12.05.1975
Neðri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3935 í B-deild Alþingistíðinda. (3156)

265. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hér er til umr. nokkuð sérkennilegt frv., þ.e.a.s. frv. til l. um breyt. á l. nr. 78 frá 1974, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu. Eins og hv. þm. heyra er þetta nokkuð hátt laganúmer frá síðasta ári sem bendir til þess að þau lög, sem þarna á og stendur til að breyta með þessu frv., séu ekki orðin ýkjagömul. Enda eru þau lög ekki eldri en svo að þau eru frá 30. ágúst á s.l. ári. Þá þótti núv. hæstv. ríkisstj. bráðnauðsynlegt að leggja frv. fram um þessi lög og samþykkja, og ekki síst nauðsynlegt að samþykkja 2. gr. frv. sem var höfuðefni þess. Nokkrum mánuðum síðar er svo gengið fellt í annað sinn. En nú í lok þings sér hæstv. ríkisstj. ástæðu til þess að ómerkja sín eigin lög. Á þessu sést hver vinnubrögð þessarar hæstv. ríkisstj. eru og á þessu sést einnig að a.m.k. hæstv. sjútvrh. hefði þurft að fara á eitt gott og rækilegt námskeið í sjávarútvegsmálum áður en hann gerðist svo djarfur að taka að sér þennan málaflokk, ekki síst þegar tekið er tillit til þess að þessu embætti hefur sinnt mjög fær maður á undanförnum árum. Og það er sannarlega hörmulegt að hæstv. sjútvrh. skuli gefa mönnum tilefni til þess að bera saman verk hans og fyrrv. sjútvrh. Ég vil ekki núv. hæstv. sjútvrh. svo illt að bera saman vinnubrögð þessara tveggja manna og bera saman árangur af þeirra starfi. (Gripið fram í: Þakka þér fyrir það.) Ég vil honum ekki svo illt.

Þegar hæstv. ráðh. var að fjalla hér um mjög alvarlegt mál nú fyrir örstuttu, þá var þessi sami hæstv. ráðh. ánægðastur með það, að allir aðilar í atvinnagreininni, allir sem einn og hver út af fyrir sig, voru óánægðir, allir mótfallnir og enginn gat séð ljósan punkt í þeirri ráðstöfun sem hæstv. sjútvrh. var að beita sér fyrir. Fyrrv. hæstv. sjútvrh., hv. þm. Lúðvík Jósepsson, var ánægðastur með þau málalok þegar sem flestir gátu verið ánægðir. Það voru ekki aðeins allir þeir aðilar sem til var leitað í hlutaðeigandi sjávarútvegsmáli sem voru óánægðir. Það er ekki síður öll þjóðin sem hefur þurft að fá að taka út á verk þessarar hæstv. ríkisstj. og ekki síst vegna þeirra frv. sem hefur verið boðað að væru til lausnar á vandamálum útgerðarinnar, en hafa alls ekki orðið til þess. Allt virðist hafa snúist í höndunum á þessum hæstv. ráðh., og ég held að hann ætti að tala varlega um það að við í minni hl. þessarar hv. n. ættum að fara að læra eitthvað í sjávarútvegsmálum. Ég er ekki frá því að við gætum kennt hæstv. ráðh. allnokkuð í sjávarútvegsmálum, og hann hefur vissulega engin efni á því að vera að taka svo stórt upp í sig hér í þessum efnum.

Við í minni hl. n. höfum reynt að sýna ábyrga pólitík í öllum þeim málum sem að okkur hefur verið vikið í n. Og við munum ekki nota tækifærið til þess að halda uppi málþófi og tefja fyrir framgangi mála. Hæstv. ráðh. sagði áðan að stjórnarsinnar reyndu yfirleitt að stytta mál sitt þegar kæmi að þinglokum til þess að auðvelda afgreiðslu mála. Hæstv. ráðh. er oft mjög gamansamur og það er ánægjulegt þegar húmor kemur fram hjá einhverjum hv. þm. hér á Alþ.

