12.05.1975
Neðri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3914 í B-deild Alþingistíðinda. (3106)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið frá því sem orðið er, en margt athyglisvert hefur þó komið fram sem ástæða væri til að orðfæra sérstaklega. Ég minnist þess að öll þau ár, sem ég veitti forustu í verkalýðssamtökum, var svar vinnuveitenda ávallt hið sama við þessari miklu réttlætiskröfu um fæðingarorlof kvenna: Hvar á að taka peningana? Og nú endurtekur sig sagan, og svarið er enn hið sama, en að vísu gefið af dálítið öðruvísi aðilum, — gefið af þeim aðilum sem að sínu leyti hafa þóst um árabil verið að berjast fyrir því heilagri baráttu að konur verkalýðshreyfingarinnar fengju fram þessi miklu mannréttindi. Ég orðlengi ekki frekar um þann tvískinnung sem í málflutningi þeirra kemur fram.

Þar er spurt um hvar eigi að taka peningana. Þó að þessir hinir sömu menn séu jafnan tillöguglaðastir að leggja fram till. um auknar fjárveitingar úr ríkissjóði, þá brestur nú í böndunum geta Atvinnuleysistryggingasjóðs til þess að standa undir þessum fjárútlátum að þeirra dómi. Ég hef reynt að gera mér grein fyrir því hvaða fjárhæð yrði hér um að tefla, ef þetta frv. yrði að lögum. Ég býst við að mér skjátlist ekki mikið í því að þarna kunni að vera um 60 millj. kr. að tefla það sem lifir ársins, — 60 millj. sem hámarkstala. Þó skal ekki fullyrt að þetta sé hin rétta tala, en hún er ekki mjög fjarri hinu rétta.

Það hefur áður verið tekið fram að menn eru þess albúnir að bæta Atvinnuleysistryggingasjóði upp það fé sem hann með þessum hætti þyrfti að verja til annars en þeirra nauðsynlegu athafna sem hann ella mundi veita fé til. En það verð ég að segja, að ég álít að það sé miklu brýnna og nauðsynlegra mál að verja fjármunum til þess arna heldur en t.d. að lána það til félagsheimila. Og í sambandi við það, sem hv. þm. Tómas Árnason benti á, að sjóðurinn hefði lánað til hafnarbóta, fiskiðnaðar, skuttogara o.s.frv., þá má þess gjarnan geta að við megum vænta þess að það sé liðin tíð að hann þurfi sérstaklega að verja peningum sínum til kaupa á skuttogurum þar sem mjög mun að sjálfsögðu draga úr þeim kaupum.

233 millj. kr. skildist mér á hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni á laugardaginn að mundu vera umfram það sem sjóðurinn er bundinn af lögum að verja fé sínu til. Ef hér er um 60 millj. eða lægri fjárhæð að tefla, þá er þetta ekki ofverk Atvinnuleysistryggingasjóðsins.

Það er sama hvernig á málið er litið, hér er sjálfsagt réttlætismál á ferðinni og það er tóm hræsni og yfirdrepsskapur þegar menn telja framgangi þessa máls til foráttu það að allar konur í landinu njóti ekki þessara réttinda. Mestan rétt og nauðsynlegastan eiga konur verkalýðshreyfingarinnar, það fer ekki á milli mála. Og ég endurtek það sem ég áður hef sagt að þessi réttindamál vinnast í áföngum eins og önnur og þeim mun auðveldari verður eftirleikurinn þegar konur verkalýðshreyfingarinnar hafa náð þessum mjög mikilvæga rétti. Ég er sannfærður um að þegar upp verður staðið og þetta orðið að lögum, þá munu menn sjá að ýmislegt af því, sem hér hefur verið teflt fram og að mínum dómi er hreinn fyrirsláttur, hefði betur verið látið ósagt.