12.05.1975
Neðri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3917 í B-deild Alþingistíðinda. (3108)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er alveg furðulegt, að mér finnst, hvernig hv. flm. þessa frv. haga meðferð þess hér á þingi. Þeir taka, hver og einn einasti næstum því, til máls við hverja einustu umr., halda þá langlokuræður hver um sig og halda þannig uppi málþófi, — málþófi, sem miklu frekar hefði mátt ætla að einhverjir úr stjórnarandstöðunni hefðu efnt til, en ekki þeir flm. þessa frv. sem telja heilaga skyldu sína, að því er talið er, að reyna að koma málinn í gegn. Ég fer a.m.k. að efast um að það fylgi jafnmikill hugur máli og þessir hv. flm. hafa látið sér orð um munn fara eftir þeim vinnubrögðum og þeim ræðum sem þeir hafa flutt hér við hverja einustu umr. málsins í deildinni. Ég segi að þetta sé furðulegt vegna þess að það er komið að lokum þingsins og þeir hafa, að því er mér hefur virst, reynt að leggja á það áherslu að málið fengi afgreiðslu, sakað akkur í stjórnarandstöðunni um að við værum að tefja málið, þó að við höfum flutt a.m.k. helmingi styttri ræður samanlagt — a.m.k. það — heldur en flm. sjálfir. Það verður því að teljast furðulegt þegar þessir hv. þm. eru að tala um að stjórnarandstaðan sé að tefja málið. Það er þveröfugt. Þeir eru sjálfir að gera tilraun til þess að tefja það og drepa því þannig á dreif.

Hv. 1. flm. þessa frv. rakti í alllangri ræðu í kvöld nokkuð af því sem fram hefur komið í þeim umr. sem átt hafa sér stað um málið. Ég tel að það sé ástæða til þess að minna þennan hv. þm. á að það eru ekki margir dagar liðnir síðan hann, ásamt tveimur öðrum stjórnarliðum, felldi að taka þetta upp í almannatryggingakerfið og greiða það öllum konum þó að bent væri á leiðir til að afla fjár til að standa straum af kostnaði. Svo kemur þessi hv. þm. ásamt fleiri flm. og segir að við séum andsnúnir málinu og við viljum drepa því á dreif, tefja þannig málið og við séum á móti því að konur almennt fái þessi réttindi. Það er víðs fjarri. Það voru þeir sem stóðu að því að fella þá till. sem var þess eðlis í sambandi við efnahagsmálafrv. að þetta færi inn í almannatryggingakerfið. Það eru þeir sem eru andvígir því að allar konur njóti þessara réttinda.

Það er rétt að rifja það hér upp hvort menn telja þetta eðlilega meðferð, eðlilega leið til þess að sem flestar konur njóti þessara sjálfsögðu réttinda. Nú er það svo, eins og allir vita, að t.d. konur í þjónustu hins opinbera hjá Vinnuveitendasambandi Íslands, og margar fleiri mætti tilnefna, hafa þessi réttindi. Ef þetta mál, sem er nú til umr., næði fram að ganga, þá er hluti af konum á Íslandi búinn að fá þessi réttindi í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð. Eigi að síður er enn eftir mikill fjöldi kvenna sem nýtur ekki þessara réttinda. Mætti því ætla að næsta skrefið yrði að t.d. bændakonur fengju þessi réttindi í gegnum einhvern sjóð bændastéttarinnar, þ.e.a.s. þá er komin þriðja útgáfa. Þrátt fyrir að þetta gerðist er enn talsverður fjöldi kvenna sem ekki nyti þessara réttinda. Að öllum líkindum yrði að leysa þeirra mál í gegnum almannatryggingakerfið. Það yrði þá í gegnum fjóra aðila, greiðsla á fæðingarorlofi kæmi þá frá fjórum mismunandi aðilum til kvenna á Íslandi. Ég dreg í efa að menn telji þetta jákvæðari leið ef menn hugsa þetta rökrétt, heldur en að setja þetta allt inn í eitt kerfi, almannatryggingakerfið. Ég a.m.k. teldi að það hefði verið æskilegra allra hluta vegna að þetta yrði gert með þeim hætti. (Gripið fram í.) Ja, það veitir ekki af, sumir eru sofandi.

Hv. 1. flm. þessa máls taldi að við hefðum haldið því fram, að málið væri bæði of stórt og of lítið. Ekki kannast ég við að hafa haldið þessu fram. (Gripið fram í.) Já, það var meint til annarra. Það er gott. Þá hefði átt að tiltaka það.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir fór einnig að blanda fóstureyðingamálinu inn í þetta. Ég sá ekki að það ætti neitt frekar heima í umr. um þetta mál heldur en þá samgöngumálin sem hún taldi fjarlæg þessu. En ég kom að því í dag og því hefur ekki enn verið svarað að ég teldi að það gæti verið vá fyrir dyrum ef það ætti að skerða það fjármagn sem Atvinnuleysistryggingasjóður hefði lánað til Hafnabótasjóðs. Það má vera að þessi hv. þm. skilji ekki tilgang þess, en það skilja a.m.k. þeir þm. dreifbýlisins sem hafa átt hlut að því að reyna að rétta þann hlut sem hin fámennu bæjar- og sveitarfélög hafa orðið að leggja fram til hafnarmannvirkja, — létta byrði þeirra bæjar- og sveitarfélaga, sem hafa þurft að standa undir þeim gífurlegu fjármunum sem hafa farið í kostnað að þessu leyti. Vera má að þessi hv. þm. skilji þetta ekki, en þá ætti hún að kynna sér það.

Þá spurði hún okkur að því, að því er mér skildist þá sem höfum verið reyna að leiðbeina hv. flm. inn á réttar brautir og fara með málið réttar leiðir, hvort við teldum virkilega að aðrar konur, þ.e.a.s. þær sem ekki kæmu til með að fá þessi réttindi í gegnum þetta frv., mundu sjá ofsjónum yfir því að hinar útvöldu fengju réttindi að þessu sinni. Það má alveg eins snúa þessu við. Sá hv. þm:. Ragnhildur Helgadóttir ofsjónum yfir því að allar konur á Íslandi fengju þessi réttindi, eins og lagt var til við afgreiðslu efnahagsmálafrv.? Ég efast um að það hafi verið tilgangur hennar eða meining.

Þá sagði hv. þm. að þetta væri fyrir konur sem hvað höllustum fæti stæðu og ættu minnstan kost þess að leiðrétta sin mál. Ég skal fyllilega taka undir það að hér er um áralangt baráttumál verkalýðshreyfingarinnar að ræða fyrir sína meðlimi sem ekki hefur fengist fram. En það eru þó aðrar konur sem kannske standa enn hallari fæti gagnvart þessu, þ.e.a.s, þær sem standa fyrir utan stéttarfélögin. Ég a.m.k. dreg í efa að hægt sé að benda með rökum á að það séu ekki fleiri konur sem standa höllum fæti að því er varðar það að rétta sinn hlut í þessu máli, — það eru því miður fleiri en þær sem við erum hér um að tala og koma til með að njóta þessa eftir þessu frv.

Þá sagði hv. þm. að þetta væri sjóður sem ætti með rökréttum hætti að sjá um þetta verkefni og hann væri fjármagnaður af atvinnurekendum. Það hefur verið minnst á það fyrr í þessum umr. að Atvinnuleysistryggingasjóður varð til eftir eitthvert harðasta verkfall sem verið hefur, a.m.k. hin síðari ár, og þá með þeim hætti að verkafólk lét af þeim kauphækkunum sem það hefði ella fengið hefði þessi sjóður ekki orðið til. Það er því ekki með neinum rétti hægt að segja að hér sé ekki um að ræða fjármuni sem verkafólk sjálft hefur afsalað sér til þess að það væri borgað í þennan tiltekna sjóð, — fjármuni sem hefur verið undirstrikað að verkalýðshreyfingin á a.m.k. frumrétt til.

Það væri auðvitað hægt að halda hér uppi miklu lengra máli ef það er ósk hv. flm. eins og mér virðist vera á þeirra framkomu. En ég er það hógvær, eins og fleiri hv. stjórnarandstæðingar, að ég vil ekki drepa málinu á dreif með málþófi. Við höfum marglýst því yfir að eftir að okkar till. um tekjuöflun höfðu verið felldar mundum við fylgja málinu við lokaafgreiðslu. Eigi að síður halda flm. áfram endalausum ræðuhöldum og málþófi um málið. (Gripið fram í.) Ég sé ekki að hæstv. sjútvrh. leiðist neitt undir þessum umr. Ég held að hann uni sér vel. Ég hef ekki séð annað.