Og það var svo sannarlega öfugmæli sem hæstv. ráðh. sagði í sambandi við þetta efni, eins og svo margt annað, því að við höfum nú verið að fást við frv. um fæðingarorlof undanfarna daga sem á að fjármagna með skemmtanaskatti eða hvað það nú er og það hefur verið eytt í þetta hverjum deginum af öðrum á alvarlegasta tíma þingsins og haldið uppi málþófi af stjórnarsinnum.

Hæstv. ráðh. þótti illu að sér vikið og skoðanabræðrum sínum og meðhjálpurum í hæstv. ríkisstj. þegar við vildum kenna þeim um nokkurn hluta af ábyrgðinni að hafa eytt gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Við skulum nú aðeins skoða málið. Hver skyldi hafa komið í veg fyrir að hægt var að halda í þann gjaldeyrisvarasjóð sem fyrir var og var nú býsna myndarlegur um áramótin 1973–1974? Það væri ekki úr vegi að rifja aðeins upp hvernig staðan var þá. Um þau áramót var gjaldeyrisvarasjóðurinn rúmlega 7 200 millj. kr., þær birgðir, sem til voru í landinu, voru um 2 850 millj. kr. og sá útflutningur, sem farið hafði fram, en ekki hafði enn skilað gjaldeyri, hann var að verðmæti um 2 000 millj. kr., þannig að gjaldeyrisvarasjóðurinn var þá, um þau áramót liðlega 12 milljarðar kr. Það var sem sagt yfir 12 milljarða kr. í gjaldeyrisvarasjóði um þau áramót. En hvað skeður um þau áramót? Þá skeður það að sú ríkisstj., sem hafði á stuttum tíma gjörbreytt tryggingakerfi landsmanna til hagsbóta fyrir aldrað fólk og öryrkja og þá sem minnst máttu sín, breytt því í sæmilegt horf frá þeim eymdarkjörum sem viðreisnarstjórnin hafði skammtað þessu fólki, var að ljúka valdaferli sínum, — sú stjórn, sem byggði upp öll atvinnutæki landsmanna frá því að hafa tekið við af viðreisnarstjórninni sem lét atvinnutækin drabbast niður. Þá missti þessi stjórn, hæstv. fyrrv. ríkisstj., raunverulega öll tök á landsmálum. Þá brást einn stjórnarflokkurinn og ríkisstj. hafði engan stjórnhæfan meiri hl. Þessi hæstv. ríkisstj., sem þá sat, kom með till. um lausn vandamálanna, en stjórnarandstaðan, sem þá var í landinu, neitaði alfarið að taka nokkurn þátt í því að afgr. mál, hvort sem þau voru góð eða vond. Það eina sem hún hugsaði um, var að komast í valdastólana. Það eina sem hún hugsaði um var að sú ríkisstj. færi frá. Hvort mál væru góð eða vond skipti engu máli. Á þessum tíma var spákaupmennska mikil í landinu. Það var alltaf verið að prédika það í Mogganum, hæstv. ráðh., að nú væri allt að fara á hausinn, nú væri alltaf verið að gera ráðstafanir. Og allir keyptu fyrir allt sem þeir áttu og tóku lán og bankakerfið hljóp undir bagga og á mjög stuttum tíma var mjög miklu af gjaldeyrisvarasjóðnum eytt, en þó ekki meira en svo að í lok júlímánaðar voru 2 600 millj. eftir af þeim sjóði. Það væri vissulega ástæða til að taka þennan hæstv. ráðh. rækilega til bæna. En eins og ég sagði áðan, þá ætlum við ekki að tefja afgreiðslu mála hér á hv. Alþ. með löngu máli eða málþófi. Við sýnum í þeim efnum eins og öllum öðrum, miklu meiri ábyrgð en stjórnarsinnarnir sjálfir. (Gripið fram í.) Svo þóttist hæstv. ráðh. vera að segja hér áðan að núv. hæstv. ríkisstj. hefði tekið við í ágúst til þess að reyna að bjarga því sem bjargað varð. Sér er nú hver björgunin. Við skulum þá víkja aðeins nánar að frv. sem hér er til meðferðar.

Eins og ég gat um í upphafi er þetta frv. til þess að breyta lögum, fyrstu lögum sem núv. hæstv. ríkisstj. setti. Þessi lög voru sett í lok sumarþingsins, 30. ágúst, og voru fylgifiskur gengisfellingarinnar, fyrstu stórgengisfellingar þessarar hæstv. stjórnar og ekki síðustu. Að vanda var gert ráð fyrir því að mynda gengishagnaðarsjóð og síðan sagði í grg. með þessu frv., eins og segir í nál. mínu og hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, að áður en þessu gengishagnaðarfé væri ráðstafað til hinna ýmsu greina og sjóða sjávarútvegsins, þá skyldi fyrst greiða þrennt: Í fyrsta lagi hækkanir á flutningskostnaði og öðru og í öðru lagi gengisbætur, eins og skráð er hér í frv., vegna innstæðna Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins.

Nú segir í frv. um Verðjöfnunarsjóð, í aths. um það frv., að gjaldeyriseign Seðlabankans hafi ekki verið nema 487 millj. og gengishagnaður af þeirri upphæð hafi ekki dugað til þess að bæta Verðjöfnunarsjóði sitt gengistap. En það var bara miklu meiri gjaldeyrir til en þetta. Það er meiri gjaldeyrir til en gjaldeyriseign Seðlabankans. Það er auðvitað gjaldeyrir til í öllum birgðum sem í landinu liggja, og það er enn gjaldeyrir til í þeim birgðum sem eru fluttar út og ekki hafa verið gerð gjaldeyrisskil fyrir. Þess vegna er eðli málsins samkv. ekki óeðlilegt að Verðjöfnunarsjóði yrði bætt sitt gengistap með í fyrsta lagi gengishagnaði af nettóinneign Seðlabankans og í öðru lagi hluta af gengishagnaði þeirra birgða sem til voru í landinu og fluttar út. Og það var einmitt gripið til þess ráðs með lögunum nr. 78 frá 1974. Það var meiningin að taka þessar 400 millj., sem á skorti, af gengishagnaðarsjóðnum til þess að bæta Verðjöfnunarsjóði sitt tap.

En það var ekki liðinn langur tími frá því að þessi lög voru samþ. og þar til fram kom frv. hér á hv. Alþ. um ráðstafanir þessa margnefnda gengishagnaðar. Aðeins nokkrum vikum eftir að þetta frv. hafði verið samþ. voru ákvæði þessara laga sniðgengin. Lögin voru hreinlega brotin. Og það segir í aths. við frv. á þskj. 546: „Með þessu frv. er lagt til að b-liðurinn verði felldur niður. Ástæðan til þess er fyrst og fremst sú að þörfin fyrir stuðning við útveginn er talin svo brýn, að framlög til hans hljóta að ganga fyrir öðru“. Og ekki er ég að andmæla því. En síðan segir: „Enda voru á Alþ. samþ. lög í des. 1974, þar sem við ráðstöfun gengismunarfjár var reiknað með þessari meðferð“ — sem sagt að brjóta nýsett lög, að taka 400 millj., sem áttu að fara í Verðjöfnunarsjóðinn, og setja í útgerðina eða í gengishagnaðarsjóðinn áfram.

