12.05.1975
Neðri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3906 í B-deild Alþingistíðinda. (3103)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég tók til máls við 1. umr. þessa máls og lýsti þar viðhorfum mínum til þess í stuttu máli á þá leið að ég hef verulegar aths. að gera við frv. eins og það er lagt fram. Aðallega felast þær þó í því, að hér er gert ráð fyrir að fæðingarorlof nái einungis til kvenna sem vinna úti sem kallað er. Hinar, sem ekki geta með neinu móti komið því við að vinna úti, fá ekkert fæðingarorlof. Hér er verið að leggja fram frv. til l. um að setja í lög almennar heimildir um fæðingarorlof, og þegar um slíkt er að ræða finnst mér að það sé meinbugur á málinu að það skuli ekki ná til allra kvenna.

Annað atriðið, sem ég gerði einnig að umtalsefni, var það að gert er ráð fyrir því að Átvinnuleysistryggingasjóður standi undir þeim kostnaði sem hér um ræðir. Atvinnuleysistryggingasjóður var stofnaður, eins og margsinnis hefur verið bent á í þessum umr., eftir einhverjar mestu vinnudeilur sem orðið hafa hér í landinu, árið 1955, og hann var stofnaður með samkomulagi og um sjóðinn og starfsemi hans hefur, að ég hygg, verið pólitískt samkomulag alla tíð. Þess vegna álít ég að það sé dálítið varhugavert nú að ákveða með lögum að breyta verksviði sjóðsins á þá leið sem hér er gert ráð fyrir. Það er rétt að hafa það í huga að Atvinnuleysistryggingasjóður hefur hagað starfsemi sinni þannig á undanförnum árum að hann hefur verið talsverður lánasjóður. Hann hefur að minni hyggju hagað starfsemi sinni skynsamlega með því að stuðla að atvinnuuppbyggingu, eflingu atvinnulífsins, víða um landið, sérstaklega þó á þeim svæðum og þeim stöðum, sem hafa verið í hættu varðandi atvinnuleysi, og komið þannig í veg fyrir atvinnuleysi, byggt upp atvinnulífið, sem er auðvitað þýðingarmikið fyrir þjóðarhag og efnahagsundirstöðu þjóðarinnar, en einnig sérstaklega komið í veg fyrir að atvinnuleysi skapist. Og þessi lánastarfsemi er á talsvert mörgum sviðum og hún hefur verið veruleg. Atvinnuleysistryggingasjóður hefur lánað til hafnarbóta. Hann hefur lánað til fiskiðnaðar og annars iðnaðar. Hann hefur lánað til ýmiss konar atvinnuaukningar, t.d. í sambandi við hina miklu uppbyggingu skuttogaraflotans. Þá má segja að Atvinnuleysistryggingasjóður hafi lagt verulegt lóð á vogarskálina á mörgum þeim stöðum þar sem einmitt þurfti að styrkja atvinnulífið til þess að tryggja að þessir staðir gætu komist yfir skuttogara. Það má nefna marga staði allt í kringum landið í þessu sambandi. Þá hefur hann einnig lánað í vatns- og hitaveitur, í orlofs- og félagsheimili, svo að fleiri dæmi séu nefnd.

Mér er kunnugt um það að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur þegar unnið að því hvernig hún gæti hugsanlega staðið að lánastefnu og lánastarfsemi á þessu ári, og hafa farið fram viðræður, t.d. á milli forráðamanna Byggðasjóðs og Atvinnuleysistryggingasjóðs, um það hvernig þessir sjóðir gætu staðið að lánastarfsemi á vissum sviðum á þessu ári. Ef þetta frv. yrði samþ. nú fyrir mitt ár yrði auðvitað að endurskoða þessa starfsemi alla frá rótum og það gæti haft talsverð áhrif, sérstaklega eins og nú er ástatt í þjóðfélaginu. Það er að vísu á stefnuskrá núv. ríkisstj. að stuðla að fullri atvinnu í landinu, eitt þýðingarmesta atriðið á stefnuskrá stjórnarinnar, en eigi að síður, miðað við það ástand, sem verið hefur, og þá þróun, sem við búum við um þessar mundir og ástæða er til að ætla að verði enn um sinn, þá er einmitt hætta á því að það geti skapast atvinnuleysi þrátt fyrir þennan ásetning ríkisstj. Það bryddar á því sums staðar. Þess vegna held ég að það væri mjög miður ef kippt væri stoðum undan fjárráðum Atvinnuleysistryggingasjóðs í þessu sambandi.

Ég hygg að það væri í raun og veru mjög æskilegt ef hægt væri að ná samkomulagi um slíkt mál sem þetta, og ég er ekki viss um nema það sé möguleiki á því, að það sé hreinlega hægt að ná samkomulagi í þinginu um að setja í lög fæðingarorlof kvenna ef það væri reynt. En ég fyrir mína parta vil átelja það að setja svona stórt mál fram í þinglok þegar menn eru að rembast við að reyna að ljúka þingi nú fyrir helgi og sækja það af talsverðri hörku og sóknarþunga. Ég sé að á laugardagskvöldið, frá kl. 9 og allt fram undir miðnætti, fóru fram umr. um þetta mál hér í deildinni. Auðvitað veit ég að þm. eru skyldir til þess að taka þátt í þingstörfum á laugardagskvöld,um ef þeir eru boðaðir til þess, en þó verður þetta að teljast óvenjulegt miðað við það að hér er ekki um að ræða stjfrv., heldur þmfrv. Ég er á þeirri skoðun að þetta mál þyrfti meiri undirbúning, og ég held að flm. málsins gætu verið fullsæmdir af því að fresta málinu til hausts og láta fara fram frekari undirbúning og að málið verði flutt hér á þinginu á hausti komanda. Ég álít að það sé út af fyrir sig mjög góðra gjalda vert að sýna málið í þinginu nú. Þá fá menn tækifæri til þess að hugsa það og athuga það nánar fyrir haustþingið, og mér býður í grun að það séu möguleikar á því að fá samkomulag milli þingflokkanna um að lögfesta fæðingarorlof í íslenskum lögum. En þá vil ég enn þá leggja á það áherslu að ekki verði gerður á þarna sá hinn mikli munur sem hér er um að ræða — og undirstrika það enn einu sinni — milli kvenna, sem erfiðast eiga að öllu leyti og ekki vinna úti og falla ekki undir þetta frv., eins og það er hér lagt fram, og kvenna, sem vinna úti. Þess vegna álít ég að það væri eðlilegast að vísa þessu máli til ríkisstj. til nánari athugunar og undirbúnings fyrir næsta þing. Ég vil aðeins setja það fram sem ábendingu án þess að ég geri um það beina tillögu.