27.11.1974
Efri deild: 11. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

60. mál, fullorðinsfræðsla

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það eru örfá orð. Ég vil þakka hv. þdm., sem talað hafa, fyrir vinsamleg ummæli og stuðning við þetta mál í heild þó að þeir að sjálfsögðu telji sig þurfa að athuga það allt saman nokkru nánar.

Ég vil láta það í ljós sem mína skoðun eða árétta það að ég held að við þurfum ekki að kvíða að þetta mál, t.d. afgreiðsla þess hér á þingi, hafi í för með sér seinkun á endurskoðun skólalöggjafarinnar eftir grunnskólastig né heldur að hún kunni að draga úr framgangi aukinnar verkmenntunar í landinu. M.a. held ég að víð þurfum ekki að óttast þetta af þeim sökum, að þó að þetta frv. sé nú lagt fram hér á Alþ. og talað fyrir því í dag, þá er áreiðanlega mjög löng leið í áfangastað í þessu máli. Málið er það viðamikið að það er ekki hugsanlegt annað en að svo sé. Hins vegar vil ég árétta það sem ég áðan sagði: Ég tel mjög nauðsynlegt að byrja á þessu, reyna að setja ramma um tilhögun þessarar fræðslu sem kölluð hefur verið fullorðinsfræðsla, sem mér finnst leiðinlegt orð, — setja ramma um tilhögun hennar og reyna að tryggja henni ákveðið fjármagn, hvort sem það yrði gert með því ákvæði, sem undirbúningsnefndin leggur til, eða á einhvern annan hátt. Menn eru misjafnlega hrifnir af svona ákvæðum um tekjuöflun, hv. þm. eins og aðrir, en þó eru þess nokkur dæmi í löggjöf að þessi háttur hefur verið á hafður eða eitthvað hliðstætt þessu. En ég segi það aftur að mér finnst það mjög eðlilegt og raunar alveg sjálfsagt að hv. þm. og aðrir, sem um þetta mál fjalla nú næsta áfangann, taki sér eðlilegan tíma til þess, því auðvitað er ýmislegt að athuga bæði um fjárhagshliðina og kennsluna. Og það er alveg gefið mál, að þó að n. hafi auðsjáanlega lagt mikla vinnu í undirbúning þessa máls, þá er málið bæði það nýstárlegt og það yfirgripsmikið að það þarf miklu ítarlegri athugun og það þurfa fleiri að koma fram með sitt álit á þessu máli en þegar hafa átt kost á því. Til þess að greiða fyrir því ákvað rn. á sínum tíma, eins og ég sagði áðan, að senda málið til umsagnar mörgum aðilum, þ. á m. samtökum sveitarfélaga, félagasamtökum og aðilum vinnumarkaðarins svonefndum, og er mjög nauðsynlegt að allir þessir aðilar fái að segja sitt orð og að álit þeirra verði tekið til vandlegrar skoðunar.

Ég vænti þess samt sem áður, að hv. menntmn. þessarar hv. d. geri sitt til að þoka málinu á leið. Það á áreiðanlega langt í höfn þó að vel verði hér að staðið, svo ég held að menn þurfi ekkert að kviða því að það detti yfir okkur alveg á næstunni með einhverjum ofurþunga, þetta er allt það yfirgripsmikið.