12.05.1975
Efri deild: 88. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3928 í B-deild Alþingistíðinda. (3128)

222. mál, Leiklistarskóli Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka vinsamlegar undirtektir við þetta frv. En ég kvaddi mér ekki hljóðs til þess aðeins, heldur vildi rétt í sambandi við þetta mál rifja það upp að n. hafði undirbúið frv. um breyt. á l. eða öllu heldur ný lög um stuðning við áhugaleiklistarstarfsemina í landinu og n. hafði skilað frv. til rn. fyrir alllöngu. Mér líkar ekki alls kostar búningur þess frv. þó að margt sé í því ágætt. Ég hafði um tíma ráðgert — og ég hygg að það hafi kannske komið fram í þingræðu — að leggja frv. fram eigi að síður í lítið eitt breyttri mynd, sýna það í þinginu. En ég hvarf frá því. Ég mun í sumar leita samráðs við fulltrúa áhugafólksins um frágang þessa frv. og stefna að því að það geti orðið lagt fram í þingbyrjun í haust ásamt þá með frv. til þjóðleikhúslaga sem auðsjáanlega verður ekki afgr. á þessu þingi. — Mér fannst rétt að láta þetta koma fram hér með tilliti til þess sem ég hef áður sagt um þetta atriði.