sem var, að eitt stórveldi hafi einokunaraðstöðu til þess að sjónvarpa efni hér og við höfum ekkert um það að segja hvaða efni þar er sjónvarpað.

Ég vil út af fyrir sig ekkert hafa á móti því, að þessi till. fái þinglega meðferð. Ég er sannfærður um að hún verður felld, ég a.m.k. vona það, því að ég mun ekki taka það að mér sem utanrrh. að framfylgja því ef það er vilji Alþingis að opna fyrir Keflavíkursjónvarpið ótakmarkað að nýju. Það verða þá aðrir að veljast til þess.

Ég vil svo taka fram í tilefni af því sem hv. 3. þm. Sunnl. gerði að umtalsefni, að ég hefði átt að fara til Washington og semja um lokun sjónvarpsstöðvarinnar þar, að það er ekki rétt. Ég tilkynnti það sem íslenska ákvörðun að sjónvarpið yrði takmarkað við Keflavíkurflugvöll, en samdi ekki um það. Það var íslensk tilkynning, en ekki samningsatriði, því að eins og hér hefur komið fram hjá einhverjum ræðumönnum, — ég hygg að það hafi verið 3. þm. Austf. sem benti á það, — þá er það algerlega á valdi íslendinga sjálfra að ákveða með hvaða hætti fjölmiðlun frá varnarliðinu fer fram, eins og önnur atriði viðkomandi fyrirkomulagi varna á Keflavíkurflugvelli.

Það verður tækifæri áður en langt um líður — ég vona í byrjun næstu viku — til þess að ræða varnarsamninginn eða samkomulagið sem gert var fyrir skemmstu. Ég lofaði hæstv. 1. varaforseta Sþ. því fyrir nokkrum dögum að gefa Alþ. yfirlit um það samkomulag sem gert var, og ég mun gera það í heild. Við höfum komið okkur saman um að reyna að koma því fyrir í byrjun næstu viku. Það hefur ýmislegt valdið því að það hefur ekki verið hægt fyrr, fyrst og fremst flokksfundir allra flokkanna sem hafa staðið yfir og eru nýafstaðnir. Ég tel því ekki þörf á að ég sé að fara hér langt út í þessi mál nú en ég vil þó aðeins taka það fram að takmörkun Keflavíkursjónvarpsins við vallarsvæðið, aðskilnaður farþegaflugs og herflugs og búseta varnarliðsmanna á afmörkuðu svæði eru allt að mínu mati liðir í því að einangra varnarliðið, að minnka samskipti íslendinga og varnarliðsmanna. Það má segja, að það sé ekki neinn fullnaðarsigur, en í mínum augum er það áfangi til verndar íslensku þjóðerni og til þess að koma hlutum í eðlilegt horf að þessi aðskilnaður og þessi takmörkun fari fram.

Það er hygg ég mjög rangt að segja að það sé fámennur hópur sem hafi komið því til leiðar að Keflavíkursjónvarpið er takmarkað. Ég get a.m.k. upplýst það að við framsóknarmenn erum nýbúnir að hafa það sem við köllum flokksþing og haldið er á fjögurra ára fresti. Þar voru þessi mál vitanlega rædd. Sýndist sitt hverjum um samkomulagið sem gert var við bandaríkjastjórn af utanrrn. í síðasta mánuði, ég skal fúslega viðurkenna það, en allir voru sammála um það að lokun eða takmörkun Keflavíkursjónvarpsins hefði verið spor í rétta átt. Það kom ekki fram ein einasta rödd á þessu flokksþingi, þar sem voru 300–400 manns, sem vildi að þeim málum yrði öðruvísi fyrir komið, að þar yrði stigið til baka. Þvert á móti komu fram raddir sem gagnrýndu mig og fyrrv. ríkisstj. fyrir það að sjónvarpið skyldi þó enn þá vera leyft öðruvísi en í lokuðum rásum vegna þess að reyndin mun vera sú, eftir því sem mér er sagt, þótt ég hafi ekki sönnur á því, að sjónvarpið muni sjást nokkru víðar en loforð bandaríkjamanna um það efni stóðu til. Ég hef nú gert ráðstafanir til þess að fá mælingar á þessu til þess að hið sanna komi í ljós því að mér hafa verið sagðar ýmsar sögur um þetta sem ég hef ekki getað staðreynt, m.a. vegna þess að ég hef aldrei haft sjónvarp sem nær Keflavíkursendingunum.

Ég hygg þess vegna að það séu mjög margir sem óska þess og fagna því að þessi takmörkun hefur þó — loksins vil ég segja — verið framkvæmd og það sé mjög fjarri lagi að hér sé hægt að tala um fámennan hóp. A.m.k. höfðum við í Framsfl. lengi viljað að þetta næði fram að ganga þó að framkvæmdir létu á sér standa, það skal viðurkennt, m.a. vegna þess að við höfðum meiri breytingar og stærri áform í huga sem við urðum að leggja til hliðar að sinni. Og ég hygg að hv. talsmenn Sjálfstfl., sem hér hafa mælt fyrir þessari till., geti raunar sannfærst um það í flokksherberginu sínu að það séu ýmsir sem eru þessari till. andsnúnir.