26.11.1974
Sameinað þing: 13. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

31. mál, sjónvarpsmál

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég sé að sjálfsögðu ekki ástæðu til að eyða mörgum orðum í að svara hv. 3. þm. Reykv. sem hér talaði síðastur. En þar sem hann og hans líkar hafa hvað eftir annað tuggið það að Ísland sé í samstarfi sínu við vestræn ríki með einhverja betliherferð þegar um er að ræða samskipti á eðlilegum grundvelli við þá aðila, sem þeir undirrituðu með sáttmálann frá 5. maí 1951, ætla ég að leyfa mér að lesa hér upp kafla úr honum með leyfi forseta. Skal ég þó sleppa inngangsorðunum, fara beint í 1. gr. Hún hljóðar svo:

„Bandaríkin munu f.h. Norður-Atlantshafsbandalagsins og samkvæmt skuldbindingum þeim, sem þau hafa tekist á hendur með Norður-Atlantshafssamningnum, gera ráðstafanir til varnar Íslandi með þeim skilyrðum, sem greinir í samningi þessum. Í þessu skyni og með varnir á svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til, fyrir augum lætur Ísland í té þá aðstöðu í landinu, sem báðir aðilar eru ásáttir um að sé nauðsynleg.“

Hvað það snertir að ég er hingað kominn sem þm., þá hefði ég gaman af að rekja minn feril frá fæðingu til dagsins í dag ef hv. þm. Magnús Kjartansson vildi gera það líka um sinn æviferil. Við höfum báðir átt okkar góðu daga áður en við urðum þm., en öll ævin er aðdragandi að því hvað maðurinn er í dag. Ég mun ekki hafa fleiri orð um það að sinni. (Gripið fram í). Ég ætla ekki að fara að ræða úr þessum stól kjark eins eða annars, en ég skal þó leggja trúnað á orð þess sem greip fram í.

Ég vil ítreka það og taka undir það með frú Sigurlaugu Bjarnadóttur, 9. landsk. þm., að það er auðvitað slæm nauðsyn að þurfa að hafa her í landi. Það fer ekkert á milli mála. Það er ekki til umræðu. Við erum öll sammála um það. En í málflutningi sínum, þar sem hún afbiður sér kommúnisma í tali mínu, talar hún sem vinstri kona eftir hennar eigin orðum. Magnús Kjartansson gerir hennar orð að sínum. Ég er hægri maður í hennar augum. Ég er það líka með sjálfum mér, það er engin launung. Þannig er afstaða mín og framkoma í þessu máli sem mörgum öðrum, bæði hér og annars staðar. En við höfum eignast aðra „allrasystur“.

Ég vil meina að sú þáltill., sem ég hef hér borið fram, sé langt frá því að vera óþingleg. Ég hef leitað upplýsinga hjá lögfræðingum alveg á sama hátt og þeir aðrir sem hér hafa talað. Þeir hafa sagt mér að hún sé það ekki enda hafa tveir forsetar Sþ. nú skorið úr um það að hún á hér fullan rétt á sér.

Það er talið betl að koma í veg fyrir að verið sé að hefta þá aðila sem við höfum hingað fengið vegna þess að við erum varnarlausir sjálfir og eru að verja okkur, ekki gegn einhverri ímyndaðri hættu, okkur er öllum ljóst hver sú hætta er. Síðasti ræðumaður var talandi dæmi um þá hættu sem steðjar að okkur. En hvað er sagt við varnarlið Bandaríkjanna sem hér dvelur? Jú, þið megið vera hérna af því að við höfum sameiginlegra hagsmuna að gæta, eins og kemur fram í þessum samningi, varnarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins, að það séu sameiginlegir hagsmunir Evrópuríkjanna, þeirra sem ennþá voru frjáls þegar bandalagið var myndað. En við segjum við þá: Jú, komið þið hingað, verið þið hérna, tryggið þið að íslenskri menningu verði ekki ógnað, bjargið þið þeim sem bjargað verður, réttið þið hjálparhönd þegar á þarf að halda, verið þið reiðubúnir til að taka þátt í styrjöldum, ef á okkur er ráðist til þess að verja þá íslensku menningu sem við erum að tala um, en farið ekki fram á neitt í staðinn. Þetta er fallegt til afspurnar — eða hitt þó heldur. Ég held að við getum verið sammála um það flestir. Flestir íslendingar hafa sýnt í verki að þeir eru það. Það er þörf á að hafa bandaríska herliðið hér einmitt til þess að gæta íslenskrar menningar. Þjóðflokkar og þjóðir hafa verið gersamlega þurrkaðar út með tilfærslum milli landa. Það kæmi mér ekkert á óvart að það yrði gert hér líka ef Ísland yrði hersetið af öðrum aðila.

