12.05.1975
Neðri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3930 í B-deild Alþingistíðinda. (3146)

264. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Frsm. meiri hl. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á l. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins á að sínu leyti samleið með öðru frv. sem væntanlega kemur til umr. næst á eftir. Frv. fjallar um breyt. á ávöxtun og verðtryggingu Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Í ljós kom, þótt menn ætluðu annað, að í l. frá 1969 var ekki fólgin sú gengistrygging, sem menn höfðu ætlað, að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins nyti, þar sem líta varð svo á að gjaldeyrisvarasjóðurinn sjálfur væri baktrygging hans, en sú trygging var úr sögunni um leið og gjaldeyrisvarasjóðurinn var uppurinn. Þetta frv. er sem sagt um ávöxtun og tryggingu Verðjöfnunarsjóðsins og ef á skyldi skorta um tryggingu og ávöxtun af hálfu Seðlabankans er ríkissjóði gert að bæta þar um, svo að sjóðurinn verði að jafnaði að fullu tryggður.

N. mælir með samþykkt frv., en hv. þm. Garðar Sigurðsson og Sighvatur Björgvinsson gera grein fyrir afstöðu sinni í sérstöku nál. en þeir hafa í nokkrum atriðum ýmislegt við málið að athuga og afgreiðslu þess í heild. Hv. þm. Pétur Sigurðsson var eini nm. sem var fjarstaddur afgreiðslu málsins.