12.05.1975
Efri deild: 88. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3926 í B-deild Alþingistíðinda. (3127)

222. mál, Leiklistarskóli Íslands

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. utanrrh. að ég fagna sannarlega framkomu þessa frv. Það var tími til kominn að skapa viðunandi skilyrði slíkum skóla sem þessum. Ég tek það fram að ég hafði sitthvað við þetta frv. að athuga í upphafi, en ég sé það að þær breytingar, sem hafa verið gerðar á frv. í Nd., eru mjög til bóta og mjög að mínu skapi.

Ég ætla að segja örfá orð um þetta nú við 1. umr. og þó að það komi kannske ekki beint þessu máli við„ þá snertir það starf þessa skóla óbeint. Ég hef nefnilega ekki í huga fyrst og fremst spurninguna um nægilega mikið af hæfum leikurum fyrir aðalleikhúsin hér þó að ég viðurkenni þörf og endurnýjun á góðum starfskröftum þar. Leiklistin er sú listgrein sem hvað vinsælust hefur orðið og almennust þátttaka í úti á landsbyggðinni. Áhugastarfið hefur verið hið blómlegasta, furðumikill árangur oft náðst, hæfileikar komið í ljós sem ekki var vitað af og flestir eldri leikarar okkar eru einmitt komnir úr þessum áhugajarðvegi.

Það er mest um vert hér hve mikil þátttaka er á þann hátt í listrænni tjáningu, hve margir hafa á þennan hátt komist í snertingu við hvort tveggja, leiklistina sjálfa og góðar leikbókmenntir ekki síður. Varðandi leikbókmenntirnar mætti gjarnan vekja athygli á því mikla verkefni sem bíður okkar í því að vinna að íslenskum leikbókmenntum, ritum ísl. leikverka, sem ber að sinna sem best, en vanrækt hefur verið til þessa, þó að nú hafi leikhúsin hér syðra og á Akureyri tekið sig þar nokkuð á. En það er önnur saga. Hins vegar held ég að Leiklistarskóli Íslands væri um margt heppilegur vettvangur fyrir íslensk byrjendaverk og tilraunir í nýjungum í leikritagerð að nokkru.

En hvað áhugastarfið snertir, þá gildir leiðsögnin framar öðru um árangur, Leikhúsin hafa brugðist, sér í lagi Þjóðleikhúsið sem ætti að hafa sem eitt helsta verkefni sitt að senda leikara sína sem leiðbeinendur út um land til aðstoðar því mikla áhugastarfi, sem þar er, og því í fullri meiningu sagt merkilega áhugastarfi, sem þar er unnið. Góður leiklistarskóli gæti hér úr bætt því að mjög hefur leikstjóraskortur háð áhugastarfinu og gert það einhæfara en vera ætli því að margs konar kennsla í túlkun og framsögn þarf einnig til að koma.

Ég held nú að fátt væri nemendum þessa væntanlega skóla þroskavænlegra og lærdómsríkara á námsferli sínum en að koma út á land, leiðbeina þar og læra jafnframt. Ekki síst tel ég því unga fólki nauðsyn að kynnast einhverju öðru en því allra besta sem boðið er og oft byggist meira á lærdómi og æfingu en upprunalegum hæfileikum, svo mjög að oft hefur mér þótt hér í leikhúsunum sem leikbrögðin og ytri gerð beri hinn innri kjarna túlkunar og tjáningar ofurliði. Oft hættir þessu fólki líka til þess að lokast inni í einangruðum, ímynduðum listheimi án tengsla við iðandi þjóðlíf og aðra menningarstrauma en þá sem koma frá æðstu stöðum ef svo má segja.

Tengsl nemenda Leiklistarskóla Íslands við áhugastarf þurfa og eiga að vera ótvíræð og mikil. Ég legg á það sérstaka áherslu. Ég tel það starf ekki síður frjótt og áhugavert en í atvinnuleikhúsunum og væntanlegum leikurum og leiðbeinendum ekki síður nauðsyn að kynnast því rækilega. Það mætti þá gjarnan minna á starf án endurgjalds eða vona um laun, fórnfrekt og erilsamt, sem þessu unga fólki er líka hollt að kynnast áður en það heldur út á braut atvinnumennskunnar.

Ég skal ekki tíunda frv. sjálft að öðru leyti en því að ég fagna sérstaklega því, sem segir nú í 1. gr. frv., að heimilt sé að reka undirbúningsdeildir í tengslum við skólann annars staðar á landinu. Vonandi verður þess ekki allt of langt að bíða að svo verði í öllum landshlutum.a.m.k. veit ég að það samband leikfélaga á Austurlandi, sem þar starfar með blóma, hefur þar á fullan hug eða stjórn þess, að nýta sér sem fyrst þessa heimild.

Í öðru lagi tel ég það ávinning fyrir þann aðila sem ég ber einkum fyrir brjósti, samband áhugafélaganna, Bandalag ísl. leikfélaga, að eiga aðild að skólanefnd. Ég mun svo sannarlega beita mér fyrir því í stjórn þess að fulltrúi okkar komi því rösklega á framfæri við nemendur skólans að þeir kynnist áhugastarfi sem einum þætti í námi sínu.

Í þriðja lagi ber að fagna ákvæðinu til bráðabirgða þar sem segir svo, að það beri að taka tillit til þess náms sem nemandi hafi þegar lokið í skóla sínum og hvort hann hafi staðist þar hæfnismat. Þetta á við hvort tveggja, Leiklistarskóla leikhúsanna og Leiklistarskóla Samtaka áhugafólks um leiklist. Ég virði alveg sérstaklega og met mikils starfið hjá SÁL eða Samtökum áhugafólks um leiklist og leiklistarskóla þeirra, og ég hefði talið það miður ef við hefðum ekki sýnt það í verki með því að veita þeim þá viðurkenningu sem hér er farið inn á.

Fleiri atriði eru það ekki sem ég ræði. Væntanlega gefst okkur á næsta þingi gott ráðrúm til að ræða hvort tveggja, nýja löggjöf um þjóðleikhús og eins um áhugastarfið. Ég veit að sú löggjöf er í smíðum hjá hæstv. ráðh. og hann hefur góðan hug á að koma henni endurnýjaðri á framfæri, og þá um leið ættum við að ræða sérstaklega stuðning við íslenska leikritun sem ég tel brýna undirstöðu alls leiklistarstarfs — ekki síður, kannske miklu fremur en túlkun erlendra leikverka.