Ég harma það og er satt að segja alveg undrandi á því að ráðh. skuli leyfa sér að segja að hann muni neita að gegna þeim skyldum sem Alþ. felur honum hverju sinni. Hann segir að ef þessi þáltill. verði samþ. muni hann neita. Ég skil það svo að hann sé að hóta að segja af sér. Það getur enginn ráðh. neitað að gegna þeim skyldum sem Alþ. leggur honum á herðar. Þetta harma ég mjög því að ég met hæstv. utanrrh., eins og kom hér fram í minni frumræðu, mikils og veit að hann er málefnalegur og góður drengur. En ég harma þessa afstöðu hans.

Hitt er annað mál, að það kemur mér heldur ekkert á óvart þó að flokksþing hæstv. ráðh. geri samþykktir sem þessar. Að sjálfsögðu gerir ekkert flokksþing samþykkt sem lítillækkar ráðherra sinn. Hvort sem menn eru með eða móti till., þá hlýtur það að segja síg sjálft að afstaða þingsins segir ekkert um hinn eiginlega hug manna.

Ég held að ég verði að undirstrika það, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Sunnl., að það eru fámennir hópar sem hafa haft þau áhrif á ráðamenn, ráðh. í þessu tilfelli, að íslenskir sjónvarpsáhorfendur njóta ekki þeirrar skemmtunar sem Keflavíkursjónvarpið hefur flutt inn á þeirra heimili og er miklu minna mengandi, eins og talað er um, heldur en íslenska sjónvarpið sjálft með öllum sínum hrærigraut og áróðursmyndum og þá aðallega frá austri, sem að sjálfsögðu er afskaplega ánægjulegt sjónvarpsefni fyrir suma, það er svo annað mál.

Ég vil taka undir það með Sverri Hermannssyni að það er alveg nauðsynlegt að koma sem allra fyrst á þeirri tækni sem þarf til þess að við getum séð sjónvarpsdagskrár sem víðast að. En ég er ekki sammála honum um það að einstaklingurinn geti þá ekki fengið að hafa það frelsi sem í því felst að velja hinar ýmsu stöðvar, hvar sem þær eru, hvort sem þær eru í austrinu eða vestrinu, alveg eins og gert er meira að segja í Kaupmannahöfn, frá 5 eða 6 löndum og austantjaldslöndum líka. Það er ekki langt síðan ég var í Belgíu, 3–4 vikur síðan, og horfði þar á austantjaldsstöð. Mér finnst það ekki beint skemma mig. Mér var bölvanlega við það bara af því að það var austantjaldsstöð, það skal ég viðurkenna.

Hv. 3. þm. Austf. segir að það beri að sigta þetta og matreiða í fólkið. Það get ég ekki samþykkt. Ég hef heyrt þetta áður og ég hef heyrt að þetta hafi komið fram hjá form. útvarpsráðs nýlega og kom mér ekkert á óvart, en það kemur á óvart ef það kemur frá sjálfstæðismanni.

Ég verð að leiðrétta frú Sigurlaugu Bjarnadóttur, 9. landsk. þm., að þetta er nú í fyrsta skipti, en ekki alltaf þegar hún hlustar á mig, sem hún heyrir mig tala um sjónvarpsmálið. Það hefur ekki verið til umræðu sem slíkt á flokksfundi hjá Sjálfstfl. þó að ég hafi tilkynnt á sínum tíma að ég mundi flytja það vegna þess að önnur málsmeðferð fékkst ekki. En lágkúruna í hennar málflutningi held ég að fólkið sjálft verði að dæma um. Hún minntist á það að ég hefði ekki lesið upp seinni hlutann af till. minni. Þetta er alrangt. Ég las alla till. og lagði mikla áherslu einmitt á seinni hluta till., ég las hana alla. En ég las bara stuttan kafla úr grg. Till. las ég alla og vitna ég þá í hljóðritun sem hlýtur að vera til. Hvað er lágkúra, ef það er ekki lágkúruleg málsmeðferð að tala um að orð mín um þá sjúku og öldruðu, sem sendu mér bréf og skeyti sem ég á og get lagt fram, séu bara til að gera till. girnilegri? Hvar eru takmörkin, hvar er lágkúran, hvers konar hugsunarháttur er þetta? Heldur hv. þm. að það sé bara einn eða tveir sem vilja horfa áfram á Keflavíkursjónvarpið? Það þarf að breyta hverju einasta tæki, — ég er margbúinn að segja það, — til þess að sjónvarpsdagskráin sjáist. Og svo er verið að blanda hávaða í fjölbýlishúsum eftir einhvern ákveðinn tíma á kvöldin við sjónvarpsdagskrá sem að sjálfsögðu er hægt að stilla. Hvert ætlar hún að sækja sín rök?

Ég vil upplýsa hv. 3. þm. Reykv., ef hann er ekki með varnarsamninginn milli Íslands og Bandaríkjanna á borðinu hjá sér, þá er ég með hann hérna og hann getur séð á honum að hér er ekki um neina lágkúru og ekki neitt betl að ræða. Hér er um að ræða samstarf tveggja frjálsra þjóða sem halda vonandi áfram að vera frjálsar einmitt vegna samstarfsins og halda áfram samstarfi við aðrar vestrænar þjóðir.