12.05.1975
Neðri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3933 í B-deild Alþingistíðinda. (3152)

104. mál, almannatryggingar

Ellert B. Schram:

Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til þess að standa hér upp og þakka n. afgreiðslu málsins eins og frsm. n. hefur lýst henni. Ég ásamt fjórum öðrum hv. þm. stóð að flutningi þessa frv. sem eins og fyrr segir er nokkuð gamalt héðan úr þingsölum að meginefni til. Mér þykir hins vegar miður hversu málið hefur dregist í afgreiðslu n. án þess að ég sé að saka n. um það. En einmitt vegna þess að enginn ágreiningur virðist vera fyrir hendi í n., þá er það miður að það skuli ekki hafa fengið afgreiðslu frá henni fyrr, því að nú er, eins og öllum er ljóst, nokkuð tvísýnt um framgang þess og lögfestingu vegna takmarkaðs tíma.

Þetta mál er gamalt baráttumál íþróttasamtakanna og íþróttamanna, og er að þeirra dómi sanngirnismál og það er fagnaðarefni að hv. n. skuli mæla einróma með því. Ég vænti þess eindregið að n. og þingið í heild taki undir þetta álit með því að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir.