12.05.1975
Neðri deild: 83. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3887 í B-deild Alþingistíðinda. (3066)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Hinn 24. jan. s.l. birti dagblaðið Tíminn stórfrétt um mjög alvarlegt ástand í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Fyrirsögn fréttarinnar, sem birt var efst á forsíðu, tók yfir fimm dálka og hljóðaði svo, með leyfi forseta: „Gjaldeyrisforðinn má heita alveg uppurinn.“ Efni fréttarinnar var frásögn af ræðu sem hæstv. viðskrh. hafði haldið kvöldið áður. Hinn 29. jan., eða fimm dögum síðar, tók Seðlabankinn ákvörðun um að gjaldeyrisbankarnir, Landsbankinn og Útvegsbankinn, skyldu hætta að mestu gjaldeyrisafgreiðslu svo sem oft hefur gerst þegar gengislækkun hefur verið talin yfirvofandi. Hinn 13. febr. var gengi krónunnar síðan lækkað og eðlileg gjaldeyrisviðskipti hafin að nýju.

Í umræðum, sem orðið hafa um þessi mál í fjölmiðlum að undanförnu, hefur því verið haldið fram að ekki hafi gilt sömu reglur um gjaldeyrisafgreiðslu í Landsbankanum og í Útvegsbankanum síðustu dagana áður en gjaldeyrisviðskiptum var að mestu hætt að fyrirlagi Seðlabankans, þ.e.a.s. á tímabilinu frá 24. jan. til 29. jan. Það hefur t.d. verið sagt að annar bankinn, Landsbankinn, hafi haldið áfram að afgreiða dýra frílistavöru eins og bifreiðar þessa daga, en hinn gjaldeyrisbankinn, Útvegsbankinn, hafi þessa sömu daga neitað að afgreiða þessa sömu vöru. Bankarnir hafa engu svarað til um það hvort þetta sé rétt. Austurbæjarútibú Landsbankans hefur að vísu birt stuttorða yfirlýsingu um að frílistavörur hafi verið afgreiddar með eðlilegum hætti fram til 29. jan. og væntanlega á þetta við um Landsbankann sjálfan, en Útvegsbankinn hefur ekkert látið frá sér heyra um þetta mál, ekki gjaldeyrisdeild bankanna og ekki heldur Seðlabankinn. Hér er hins vegar um að ræða mál sem nauðsynlegt er að upplýst verði til hlítar.

Hér á landi hafa tveir ríkisbankar einkaleyfi til þess að versla með erlendan gjaldeyri. Ef þeir fylgja ekki sömu reglum um gjaldeyrissölu til innflytjenda og ekkert er um slíkt tilkynnt opinberlega, fá sumir keyptan gjaldeyri, en aðrir ekki, og þegar síðan er gerð gengisbreyting, þá skapast gífurlegt misrétti milli viðskiptamanna bankanna. Þeir, sem fá afgreiðslu skömmu fyrir gengislækkunina, hagnast, hinir tapa og getur verið um stórar fjárfúlgur að tefla.

Ég vil taka það mjög skýrt fram í þessu sambandi að með því að vekja athygli á þessu máli er ég alls ekki að gera því skóna að nokkur innflytjandi eða nokkur opinber embættismaður hafi gert nokkra tilraun til þess að hagnast á því, ef það er rétt sem haldið hefur verið fram að viðskiptavinum bankanna hafi verið mismunað, enda hefur slíkt ekki verið sagt í þeim umræðum sem fram hafa farið. Hinu hefur verið haldið fram, að ekki virðist hafa verið um neina samræmda stefnu að ræða í þessum málum umrædda daga, þótt engin staðfesting hafi fengist á því hvort svo var eða ekki og þá ekki heldur hvers vegna. En þetta er kjarni málsins.

Það er sannleikurinn um þetta efni sem verður að fást upplýstur, fyrst og fremst í því skyni að sé það rétt, að Landsbankinn og Útvegsbankinn hafi ekki látið viðskiptavini sína sitja við sama borð síðustu dagana áður en gjaldeyrisviðskiptum var hætt, þá verður að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst aftur. Af þessum sökum leyfi ég mér að beina eftirfarandi fyrirspurnum til hæstv. viðskrh.:

1. Fylgdu Landsbankinn og Útvegsbankinn sömu reglum við gjaldeyrisafgreiðslu dagana 24.–29. jan. s.l.

2. Ef svo var ekki, hver tók þá ákvörðun um að svo skyldi ekki gert: Viðskrn., Seðlabankinn eða Útvegsbankinn sjálfur og hver var ástæðan til slíkrar ákvörðunar?

3. Sé það rétt að Útvegsbankinn hafi synjað viðskiptavinum sínum um gjaldeyri fyrir frílistavörum, eins og t.d. bifreiðum, samtímis því sem Landsbankinn afgreiddi umsóknir sinna viðskiptamanna, þannig að stórfellt misrétti hafi skapast milli einstakra innflytjenda og viðskiptavina þeirra, hvaða ráðstafanir hyggst ráðh. gera til þess að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig?