12.05.1975
Neðri deild: 83. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3889 í B-deild Alþingistíðinda. (3068)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti Ég þakka hæstv. ráðh. mjög ljós og greinargóð svör. Það hefur komið fram svar við meginefni spurningar minnar sem var þetta: Átti sér stað á vegum gjaldeyrisbankanna tveggja, tveggja ríkisbanka, tveggja kvista af sama meiði, átti sér stað einhver mismunun í sambandi við afgreiðslu á gjaldeyri til viðskiptamanna bankanna á tímabilinu frá 24. jan. til 29. jan.? Í mjög greinargóðu og ljósu svari hæstv. ráðh. kemur það glögglega fram að annar bankinn, Útvegsbankinn, annar ríkisbankinn, annar gjaldeyrisbankinn, annar kvisturinn af sama meiði, tekur þá ákvörðun að setja á aðgæslu, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, aðgæslu á sölu gjaldeyris, á sama tímabili og liggur fyrir yfirlýsing frá hinum bankanum, Landsbanka Íslands, Austurbæjarútibúi að það hafi ekki verið gert af þeim banka. Þetta er mergurinn málsins. Þetta tel ég vera mjög óæskilegt og skapa óeðlilega mismunun milli viðskiptamanna þessara tveggja gjaldeyrísbanka.

Ég vil eindregið skora á hæstv. ráðh. og ríkisstj. að koma í veg fyrir að slík mismunun geti skapast ef til þess kynni að koma einhvern tíma í framtíðinni að gengi íslensku krónunnar yrði breytt, vegna þess að málsmeðferð eins og hér hefur komið fram að viðhöfð hafi verið hlýtur eðlilega að skapa nokkra tortryggni hjá viðskiptamönnum ríkisbankanna þegar annar afgreiðir gjaldeyrisumsóknir án nokkurra takmarkana, en hinn ekki.

Ég vil að lokum aðeins taka það fram að hér er ekki um sambærilegan hlut að ræða eins og bankarnir standi í almennum lánveitingum sem auðvitað verða að ráðast af því, hvaða fé hver banki um sig hefur til ráðstöfunar á hverjum tíma. Hér er um að ræða þjónustu við viðskiptavini og það er eðlilegt að viðskiptavinir tveggja ríkisbanka krefjist þess að þeir njóti sambærilegrar þjónustu hjá báðum bönkunum um mál eins og hér er um að ræða.

En ég ítreka enn þakkir mínar til hæstv. ráðh. Það hefur sem sé komið í ljós að það giltu ekki sömu reglur um gjaldeyrissölu á tímabilinu 24. jan. til 29. jan. hjá gjaldeyrisbönkunum tveimur.