Hv. þm. Jón Skaftason talaði hér og talaði með meiri þjósti en ég hef heyrt til þessa hv. þm. þau fjögur þing sem ég er búinn að sitja. En það beindist ekki að mér. Það beindist fyrst og fremst að flokksbróður hans, sem talaði rétt á undan honum, hv. þm. Tómasi Árnasyni og hann virtist vera að lesa honum lexíuna. Ég ætla því ekki að eyða neinum tíma til að ræða um málflutning hans að öðru leyti en því að hann kom inn á það, eins og fleiri flm. þessa frv., að við værum með tvískinnung í málflutningi gagnvart þessu máli. Það er allsendis ósæmandi þessum hv. þm. að bera þetta á borð hér í hv. d. Við höfum marglýst því yfir að ef það yrði niðurstaða að ekki yrði fallist á okkar leið í málinu, þá mundum við greiða atkv. með frv. Það er því út í hött hjá hverjum sem það reynir að reyna að telja fólki trú um að við séum með tvískinnung í þessu máli.

Ég ræddi um það við 2. umr. og einnig í dag við 3. umr. að mér fyndist á skorta að þeir, sem ekki vilja afla nýrra tekna til að standa undir þessu, bendi á hvað það er, sem þeir ætli að draga úr í fyrirgreiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það er aðeins einn hv. þm. sem komið hefur inn á þetta og það er hv. þm. Sverrir Hermannsson. Hann sagði að hann teldi að það mætti minnka fyrirgreiðslu til félagsheimila, þ.e.a.s. það mætti minnka fyrirgreiðslu til þeirra stofnana sem verkalýðsfélögin eiga a.m.k. mörg hver hlutdeild í og reka sína starfsemi í. Það er þetta sem má skera niður, segir hv. þm. Sverrir Hermannsson. (SvH: Hvað?) Til félagsheimila. (Gripið fram í.) Draga úr, viltu annað orðalag? Og svo einnig til fiskvinnslunnar og þá sérstaklega togaranna. Þarna er það fyrsta sem fram kemur sem ábending um það úr hverju eigi að draga varðandi fyrirgreiðslu hjá Atvinnuleysistryggingasjóði ef þetta frv. verður samþ.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði að hér væri ekki nema um 60 millj. kr. að tefla. (Gripið fram í.) Það er þriðja útgáfan af tölum þeirra hv. þm. sem talað hafa með þessu máli og bera það mikið fyrir brjósti. Hv. 1. flm., Ragnhildur Helgadóttir, telur að hér sé um 100 millj. að ræða. (Gripið fram í.) Sömu upplýsingar og hv. þm. hefur. Það voru 100 millj. þegar hún ræddi það hér í umr., og það eru þá ekki sömu upplýsingar ef hv. þm. Sverrir Hermannsson er með 60. Þriðja útgáfan af þessu var hjá einum hv. flm. þessa frv., hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni. Hann taldi að hér væri um 200 millj. að ræða. (GHG: Hv. þm. hlustaði ekki á umr. á laugardagskvöld.) (Forseti: Ekki samtal.) Það má vel vera að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hafi sagt eitthvað annað í lok umr. á laugardagskvöld en hann sagði áður í umr. og heldur en það sem hann sagði á fundi í þeirri n. sem fjallar um málið. Þar voru það 200 millj. (Gripið fram í.) Nú, ef þetta er rangt, þá væri gott að fá gefið upp hjá hv. þm. hvaða tala er nú. (SvH: 60.) Er það samþ.? (Gripið fram í.)

Það virðist vera æðimikið á reiki hvaða tölur það eru sem við getum reiknað með að komi til útborgunar verði þetta frv. samþ. Ég hef ekki um þetta tölur. Ég veit ekkert hverju ég á að trúa þegar koma þrjár útgáfur frá flm. sjálfum um upphæðir. En mér kæmi ekki á óvart þó að þessi upphæð væri einhvers staðar á milli 100 og 150 millj. kr. Það er kannske ekki meginmálið. Hitt er aðalspurningin. Það eru allir sammála um að þetta er gott mál svo langt sem það nær. En það eru aðrir, þ. á m. ég, sem telja að það hefði átt að fara aðra leið til þess að leysa málið og leysa það þá fyrir allar þær konur sem eru án þessara réttinda núna og það hefði átt að gerast í gegnum almannatryggingakerfið. Og ég vísa því til föðurhúsanna sem hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði, úr því að hann er kominn í salinn aftur, að við höfum í málflutningi hér verið með tóma hræsni og yfirdrepsskap. Við höfum marglýst því yfir að við vildum fara aðra leið, en að þeirri leið hafnaðri mundum við styðja frv. við lokaafgreiðslu.