Það gefur auðvitað auga leið þegar menn skoða og fylgjast með framgangi þessara mála hvílíkt fálm er þarna á ferðinni. Þarna er verið að setja lög í lok ágúst og síðan ákveðið að brjóta þau strax í nóv. Og það er auðvitað ekki það eina sem menn hafa fyrir augunum um vinnubrögð þessarar hæstv. ríkisstj, Allar stjórnarathafnir þessarar hæstv. ríkisstj. eru í svipuðum dúr og þetta. Það er trúlegt að b-liður 2. gr. margnefndra laga nr. 78/1974, hefði ekki haldið vegna þess að þá hefði þurft að breyta lögum um Verðjöfnunarsjóð. Þó getur verið — ég er ekki lögfræðingur — að þau lög hefðu haldið. En alla vega er það hæstv. sjútvrh. sem beitir sér fyrir því að nýsett lög nýinnkominnar stjórnar eru þverbrotin strax á fyrstu vikum stjórnartímabilsins.

Það er dálítið athyglisvert að fletta upp í umr. um þetta mál frá sumarþinginu, og það er ekki síður athyglisvert að skoða svör hæstv. forsrh. við ýmsum þeim spurningum sem beint var til hans og bera svo saman hvað hefur gerst í þeim efnum. Það væri líka mjög forvitnilegt fyrir þá hv. þm. sem ekki hafa kynnt sér þetta mál frá grunni og þyrftu kannske líka að fara á námskeið eins og við hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og hæstv, ráðh. Ég get nefnt sem dæmi að hæstv. forsrh. var spurður að því hvort það væri gert ráð fyrir vegna þessara laga, að hlutaskiptum sjómanna yrði breytt með lögum. Hæstv. forsrh. svaraði því neitandi og sagði orðrétt, með leyfi forseta: „Það er ekki fyrirhugað.“ En hver varð svo raunin? Hlutaskiptum sjómanna var breytt með því einfaldlega að hækka um 5% það gjald, sem tekið var af óskiptu í Stofnfjársjóð fiskiskipa. Það þýðir það að tekið er af óskiptum afla meira en áður var gert og þar með hlutaskiptunum raskað. Hæstv. forsrh. var einnig spurður að því m.a. hvað hann gerði ráð fyrir að fiskverð hækkaði mikið. Hæstv. forsrh. svaraði því þannig að það væri í höndum Verðlagsráðs sjávarútvegsins, í höndum yfirnefndar. Af þessu svari hæstv. ráðh. hefði mátt ætla að yfirnefnd sjávarútvegsins hefði átt að ákvarða fiskverð eins og hún átti að gera lögum samkv. Hver varð svo raunin? Það voru sett lög um það að fiskverð mætti ekki hækka meira en um 11%

Ég nenni ekki að lesa meira úr þessari romsu. Allt er þetta á eina bókina lært. Það er hæstv. ríkisstj. sem brýtur sjálf sín eigin lög. Hún stendur ekki við það sem ráðh. svaraði hér úr ræðustóli. Það gengur á annan veg en þar er sagt.

Ég vil að lokum benda á það að við í minni hl. þessarar hv. n. höfum ekki samþykkt að afgreiða þetta mál. Við sögðum einmitt að við tækjum ekki þátt í afgreiðslu málsins og mundum skila séráliti, enda skrifum við ekki undir nál. meiri hl., — við tækjum ekki þátt í afgreiðslu málsins, hvað svo sem stendur þarna á plaggi hv. þm. Sverris Hermannssonar, það er annað mál. Við bendum á það í okkar nál. að þetta mál, sem hér er til meðferðar, er komið til vegna mistaka ríkisstj. og hennar eigin lagabrota og það er ríkisstj. ein sem ber ábyrgð á öllum þeim ráðstöfunum, sem hún hefur gripið til. Hún ber ábyrgð á afleiðingum sinna mistaka og rangra aðferða sem hún hefur beitt frá upphafi og lýsa sér best í því að gengisfellingar ríkisstj. hafa valdið útgerðinni miklu meiri vanda en þær hafa leyst. Og við vísum til hennar allri ábyrgð af málsmeðferð þessari allri og tökum ekki þátt í afgreiðslu þessa máls.